Barátta við malaríu í Sierra Leone

Hlín Baldvinsdóttur

16. okt. 2006

Hlín er sendifulltrúi Rauða kross Íslands og starfar nú að verkefni kanadíska Rauða krossins við að hefta útbreiðslu malaríu í Sierra Leone. 


Hópur á vegum Rauða kross Kanada kom hingað til Sierra Leone snemma í vor búinn bakpokum, sandölum og fartölvum, til að ganga til liðs við Rauða krossinn hér gegn þeim vágesti sem er börnum yngri en fimm ára hve hættulegastur. Þessi óvinur ræðst til atlögu snemma nætur, drepur í hljóði og hefur valdið dauða þúsunda barna. Vegna hans lifa aðeins fáir hér lengur en í 40 ár. 

Um 17% þeirra fimm milljóna sem búa í Sierra Leone eru börn yngri en fimm ára. Þrátt fyrir það er dánartíðni barna hér sú hæsta í heiminum en fjórðungur barna í landinu deyr áður en fullorðinsárum er náð. Um 38% dauðsfallanna má rekja til malaríu, sem bæði er hægt að lækna og koma í veg fyrir að smitist. Þessar sláandi tölur sýna hversu mikilvægt er að berjast gegn malaríu.

Rauði kross Kanada er að verða heimsþekktur fyrir að vera í fararbroddi í forvörnum gegn malaríu. Með því að útvega löndum í Afríku ókeypis flugnanet er Rauði krossinn að koma í veg fyrir malaríusmit þar sem moskítóflugur, sem smitaðar eru af malaríu, drepa tugi þúsunda á dag. Þessi sjúkdómur hefur staðið ýmiss konar framþróun fyrir þrifum í löndum í álfunni þannig að mikið er í húfi.

Ég er nú í fyrsta sinn í Sierra Leone og sama gildir um tvo starfsfélaga mína. Við erum hér að aðstoða Rauða kross Sierra Leone en yfir 4000 sjálfboðaliðar taka nú þátt í herferð á vegum félagsins til að koma í veg fyrir malaríusmit. Rauði krossinn dreifir um 875 þúsund flugnanetum vítt og breitt um Sierra Leone. Þannig er flugnanetum, sem úðuð eru skordýraeitri, dreift til allra barna sem eru yngri en fimm ára. Verkefnið er unnið í samstarfi við heilbrigðisráðuneytið í Siera Leone og er hluti af herferð gegn malaríu og mislingum.

Áður en ég kom til Sierra Leone vissi ég að landið er frægt fyrir rigningar, en bleiku gúmmístígvélin og regnkápan veittu litla vörn gegn afrísku regni. Það er erfitt að ímynda sér hvernig fólk getur lifað við þessi erfiðu veðurfarslegu skilyrði. Í bakpokanum eru fötin mín orðin græn af myglu. Allt í kring eru hús sem byggð eru af vanefnum orðin græn vegna gróðurs, sem hefur augljóslega fundið góðan vaxtarstað.

Veðurfarið skýrir það hvers vegna flestir vilja búa utanhúss frekar en inni í húsum sínum. Vatnspollarnir og rakinn sem eru alls staðar eru hins vegar kjöraðstæður fyrir moskítóflugurnar sem ráðast miskunnarlaust á fórnarlömb sín í myrkrinu. Þær smita, og drepa oft, börn og fullorðna sem veikir eru fyrir.

Sem erlendir hjálparstarfsmenn erum við svo lánsöm að vera vel útbúin að heiman öllum nauðsynlegum búnaði til að vernda okkur sjálf gegn malaríu.Við erum með töflur, flugnanet og skordýraeitur. Ég veit þó sjálf hvernig það er að veikjast. Ég veiktist hér sjálf þrátt fyrir miklar forvarnir og því skil ég fullkomlega hitann, martraðartilfinninguna, skjálftann og svitann. Og það þrátt fyrir að ég hafi verið svo heppin að fá meðferð gegn sjúkdómnum en hún er mjög dýr hér.

Því miður eru þjáningar litlu barnanna mjög raunverulegar. Þegar börn njóta engra varna og engir fjármunir eru til fyrir læknisaðstoð bíður barns sem smitast hefur ekkert nema dauðinn innan nokkurra daga. Það sorglegasta við þetta er að það kostar aðeins átta dollara (um 600 krónur) að dreifa flugnaneti. Fyrir svo lága upphæð getur flugnanet verndað barn í allt að fjögur ár.

Með malaríuherferð Rauða krossins sem lýkur um áramótin gerum við ráð fyrir því að bjarga megi lífi 22.440 barna yngri en fimm ára næstu þrjú árin. Fleiri en 4.000 sjálfboðaliðar frá Rauða krossinum hér munu þó halda starfinu áfram eftir langtíma áætlun. Áfram verður fólki kennt að nota netin og það frætt um sjúkdóminn og varnir gegn honum.