Malaví: Caroline, 13 ára, ein í heiminum

Jean-Luc Martinage, Chisoko, Malaví

18. okt. 2006

Grein af vef Alþjóða Rauða krossins um aðstoð við alnæmissmituð börn í Malaví.

Rauði kross Íslands styður starfið í Malaví. Fé, sem safnaðist í landssöfnuninni „Göngum til góðs” í september sl. verður notað til aðstoðar börnum í Chiradzulu-héraði í suðurhluta landsins. Þar eru um 4.100 munaðarlaus börn sem njóta munu góðs af starfi Rauða krossins og verða m.a. opnaðar þrjár félagsmiðstöðvar fyrir börnin. 

Caroline er falleg 13 ára stúlka. Þegar hún dansar með vinum sínum í hljómsveit félagsmiðstöðvarinnar í Chisoko fer maður að halda að henni sé sama um allt sem gerist í heiminum. En í hinum fallega Mwachongo-skógi, nærri Mwanza í suðurhluta Malaví lenti fjölskylda hennar í miklum harmleik. Þegar við stöndum við heimili hennar skammt frá félagsmiðstöðinni verður augnaráð hennar tregafullt, sérstaklega þegar hún segir sögu sína.

Caroline er eitt af þúsundum barna í suðurhluta Afríku sem eru þekkt sem „munaðarleysingjar vegna alnæmis.” „Ég er yngst fjögurra barna,” segir hún. „Ég missti mömmu mína þegar ég var sjö ára. Pabbi dó í síðasta mánuði.”

Eldri systkini Caroline eru annaðhvort í námi í heimavistarskóla langt í burtu, eða eru gift. Caroline býr því ein og verður að sjá um sig sjálf. Sem betur fer hefur hún fengið hjálp frá félagsmiðstöðinni, sem Rauði kross Malaví rekur með stuðningi Alþjóða Rauða krossins.

Í félagsmiðstöð Rauða krossins er pláss fyrir 750 börn.
Í félagsmiðstöðinni er pláss fyrir 750 börn. Þau sem eru á aldrinum 1-6 ára fara í leikskóla, þar sem þau læra starfrófið en eru einnig í leikjum og íþróttum. Þau fá einnig ábendingar um hreinlæti. Eldri börnin, eins og Caroline, sem eru á aldrinum 7-18 ára, fá einnig stuðning þó að barnaskólinn sé ókeypis í Malaví.

„Mörg barnanna sem sækja félagsmiðstöðina eru HIV-smituð,” viðurkennir Taonga Nyekanyeka, stjórnandi HIV- og alnæmisverkefnisins í Mwana-héraði. „En við getum ekki einangrað þau frá öðrum börnum. Samfélagið verður að standa saman til að forðast höfnun og mismunum.”

Fimmtíu og fimm sjálfboðaliðar Rauða krossins í Malaví skiptast á að sjá um börnin og 28 til viðbótar heimsækja fólk sem er með alnæmi en heimsóknirnar eru hluti af sérstakri áætlun sem framkvæma á á heimilum hinna smituðu. Sú vinna hefur orðið til þess að börnunum líður betur, bæði andlega og líkamlega.

Teresia Mawala, tveggja ára, lærir að búa til mat.
Mörg barnanna sem sækja félagsmiðstöðina eru munaðarleysingjar og því er reynt að tryggja að þau njóti góðs mataræðis. En miðstöðin hefur takmarkaða möguleika á því að gera börnunum kleift að sjá um sig í framtíðinni. „Ég lýk barnaskólanum fljótlega en ég á enga peninga til að borga fyrir gagnfræðaskólann,” segir Caroline áhyggjufull.

Rauði kross Malaví er nú smátt og smátt að koma af stað verkefni þar sem skólagjöld í gagnfræðaskóla eru greidd fyrir börn sem eru munaðarlaus af völdum alnæmis. Því miður er Mwanza-héraðið ekki enn komið inn í það verkefni, en fjármagnið ætti að koma nógu snemma til að það geti hjálpað Caroline.

Þegar við spyrjum stúlkuna hvað hún vill gera í framtíðinni svarar hún að hún vilji verða nunna. Það er ljóst að auk trúarinnar er Caroline að leita verndar gegn heiminum sem hún verður að horfast í augu við ein. „Caroline er hugrökk stúlka og dagleg barátta hennar sýnir hvers vegna vinna Rauða krossins er svo mikilvæg fyrir framtíð þessa lands,” segir dr. Mukesh Kapila, sem starfar að málefnum HIV- og alnæmissmitaðra fyrir Alþjóða Rauða krossinn. Hann hitti Caroline þegar hann heimsótti Chisoko-héraðið. „Þetta sýnir einnig hvers vegna við verðum að auka vinnu okkar í að hefta útbreiðslu HIV-smits og koma í veg fyrir þau áhrif sem það hefur á fjölskyldur og samfélög í suðurhluta Afríku.”

Caroline rennir yfir tónlistina og dansinn sem hljómsveit hennar er að flytja. Hljómsveitin heitir Chisungalalo, sem þýðir „hamingjuhljómsveitin” á Chechewa, tungumálinu sem talað er þar. Nú hefur þessi hópur orðið hennar fjölskylda og eitt af fáu sem hún getur glaðst yfir.