Þjóðhátíðarkveðja frá Malaví

Birnu Halldórsdóttur

22. jún. 2006

Birna er sendifulltrúi í Malaví þar sem hún stýrir matvæladreifingu í sunnanverðu landinu.

Malaví, 17. júní 2006
Sit við borðið mitt úti á veröndinni hér í Lilongwe, höfuðborg Malaví, hlusta á íslenska tónlist, Borgardætur, Hauk Mortens, Ellý og Vilhjálm, KK ofl. góða, og borða íslenskan lakkrís. Hvað er hægt að hafa það betra á sjálfan þjóðhátíðardaginn fjarri heimahögunum og hugurinn er hjá ykkur. Ekki er hægt að kvarta því sólin skín í heiði og hlýr blærinn leikur um fæturna á mér, að auki er ég ekki alveg ein á báti. Það eru fleiri Íslendingar á svæðinu og ætlum við að hittast á morgun og borða hangikjöt, hákarl, pönnukökur og annað góðgæti. Getur varla verið íslenskara eða hvað? 

Það liggur þannig í því að Þróunarsamvinnustofnun Íslands (ICEIDA) hefur bækistöðvar og sendiráð hérna í borginni. Stofnunin styður við ýmis verkefni niður við Apaflóa við Malavívatnið, ma. heilsugæsluverkefni, fiskveiðirannsóknir og tækniráðgjöf, fullorðinsfræðslu (lestrarkennslu) og byggingu barnaskóla og í Lilongwe er veittur tæknilegur og fjárhagslegur stuðningur við landbúnaðarháskólann og sjúkrahúsið. Í kringum þessi verkefni eru sex Íslendingar að störfum, 12 með fjölskyldum sínum og svo er ég 13. Íslendingurinn, ekki slæmt það. Það er nú algjör lúxus að geta talað sitt eigið tungumál jöfnum höndum, það er ekki alltaf svo þegar maður er úti í feltinu að störfum.  

Hvað er ég svo að gera hérna? Ég fór út um miðjan janúar til að fylgja eftir matvæladreifingu sem Alþjóðasamband Rauða kross félaganna hefur staðið fyrir í samvinnu við malavíska Rauða krossinn frá því í desember. Það var dálítið undarlegt að koma hingað til að dreifa mat þegar allt var iðagrænt og gróðurvænlegt, en það er ekki allt sem sýnist. Þó maísinn væri grænn og plantan liti vel út í mínum augum þá var langt í land að úr yrði maísstappa eða ?nsima? eins og það heitir á ?chichewa? máli innfæddra. Það var ekki fyrr en í maí að bera fór á maísstönglum á mörkuðunum og núna er fólk í óða önn að mala baunirnar eða koma stönglunum í geymslu til seinni tíma mölunar. Það er nú þannig hjá Malövum að máltíð án maísstöppu er eins og ef Íslendingum hefði verið boðið upp á máltíð án kartaflna hérna áður fyrr.

Áður en gróðurhúsaáhrifin fóru að hafa áhrif á úrkomuna og valda þessum þurrkum og uppskerubresti var talað um að Malaví væri fæðuforðabúr sunnanverðrar Afríku. Það er af sem áður var og margir hverjir berjast í bökkum. Flestir Malavar úti á landsbyggðinni eru smábændur sem lifa á því sem landið gefur af sér og hægt er að rækta, selja síðan afurðir sínar við vegakantinn. Allir eru þeir með hænsni, einnig inni í borgunum, nautgripi, geitur eða kindur. Þær eru af öðrum stofni en okkar, hárlitlar eins og geitur og hélt ég í fyrstu að hér væru eingöngu um geitur að ræða. Áttaði ég mig ekki á þessu fyrr en mér var bent á að kindurnar væru með hangandi eyru og langan hala, en á geitunum vísa eyrun upp og dindillin líka. Þá vitiði það.

Í borgum og bæjum eru flest allir með smá landskika til að rækta fyrir sig og fjölskylduna. Svo hérna í Lilongwe eru allir bakgarðar þaktir maís svo og önnur auð svæði í borginni. Þar sem grænir grasbalar og eyjur eru heima í Reykjavík eru þessir reitir þaktir maís hérna. 

Maísinn er háður reglulegri vökvun og því getur verið erfitt þegar rigningin brestur eins og átti sér stað árið 2005 sem olli því að seinni hluta ársins var orðið erfitt um aðdrætti hjá þeim sem minna máttu sín. Þá kom til kasta alþjóðastofnana að fjármagna matargjafir og voru mest áberandi breska þróunarsamvinnustofnunin (DFID), Alþjóða matvælastofnunin (WFP), Alþjóðasamband Rauða krossins (IFRC) og ekki má gleyma malavíska ríkinu sem lagði til sinn skerf. Síðan sáu hinar ýmsu hjálparstofnanir, sem þegar voru við störf um landið, um dreifinguna ásamt starfsfólki ríkisins á viðkomandi stað. 

Alþjóðasamband Rauða krossins vinnur alltaf með Rauða kross félaginu í viðkomandi landi. Við dreifðum aðeins í fimm héruðum í sunnanverðu landinu, þar sem ekki náðist að safna meiru fé til að fara á fleiri svæði. En matarpökkunum sem dreift var fyrir hverja fjölskyldu samanstendur af 50 kg maís, 10 kg baunum, 15 kg soyamjöli og fimm lítra af grænmetisolíu. Skjólstæðingar okkar eru HIV/AIDS smitaðir og langveikir sjúklingar sem Rauði krossinn styður við með heimsóknum sjálfboðaliða og heimaþjónustu, einnig fengu þeir aðilar sem sjá um foreldralaus börn matarpakka. Nóg er af þeim þar sem opinberar tölur um HIV/AIDS smitaða er um 15% og dánartíðnin mikil. Þorpshöfðingjarnir voru með í að skipuleggja dreifinguna og sjálfboðaliðar aðstoðuðu við hana ásamt starfsfólki Rauða krossins. Hef ég ekki áður verið viðstödd matardreifingu sem hefur farið svo vel fram. Engin læti eða ruðningur, hvert þorp fyrir sig og hinir biðu rólegir eftir að röðin kæmi að þeim. Eina skýringu má gefa, þeir voru ekki alveg við dauðans dyr og önnur er sú að Malavar eru mjög kurteist og hógvært fólk. Stundum getur hógværð þeirra reynt á þolrifin þegar þeir segja já, en meina nei. Hvernig eigum við að átta okkur á þessu þegar við erum vön að segja nei þegar við meinum það. Ég er nú aðeins farin að læra á mitt fólk, en klikka samt stundum. 

Uppskeran var með ágætum í flestum héruðum landsins, sem betur fer og matvæladreifingunni að mestu lokið. Við eigum aðeins eina dreifing eftir, en það er ?Matur fyrir vinnu? í einu þeirra héraða sem urðu illa úti vegna skorts á rigningu á nokkrum afmörkuðum svæðum. Rigningin er nefnilega kaflaskipt hérna og getur jafnvel rignt á hálfan akurinn, en hinn helmingurinn er þurr. Hollenski Rauði krossinn styður við byggingu heilsugæslustöðva í þremur héruðum um miðbik landsins. Þar sjá þorpsbúar um að koma múrsteinum, sandi og öðru byggingarefni á staðinn og fyrir það fá þeir matarpakka. Matarlítið fólk á ekki auðvelt með vinnu og til að styrkja það höfum við verið með þessa matardreifingu í stað vinnu. 

Samhliða matardreifingunni höfum við verið með vatnsveituverkefni á einu af þeim svæðum þar sem við höfum verið að dreifa mat. Erum við nú þegar búin að bora fyrir 10 nýjum vatnsdælum og endurbætt átta sem hafa ekki verið virkar og ætlum að halda áfram. Það er samt ekki nóg að fólk fái hreint vatn og því erum við einnig með fræðslu um hollustu og hreinlæti og mikilvægi þess til að koma í veg fyrir hina ýmsu kvilla. Vatnsdælunefndir eru settar á laggirnar við hverja vatnsdælu og fá þeir leiðbeiningar um viðhald og minniháttar viðgerðir. Það virðist ekki hafa verið forgangsverkefni hjá yfirvöldum að gera við vatnsdælur og hafa þær í sumu tilvikum verið óvirkar í tvö ár. Gæti þetta tengst því að það eru konurnar sem sækja allt vatn til heimilisins? Sú hugsun læddist að mér ?? Ég ræddi við nokkrar konur eitt sinn er ég fór að líta á verkefnið. Þær þurftu sumar hverjar að ganga allt að tvo km í næstu dælu, aðrar að vaða yfir á og enn aðrar sem þurftu að notast við http://www.redcross.isárvatnið, sem var langt frá því að vera lystugt, móbrúnt að lit. Það er heldur ekki bara ein ferð sem þær þurfta að fara eftir vatni á dag heldur allt upp í sex til sjö ferðir, eftir stærð ílátsins og hvort þær eiga dætur sem geta aðstoðað þær. Þær voru ekki háar í loftinu hnáturnar sem voru með vatnsfötuna á kollinum eins og mæður þeirra. Það er ótrúlegt hvað þeim tekst þetta hönduglega án þess að fatan velti um koll eða dropi úr henni, svo ég tali nú ekki um allt það sem þær geta staflað upp á höfuðið í annan tíma. Þær eru líka metnar eftir því hversu mikið þær geta borið á höfðinu, þeim mun eftirsóttari eftir því sem þær geta borið meira.

19. júní
Til hamingju með daginn konur, mikið óskaplega erum við heppnar að vera fæddar á Íslandi. 

Héldum upp á þjóðhátíðardaginn í gær í glampandi sólskini að vanda. Við Íslendingarnir og nánir vinir okkar söfnuðumst saman heima hjá henni Margréti Einars hjá ICEIDA, borðuðum íslenska matinn og þessar líka dýrindis pönnukökur með íslenskri rabbarbarasultu og þeyttum rjóma. Hvað er hægt að hugsa sér það betra. 

Þá er ég sest niður aftur og ætla að halda áfram þar sem frá var horfið, búin að stilla iPodinn minn á íslensku tónlistina og yfir engu að kvarta, nema hvað að lakkrísinn er búinn.

 Í mars fékk ég heimsókn frá íslenska Rauða krossinum, en hann styður við HIV/AIDS verkefni á einu af þeim svæðum, Chirazulu, þar sem við vorum að dreifa matarpökkum. Það var ótrúlegt að sjá hvað þessi stuðningur hefur þýtt mikið fyrir þetta fólk, bæði þá sem eru smitaðir og einnig börnin sem eru búin að missa foreldra sína úr eyðni og hvernig þau komast af. Stuðningshópar hinna smituðu hafa verið stofnaðir, sem er mjög mikilvægt þar sem þetta er verulega viðkvæmt mál og margir hverjir eru enn í leynum með sjúkdóminn. Eitt af því sem einnig er búið að koma á meðal hina smituðu er að skrifa ættarbók í máli og myndum fyrir þá sem eftir lifa þegar þeir hverfa á braut. Þeir hafa þá eitthvað áþreyfanlegt til að minnast hinna látnu, því hjá fæstum eru myndaalbúmin fyrir hendi. Það var alveg frábært að sjá þetta. Vonast ég svo til að Rauði kross Íslands auki stuðning sinn við þetta svæði, þar sem við erum búin að gera drög að og senda tillögu að áveituverkefni. Spænski Rauða krossin hefur verið með áveituverkefni á öðru svæði hérna og hefur það reynst mjög vel og eru fleiri aðilar að koma að slíkum verkefnum annars staðar. Áveitukerfi er eitt af þeim fyrirbyggjandi verkefnum sem gætu komið í veg fyrir uppskerubrest.

Starfið mitt hérna felur í sér mikið af ferðalögum á þau svæði sem við dreifum á og núna þar sem við erum að bora eftir vatni. Það er ýmislegt sem ber fyrir augu í þeim ferðum. Eitt sinn stoppaði ég bílinn því ég hélt að konurnar við vegakantinn væru að veifa að  mér berjum til sölu, en viti menn þegar betur var að gáð þá reyndist þetta vera pöddur sem þær borða af bestu lyst og eru mjög næringaríkar. Ég var ekki alveg tilbúin að láta til leiðast í það sinnið. Þetta er nú ekkert öðruvísi en sniglarnir sem við erum að borða af bestu lyst eða froskalappirnar sem aðrir gæða sér á.

Farskjótar flestra karlmanna á landsbyggðinni eru reiðhjól og er ótrúlegt hvað þeir geta staflað á bögglaberann, stundum fer staflinn upp fyrir höfuð á hjólreiðamanninum. Ég er hrædd um að ég ætti erfitt með að halda jafnvægi með allt þetta á hjólinu. Reiðhjólin þjóna einnig til fólksflutninga, en þá er bögglaberinn bólstraður og sér maður stundum heilu fjölskyldurnar á reiðskjótanum. Hér er ekki mikið um dráttarvélar eða aðrar landbúnaðarvélar, held ég geti talið þær á fingrum annarrar handar sem ég hef séð. Aftur á móti er mikið um uxa sem draga kerrur og plóga, annars er það mannshöndin með fornfáleg áhöld sem yrkir jörðina og tínir það sem hún gefur af sér. Mikið er um bómullar- og tóbaksræktun og þá til útflutnings, sem og terækt. Er þá oft um stórbýli að ræða sem eru flest í eigu hvítra.
 Þó skrifstofan mín sé gámur sem búið er að innrétta, þá þarf nú ekkert að kvarta því fyrir utan hann vaxa þessar líka fallegu jólarósir, bæði hvítar og rauðar og ekkert í líkingu við þessa sem við puntum með á jólunum, líkjast frekar trjárunnum en pottablómum. 

Maður hreyfir sig lítið nema í bíl svo ég varð að taka til minna ráð. Fann þessa líka fínu leikfimi þar sem svitinn drýpur af mér þrisvar í viku, svo er það gönguhópurinn ?Hash? sem ég geng með á mánudögum og síðast en ekki síst þá hittumst við nokkur á miðvikudögum í jóga. Til að kóróna hreyfiþörfina þá er ég búin að fara tvisvar í fjallgöngu hérna fyrir utan borgina með hópi af góðu fólki og er von á fleiri slíkum gönguferðum.   

Um páskana skrapp ég til Harare í Zimbabwe í heimsókn til Huldar sem vinnur á svæðisskrifstofu Rauða krossins. Brugðum við okkur í þriggja daga ferð suður í land ásamt nokkrum félögum

Held það sé kominn tími til að slá botninn í þetta að sinni. Er að fara til Harare á laugardaginn og verð þar í viku.

Það versta er að núna er veturinn genginn í garð og frekar kallt á kvöldinn og nóttunni, en sólin vermir vel á daginn. 

Vona að allt gangi vel hjá ykkur heima og óska ykkur gleðilegs sumars.

Kveðjur héðan úr sunnanverðri Afríkunni