Chernobyl: Greining á krabbameini í skjaldkirtli getur bjargað mörg hundruð mannslífum

14. jún. 2006

Vvacheslav Alexandroich, sem er fæddur árið sem kjarnorkuslysið varð, er í læknisskoðun hjá Vladimir Sert lækni. Læknirinn ferðast á milli sex greiningastöðva Rauða krossins á afskekktum svæðum í Úkraínu, Belarus og Rússlandi, þar sem tekin eru 90.000 sýni á hverju ári.
Tuttugu árum eftir kjarnorkuslysið í Chernobyl, sem er það versta í mannkynssögunni, fjölgar krabbameinstilfellum í skjaldkirtli stöðugt meðal þeirra sem voru á barnsaldri þegar slysið átti sér stað.

Sprengingin í kjarnorkuverinu 26. apríl 1986 varð til þess að geislamengun breiddist út um stóran hluta Hvíta-Rússlands, Rússlands og Úkraínu. Sérfræðingar spá því að krabbameinstilfellum haldi áfram að fjölga á næstu fimm árum og verði stórt heilbrigðisvandamál á komandi árum.

Alþjóða Rauði krossinn hefur í gegnum mannúðar- og endurhæfingaráætlun sína í Chernobyl fylgst með afskekktum svæðum sem urðu fyrir geislamengun og kannað hvort þar hafi komið upp krabbamein í skjaldkirtli meðal fólks sem þar býr. Það er m.a. gert með læknisskoðun, röntgenmyndatöku og vefsýnum. Síðan áætlunin fór af stað árið 1997 hefur 1.120 tilfelli skjaldkirtilskrabbameins verið greind. Aðeins tveir þeirra hafa látist. Þetta sýnir umfram allt að ef sjúkdómurinn greinist snemma eru góðar líkur á bata. Rauði krossinn vinnur á afskekktum svæðum og nær þannig til fólks sem nýtur ekki hefðbundinnar heilbrigðisþjónustu. Ef krabbamein greinist fer sjúklingurinn til meðferðar á sjúkrahús í nágrenninu og þess vegna bjarga þessar aðgerðir hundruðum mannslífa á hverju ári.

Læknalið Rauða krossins notar sex færanlegar rannsóknarstofur og þeir sem vinna að þessari áætlun skoða 90 þúsund manns á ári. Þrjár af þessum rannsóknarstofum eru í héruðunum Brest, Gomel og Mogiley í Hvíta-Rússlandi, tvær í héruðunum Royono og Zhitomir í Úkraínu og ein í héraðinu Bryansk í Rússlandi. Á öllum þessum rannsóknarstofum er hægt að taka vefsýni ef grunur leikur á um krabbameinssmit og er þar hægt að fá skjóta og örugga greiningu sem getur bjargað lífi viðkomandi.

Síðan áætluninni var hleypt af stokkunum árið 1990 hafa yfir þrjár milljónir manna notið aðstoðar í gegnum hana, næstum 810 þúsund hafa verið skoðaðir og milljónir til viðbótar hafa fengið lyf, fjölvítamín, upplýsingar um heilsufar og sálfræðihjálp. Á hverju áru er tryggt að um 50 þúsund börn fái fjölvítamín í gegnum Rauða krossinn í Hvíta-Rússlandi, Rússlandi og Úkraínu. Árlega fá svo um 15 þúsund manns sálfræðihjálp en það fólk þjáist einkum af þunglyndi og kvíða.

Alþjóða heilbrigðisstofnunin segir að áhrif andlegrar vanlíðunar í Chernobyl sé stærsta heilbrigðisvandamálið sem orsakast af kjarnorkuslysinu í dag. Samkvæmt upplýsingum frá Sameinuðu þjóðunum búa um sjö milljónir manna á svæðum þar sem mikil geislamengun er enn til staðar. Rauði krossinn leggur áherslu á að þetta fólk gleymist ekki. Þó að miklar hamfarir geri það að verkum að fórnarlömb þessa slyss eru ekki í sviðsljóðinu vofir skuggi slyssins yfir næstu kynslóðum. Áhrif geislunarinnar munu verða til staðar í mörg ár til viðbótar og miklu máli skiptir að fylgjast vel með fólkinu áfram til að koma í veg fyrir ótímabær dauðsföll.

En til þess að það sé hægt þarf aðstoð alþjóðasamfélagsins. Rauða kross félögin í löndunum þremur munu halda áfram að styðja við mannúðaraðgerðir stjórnvalda. Alþjóða Rauði krossinn mun einnig leggja sitt af mörkum. Nú er leitað langtímafjármagns til að styðja við áætlunina í Chernobyl þangað til hægt er að samhæfa starfsemi rannsóknarstofanna inn í heilbrigðiskerfi landanna. Búist er við að það geti gerst á næstu árum.