Erlent samstarf um málefni hælisleitenda og flóttamanna

16. mar. 2006

PERCO - Samráðsvettvangur Rauða kross félaga í Evrópu í málefnum hælisleitenda, flóttamanna og útlendinga almennt.

Almennt
PERCO er samráðsvettvangur Rauða kross félaga í Evrópu til að fjalla um málefni flóttamanna, hælisleitenda og MIGRANTS og var stofnað árið 1997 í Kaupmannahöfn. Nú eru tuttugu og eitt landsfélög í Evrópu aðilar að PERCO samstarfinu.

Alþjóðahreyfing Rauða krossins er stærsta einstaka hreyfingin sem aðstoðar flóttamenn og hælisleitendur. Hreyfingin starfar með grundvallarmarkmið sín að leiðarljósi, sérstaklega grundvallarmarkmiðin um mannúð og óhlutdrægni.

Markmið PERCO er að þróa og styrkja starfsemi Rauða kross félaga sem lýtur að starfi með flóttamönnum og hælisleitendum, bæði innanlands og á alþjóðavísu. Með auknu samstarfi geta Rauða kross félögin bætt ástand flóttmanna- og hælismála í álfunni.

Á meðal helstu verkefna PERCO má nefna: 
- Að vera samráðsvettvangur til að auðvelda samvinnu og samstarf og mynda tengslanet Rauða kross félaga í Evrópu. 
- Styrkja málsvarnarstarf Rauða kross félaga í Evrópu í þeim tilgangi að hafa jákvæð áhrif á stefnu stjórnvalda í málefnum hælisleitenda og flóttamanna. 
- Bæta getu Rauða kross félaga í Evrópu og Alþjóðasambands Rauða krossins og Rauða hálfmánans til að sinna málefnum flóttamanna og hælisleitenda í Evrópu auk málefna útlendinga almennt. 
- Efla umburðarlyndi og baráttuna gegn kynþáttahatri, útlendingahatri og félagslegri útilokun.

PERCO hefur gefið út nokkrar leiðbeiningar um hvernig skuli staðið að móttöku hælisleitenda, leiðbeiningar um fjölskyldusameiningu, leiðbeiningar um hvernig skuli staðið að heimferð (e. repatriation) flóttamanna og fleiri leiðbeiningar er varða hælisleitendur, flóttamenn og útlendingamál almennt. Þessar leiðbeiningar má nálgast á ensku á heimasíðu PERCO (linkur - http://www.ifrc.org/what/disasters/types/popmov/perco/ )

Fjöldi PERCO landsfélaga
PERCO og landsfélög Rauða krossins og Rauða hálfmánans hafa einsett sér að vinna að flóttamanna-, hælisleitenda- og útlendingamálum og starfa í því augnamiði oft með einstaklingum, samtökum og ríkisstjórnum til að hafa jákvæð áhrif.

PERCO er svæðisbundinn vettvangur og er aðild opin fyrir landsfélögum Rauða krossins og Rauða hálfmánans í löndum sem tilheyra Evrópusambandinu, EES, verðandi og hugsanlegum aðildarríkjum ESB.

Í október 2005 voru alls 21 landsfélag aðilar að PERCO samstarfinu og eru þau eftirfarandi: Austurríki, Belgía, Bretland, Búlgaría, Króatía, Danmörk, Finnland, Frakkland, Grikkland, Ísland, Ítalía, Litháen, Malta, Holland, Noregur, Pólland, Serbía & Svartfjallaland, Spánn, Svíþjóð, Sviss og Þýskaland. Að auki eiga Evrópuskrifstofa Rauða krossins í Brussel, Alþjóðasamband Rauða krossins og Rauða hálfmánans (IFRC) og Alþjóðaráð Rauða krossins (ICRC) áheyrnarfulltrúa í PERCO.