Aðgerðir Alþjóðaráðs Rauða krossins í Líbanon

22. ágú. 2006

Einni viku eftir vopnahléð reyna Suður-Líbanar að ráða við afleiðingar átakanna sem hafa skilið eftir ör á þorp þeirra og bæi, en einnig valdið miklu manntjóni. Þann 18. ágúst byrjuðu hundruð fjölskyldna að syrgja þegar starfsmenn hins opinbera og sjálfboðaliðar unnu hlið við hlið að því að opna að nýju fjöldagrafir í Tyre og flytja jarðneskar leifar fólks aftur í þorpin. Greftranir hafa verið haldnar á mörgum stöðum, þar á meðal þorpum sem nú eru lítið annað en heimili sem jöfnuð hafa verið við jörðu. Þorpið Aita al Shaab, sem er syðst í landinu, sýnir vel hversu mikil eyðileggingin hefur verið. Ónýtar göturnar eru sterkur bakgrunnur við þöglar konurnar með svörtu blæjurnar sem ganga hljóðlega að mosku þorpsins. Svipað er ástatt í öðrum þorpum við landamærin.

Sprengjuregnið hefur einnig orðið til þess að sprengjubrot hafa dreifst um þorpin og dreifbýlið í kring. Síðustu tveir dagarnir áður en vopnahléð tók gildi voru verstir. Skemmdir á byggingum, þar á meðal kirkjum, moskum, sjúkrahúsum og söfnum, hafa breytt heilum hverfum og þorpum í rústir.

Uppskera sem ekki var hægt að vökva vikum saman vegna sífelldra loftárása hefur einnig brostið. Hundruð búfjár hafa dáið úr þorsta og hræ þeirra liggja á ökrunum og rotna. Þegar bændurnir snúa aftur á bæi sína uppgötva þeir hversu miklar skemmdirnar eru auk þess sem þeirra bíða miklir erfiðleikar með að ná í vatn. Miklar viðgerðir eru framundan á vatnsveitunum áður en þær verða nothæfar aftur.

Íbúar munu þurfa að bíða lengi áður en rafmagn kemst á aftur og vatn fer að flæða úr krönunum. Og biðin verður enn lengri fyrir þau hundruð fjölskyldna sem ekki hafa þak yfir höfuðið.

Aðgerðir Alþjóðaráðsins og samstarfsaðila þess

Skráð verður hversu mikil eyðileggingin er í bæjum og þorpum nálægt landamærunum. Á meðan bílalestir reyna að komast á alla staði í Suður-Líbanon til að veita fólki aðstoð verða þær fyrir ýmsum hindrunum og sjá margt hræðilegt. Sumt af því hefur þegar verið sýnt um allan heim.

Á mörgum stöðum leggur mikinn fnyk frá rústum bygginga þar sem lík liggja grafin undir þeim. Þó að sjálfboðaliðar Rauða kross Líbanon hafi fjarlægt tugi líka á fyrstu dögunum eftir vopnahléð en mörg eiga enn eftir að finnast.

Við landamærin hafa starfsmenn Alþjóðaráðsins þurft að ganga milli raða af ísraelskum skriðdrekum og vopnaðra hermanna til að komast í lítil þorp þar sem nokkrir eldri borgarar lifðu í algjörri einangrum vikum saman.

Verkfræðingar frá Alþjóðaráðinu hafa með aðstoð líbanskra vantsveitustarfsmanna heimsótt dælustöðvar og aðra staði til að meta skemmdirnar á vatnsveitunni. Starfsmennirnir eru byrjaðir að gera við en það mun taka nokkurn tíma að gera veituna starfhæfa að nýju og því þarf að finna tímabundnar lausnir. Alþjóðaráðið hyggst vera með rafmagnsdælu sem flutt verður milli þorpa og verður hún notuð til að dæla vatni úr brunnum þar sem það er mögulegt.

Dreifing á mat og öðrum hjálpargögnum hefur farið fram í Suður-Líbanon. Þá er búið að útvega sjúkrahúsum 20 þúsund lítra af bensíni ásamt saumum, göllum, skurðáhöldum og lyfjum. Flest nauðsynleg lyf fyrir alvarlega sjúkdóma þarf að kaupa á staðnum þar sem þau eru ekki hluti af neyðarpökkum Alþjóðaráðsins. Tvö hundruð þúsund sjúklingar fá mánaðarbirgðir af þessum lyfjum. Einnig verða útveguð tæki fyrir blóðbanka.
Alþjóðaráðið heldur reglulega fundi með Alþjóða Rauða krossinum og landsfélögum, meðal annars frá Tyrklandi, Katar, Kúveit og Sádi-Arabíu til að skiptast á upplýsingum um sameiginleg verkefni.

Frá 12. júlí til 21. ágúst flutti Rauði kross Líbanon 984 særða á brott auk þess sem hann meðhöndlaði 7.684 sjúkratilfelli. Þá sótti hann 398 lík.

Síðan átökin hófust hefur Alþjóðaráðið veitt 31 þúsund fjölskyldum matvælaaðstoð, flutt 62 þúsund lítra af bensíni á staði á borð við sjúkragús og vatnsveitur, útvegað lyf og aðrar nauðsynjar á sjúkrastofnanir og flutt yfir 3.000 tonn af hjálpargögnum til svæðisins.