Uppbygging í Aceh einu og hálfu ári eftir flóðbylgjuna

Robin Bovey

26. jún. 2006

Robin Bovey með börnum í Aceh. Hann hefur fylgst með uppbyggingunni frá því að flóðbylgjan skall á landið. Mynd: Þorkell Þorkelsson.

Robin er sendifulltrúi Rauða krossins í Aceh þar sem hann stýrir dreifingu hjálpargagna.

Að mörgu leyti er erfitt að trúa því að eitt og hálft ár sé liðið síðan ég kom hingað til Aceh til að aðstoða eftir hinn mikla jarðskjálfta og flóðbylgju. Af hverju erfitt, jú því svo virðist sem að hjá mörgum þeirra sem misstu svo mikið hefur lítið breyst, en þó hefur mjög margt breyst á annan hátt hér í Aceh.

Stundum er erfitt að muna hversu hrikalegur þessi atburður var. Reynið að ímynda ykkur hvað myndi gerast í Reykjavík ef risastór flóðbylgja myndi skella á borginni um hálftíma eftir jarðskjálfta upp á 9,1 stig. Ekki aðeins vatnsveggur, heldur vatnsveggur á 50 km hraða á klukkustund þegar hann kom að landi og vatnsveggur á hæð við þriggja hæða hús. Ímyndið ykkur hvaða tjón slíkt myndi valda á byggingum, götum, vatnsbirgðum, rafmagni og samgöngum.

Síðan eftir að hjálpin hafði borist og fólk fór að ræða um enduruppbyggingu, ímyndið ykkur öngþveitið þegar fólk reyndi að færa sönnur á lóðareign sína, að þetta væri þeirra lóð (sérstaklega þar sem margar opinberar skrifstofur voru í rúst). Ímyndið ykkur síðan að allt þetta gerist í landi þar sem daglaun eru fjórir dollarar (tæpar 300 krónur), þar sem flestir eru illa menntaðir og hafa misst svo marga úr fjölskyldu sinni og vini. Banda Aceh var 280 þúsund manna borg og um helmingur íbúanna lét lífið á fáeinum mínútum 26. desember 2004.

Á meðan sumir gagnrýna hversu hægt miðar við að hjálpa fólki er staðan í raun sú að ný samfélög spretta upp eins og gorkúlur meðfram vesturströndinni, full af nýjum húsum og líf margra hefur augljóslega batnað. Ný mótorhjól fylla göturnar, markaðir hafa ekki aðeins opnað að nýju, heldur selja grænmeti og ávexti sem ræktaðir eru á staðnum auk innfluttra afurða frá Norður-Súmötru.

En á sama tíma, já, er enn fólk ? allt of mörg hundruð manns? sem búa enn í tjöldum og fljótreistum skammtímaskýlum sem er niðurdrepandi áminning um hve gríðarlega mikið verk er enn óunnið. Það var ljóst að það tæki tíma að byggja upp eftir slíka tortímingu og ef viðkomandi aðilar eiga að vinna verkið vel, þá þarf að gera það af alúð og vandvirkni, heldur en eingöngu að ljúka því sem fyrst. Rauða kross hreyfingin er stærstu samtökin sem eru að starfa í Aceh og er að vinna gríðarlega gott starf. Í hverri viku eru fleiri hús tilbúin, skólar eru endurbyggðir, heilbrigðisstofnanir opna að nýju og lífsviðurværi fólksins byggist upp.

Ef þú spyrðir hvað stæði upp úr hjá mér persónulega eftir síðustu 18 mánuði, þá er það hin mikla þrautseigja fólksins í Aceh sem hafa ekki aðeins yfirstigið þessar skelfilegu náttúruhamfarir, heldur hafa búið við um 30 ára aðskilnaðarátök í þessum hluta Indónesíu. Fyrir þann tíma, var það nýlendustríðið við Hollendinga sem lauk 1949 eftir 300 ára nýlenduryfirráð og kúgun (með heimsyfirráða tilburði frá Bretum inn á milli), innrás Japana í seinni heimstyrjöldinni og sífelldra átaka við þá sem vildu ná yfirráðum í héraðinu áratugum áður en Hollendingar stigu þar á land, snemma á 17. öld. Vegna mikilvægrar staðsetningar sinnar við enda Molucca sundsins hefur Aceh hérað verið eins konar hlið að Evrópu, Miðausturlöndum og Indlandi fyrir þá sem vilja eiga viðskipti við austurlönd, einkum Kína og öfugt. Þetta öfluga verslunarnet hefur veitt Aceh-héraði sinn sérstaka persónuleika og menningu ? verið hliðið að Mecca frá austri og hefur einnig augljós merki, enn í dag, áhrifa frá Kína og Hindu trúarbragða.

En fyrir Alþjóðaráð Rauða krossins og í mínum huga persónulega, hafa þessi mál fölnað í bakgrunninum síðan í ágúst, þegar gert var friðarsamkomulag milli stjórnvalda í Indónesíu og GAM ? vopnaðrar sjálfstæðishreyfingar í Aceh.  Þá loks, í fyrsta sinn eftir átta ára viðveru Alþjóðaráðsins í Aceh fékk það aðgang að þeim svæðum sem verst höfðu orðið úti í átökunum. Þar til í ágúst stýrðu stjórnvöld aðgangi að þessum svæðum með harðri hendi. Loksins komumst við til þessara þorpa ? margra ótrúlega afskekktra með erfiðri aðkomu? yfir stórar og straumharðar ár sem falla af hinum gríðarmikla fjallahrygg Aceh, langt inn í skógivaxin svæði eftir skelfilegum vegum. Vegna legu sinnar urðu þetta mikil átakasvæði þar sem mörg þeirra voru á valdi GAM og þar með skotmörk stjórnarhersins ? eða voru vinveitt stjórnvöldum og þar með sættu árásum frá GAM.

Þá eru það þær þúsundir aðfluttra manna - en fólksflutningar eru eitt af opinberum markmiðum stjórnvalda ? þúsundir manna sem hvattar voru til að flytja frá Jövu til afskekktra svæði í Aceh vegna offjölgunar á Jövu.  Þegar átökin áttu sér stað var litið á þessi samfélög Jövu-búa sem utanaðkomandi samfélög og á þau ráðist. Og til að flækja málið eins mikið og hægt er þá búa margir þjóðflokkar í Aceh, ekki bara Aceh búar, einn þessara hópa er fólkið á miðhálendinu, Gayo fólkið. Þar ræðir nú fólk um að stofna nýtt hérað aðskilið frá Aceh ? og það áður en kosningar hafa verið haldnar, sem lofað var eftir friðarsamkomulagið. Það er því vægt til orða tekið að ástandið er flókið.

Við þessar aðstæður hefur Alþjóðaráð Rauða krossins metið ástandið á mörg hundruð svæðum Aceh-héraðs þar sem ástandið er hvað verst eftir átökin. Þetta eru afskekktustu svæði miðhálendisins ásamt suðvestur og norðausturströndinni. Á þessum svæðum er Alþjóðaráðið oft einu mannúðarsamtökin. Til aðstoðar þessu fólki sem er að snúa aftur heim ? oft eftir mörg ár í burtu ? hefur Alþjóðaráðið útvegað þeim áhöld til að byggja upp heimili sín.

Mikilvægara er þó að Alþjóðaráðið er að aðstoða þetta fólk við að koma sér upp lífsviðurværi með dreifingu á útsæði og áhöldum til jarðræktar. Flest af þessu fólki eru bændur og meðan átökin stóðu yfir, breyttust akrar þeirra aftur í gróskumikið skóglendi.  Það er því mikið átak að endurheimta landið sem ræktarland. Alþjóðaráðið mun nú einbeita sér að landbúnaðaraðstoð næstu 18 mánuðina. Augljóslega þarf aðstoðin einnig að tryggja almennt heilbrigði fólks og mun Alþjóðaráðið endurvekja mæðra ? og ungbarnavernd í að minnsta kosti einu afskekktu sveitafélagi í Aceh, en slíkt þjónusta á að vera til staðar í hverju þorpi. Þrátt fyrir gnægð vatns í Aceh, er skortur á hreinu drykkjarvatni og hreinlætisaðstöðu útbreitt vandamál í héraðinu og eru hópar á vegum Alþjóðaráðsins að aðstoða við að byggja upp brunna og  hreinlætisaðstöðu í þessum afskekktu þorpum.

Nú, þegar mínum tíma hér í Aceh er að ljúka er mergð minninga í huga mér - af hryllingi og af fegurð, en sterkust er ímyndin af krafti fólksins í Aceh til að lifa af. Ég ber vonir í brjósti ? ég vona að friðarferlið gangi eftir, að tjöld og önnur bráðabirgðaskýli heyri brátt sögunni til, að sundrað lifsviðurværi fólks muni fljótlega jafna sig. Helst af öllu samt, vona ég að fólk hafi tíma til að takast á við allan sinn missi, halda áfram lífi sínu og blási glæðunum í hina stórkostlegu menningu Aceh, sem hefur verið þögguð niður árum saman.  Því miður hefur mikið af þessari menningu skaðast vegna náttúruhamfara og átaka, þar sem á slíkum tímum er óhjákvæmilegt að menningarleg auðlegð í lífi fólks er vanrækt.

Enn koma reglulegir jarðskjálftar sem taka á taugarnar, en nú er fólk ekki eins óttaslegið og jafnvel þó að við stoppum og lítum hvort á annað til hughreystingar, minnkar óttinn eftir því sem minningarnar frá 26. desember 2004 búa um sig í hjörtum manna.