Þróunin í stefnu Bandaríkjanna og lögum um fanga: afstaða Alþjóða Rauða krossins

20. okt. 2006

Í viðtali við vef Alþjóða Rauða krossins ræðir forseti hans, Jakob Kellenberger, um þróunina í stefnu Bandaríkjanna og lagasetningu um þá sem eru í haldi vegna baráttunnar gegn hryðjuverkum.

Hver eru viðbrögð Alþjóða Rauða krossins við nýjustu laga- og stefnubreytingu sem átt hefur sér stað í Bandaríkjunum vegna þeirra sem handteknir eru í „stríðinu gegn hryðjuverkum”?

Stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa nýlega tekið nokkrar athyglisverðar ákvarðanir um gæslu, meðferð og réttarhöld yfir föngum sem eru í haldi þeirra. Meðal þeirra er útgáfa leiðbeininga varnarmálaráðuneytisins um gæslu fanga og leiðarvísi hersins um yfirheyrslu, birting á áætlun CIA um fangagæslu og samþykkt á herlögum 2006. Rauði krossinn skoðar þetta gaumgæfilega og er í viðræðum við bandarísk stjórnvöld um hvaða áhrif þetta getur haft.

Við skulum ekki gleyma því að þar til í september 2006 sögðu bandarísk stjórnvöld að fangar þeirra fengju mannúðlega meðferð sem samræmdust alþjóðlegum mannúðarlögum. Síðan Hæstiréttur kvað upp úrskurð sinn í Hamdan í júní 2006 hafa bandarísk stjórnvöld viðurkennt að þriðja grein Genfarsamninganna sé lágmark þess sem þarf að lögfesta hvað varðar fanga sem eru í haldi vegna stríðs gegn hryðjuverkum.

Í nýlegri tilkynningu frá varnarmálaráðuneytinu var viðurkennt að þriðja grein Genfarsamninganna sé virt og fangar njóti þeirra lágmarksréttinda sem hún kveður á um. Það er jákvæð þróun.

Hvernig les Alþjóða Rauði krossinn í ný hryðjuverkalög Bandaríkjamanna?

Þetta eru flókin lög sem taka á mörgum málum. Sum þeirra eru innanríkismál en önnur fela í sér túlkanir á alþjóðalögum, þar á meðal mannúðarlögum.

Við fyrstu sýn veldur þessi löggjöf okkur áhyggjum og vekur margar spurningar. Það er skilgreint vítt hver er „óvinveittur lögbrjótur og stríðsmaður” og ekki eru skýr mörk á þeim sönnunum sem þurfa að liggja fyrir til að hægt sé að handtaka mann.

Við höfum einnig áhyggjur af því að í lögunum eru tvö bannákvæði sem eru ekki inni í þriðju greininni sem er sameiginleg í öllum fjórum Genfarsamningunum. Þar er listi yfir brot sem teljast „alvarleg brot” viðaukans, sem er lengri en í greininni sjálfri (þar hefur verið bætt við nauðgun, kynferðisbrotum, líffræðilegum tilraunum og að valda alvarlegu líkamstjóni með vilja), sem er athyglisvert. Á sama tíma eru nokkur brot ekki talin með sem teljast stríðsglæpir í Bandaríkjunum. Meðal þeirra er bann við að vanvirða fólk, einkum niðurlægjandi meðferð á fólki, og að koma í veg fyrir sanngjörn réttarhöld, sem er réttur sem tryggður er í alþjóðalögum. Þetta er í hróplegu ósamræmi við þriðju greinina.

Við ræðum nú þessi mál og fleiri við Bandaríkjamenn.

Þú minntist á þriðju greinina. Hvers vegna er hún svona mikilvæg?

Þriðja greinin er sameiginleg Genfarsamningunum fjórum frá 1949 en hún er til þess fallin að vernda fórnarlömb stríðsátaka. Henni var upphaflega ætlað að leggja niður reglur fyrir aðila sem áttu í innanlandsófriði. Reglurnar vernda þá sem taka ekki beinan þátt í átökum með því að banna að þeir verði drepnir, limlestir, pyntaðir, misþyrmdir, teknir sem gíslar eða auðmýktir. Þá er einnig bannað að fella dóma án þess að öllum viðurkenndum réttarreglum sé fylgt. Í viðaukanum kemur fram að ákvæði hans séu lágmarksákvæði sem aðildarríkjum beri að virða.

Með tímanum voru þessi ákvæði talin vera svo mikilvæg til að gæta mannúðar í stríði að vitnað er til þeirra sem grundvallarákvæði mannúðar sem verði að hlíta í öllum stríðsátökum. (Aðrir Genfarsamningar, sem gilda eingöngu um átök innan ríkja, innihalda ítarlegri öryggisákvæði). Þriðja greinin er því orðinn grunnur sem ekki á að víkja frá undir neinum kringumstæðum. Þetta gildir um meðferð fólks sem er í höndum óvina, burtséð frá þjóðfélagsstöðu eða í haldi hverra það er.

Hvers vegna skiptir svona miklu máli að tryggja að farið sé eftir viðauka þrjú?

Eins og ég sagði áðan gildir þriðja greinin um alla sem eru í höndum óvinar, sama hvernig þeir flokkast. Þá á ekki að leika nokkur vafi á því að ekki er hægt að neita neinum um vernd þegar stríðsátök eiga sér stað, sama hvaða ástæða kann að vera fyrir því.

Menn þurfa að hafa það í huga að þriðja greinin, rétt eins og allir Genfarsamningarnir, var samin af sérfræðingum sem höfðu upplifað myrkustu tíma 20. aldarinnar, og líklega mannkynssögunnar. Það væri hræsni að halda því fram að þá hafi skort vitneskju um þær misþyrmingar sem eru fyrir hendi í stríði. Greinin var saminn til að koma í veg fyrir slíkt.

Alþjóða Rauði krossinn hefur treyst á viðauka þrjú sem lagaramma í stríðsátökum um allan heim. Félagið hefur það að markmiði að vernda og aðstoða fórnarlömb stríðsátaka og við getum notað viðauka þrjú til að hvetja til virðingar fyrir mannúðarlögum. Okkar starf, rétt eins og annarra sem fást við svipuð verkefni, er byggt á því að koma í veg fyrir morð, pyntingar og niðurlægingu og tryggja að menn fái sanngjörn réttarhöld, auk annarra ákvæða í viðauka þrjú. Og það hjálpar til að öll ríki heims eru aðilar að samningunum.

En eins og í öðrum lögum er viðurkenning þeirra aðeins fyrsta skrefið í þá átt að framfylgja þeim. Til að draga úr þjáningum vegna stríðsátaka þarf hegðan bæði opinberra og óopinberra aðila að breytast. Þriðja greinin hefur verið skýrt lagaviðmið í þessum efnum og þarf að vera það áfram.

Hvernig á að taka á þeim sem grunaðir eru um hryðjuverk?

Fólk sem grunað er um glæp af einhverju tagi, þar á meðal hryðjuverk, á að ákæra. Þeir þurfa hins vegar að njóta ýmissa réttarfarslegra réttinda. Meðal annars eiga þeir að teljast saklausir uns sekt er sönnuð, hlutlaus og sjálfstæður dómstóll á að sjá um réttarhöldin, þeir eiga rétt á lögfræðiaðstoð og sönnunargögn sem hafa fengist með pyntingum eða annarri slæmri meðferð eiga ekki að vera tekin gild.

Ég er sannfærður um að baráttan gegn hryðjuverkum getur farið vel saman við að fara eftir þessum grundvallarreglum.

Sumir eru í haldi í Bandaríkjunum vegna baráttunnar gegn hryðjuverkum þó að þeir hafi ekki verið ákærðir fyrir neitt. Það er leyfilegt í sérstökum tilvikum að taka fólk til fanga þegar stríðsátök geisa, að því gefnu að ákveðnum reglum sé fylgt. Mannúðarlög kveða einnig á um að þessum föngum skuli sleppt um leið og ástæðan fyrir handtöku þeirra gildir ekki lengur og í síðasta lagi þegar stríðsátökunum lýkur.

Það skal ítrekað að Alþjóða Rauði krossinn metur hvert tilvik fyrir sig þegar stríðsátök geisa. Við teljum ekki að mannúðarlögin séu að taka fram fyrir hendurnar á landslögum. Þau eiga aðeins við þegar stríðsátök geisa. Þegar slíkt átök eru ekki til staðar eru það önnur lagaákvæði sem segja til um hvort löglegt sé að hafa fólk í haldi án ákæru.

Alþjóða Rauði krossinn hefur alltaf beðið um að fá að vita um alla sem eru í haldi vegna stríðsins gegn hryðjuverkum, og fá aðgang að þessu fólki. Hvar stöndum við í þessum málum núna?

Hér hafa líklega orðið hvað mestar breytingar, en Badnaríkjamenn hafa viðurkennt að CIA sé með sérstaka fangaáætlun og tilkynnt um flutning á 14 föngum sem voru í haldi án dóms og laga til Guantanamo, þar sem starfsmenn Rauða krossins hafa heimsótt þá. Bandarísk stjórnvöld hafa einnig sagt að þau haldi ekki lengur neinum í leyndum fangabúðum á vegum CIA.

Alþjóða Rauði krossinn hefur margsinnis lýst yfir áhyggjum af föngum á leyndum stöðum og hefur beðið um að fá að tala við þá. Rauði krossinn hefur áhyggjur af öllum þeim sem eru í haldi á leyndum stöðum þar sem slíkt er í andstöðu við það öryggi sem menn eiga að búa við samkvæmt alþjóðalögum.