Athvarf fyrir syrgjendur í Chinari í Kasmír-héraði

Jassicu Barry hjá Alþjóða Rauða krossinum

6. jan. 2006

Muner Ahmed sýður te fyrir viðskiptavini sína.
Majid Ali, tvítugur hagfræðinemi hætti að borða brauðið sitt og gaf sig á tal við tvo ókunnuga menn sem voru nýsestir niður. Litla tebúðin í Chinari var full af viðskiptavinum og hann varð að hækka róminn til að mennirnir heyrðu í honum. Vörubílar þeyttu flauturnar fyrir utan og troðfullir strætisvagnar skröltu áfram niður Jhelum dalinn.

Það er auðvelt að draga þá ályktun af kliðnum fyrir utan að þessi biðstöð í Kashmír-héraði í Pakistan, sem áður var iðandi væri að vakna til lífsins að nýju eftir jarðskjálftan 8. október. En það sem Ali og félagar hans sögðu við gesti sína í löngum samræðum vakti upp sterkar minningar um jarðskjálftann sjálfan og eftirköst hans.

„Ég var í versluninni þegar skjálftinn hófst,? sagði Majid og saup á teinu. ?Hann var svo sterkur að ég datt á gólfið og þegar ég stóð upp sá ég ekki neitt fyrir ryki. Það var algjör þögn. Þá fór fólk að öskra og kalla á hjálp og ég hljóp til og reyndi að draga fólk úr rústum bygginganna."

„Ég vann á hótelinu og veitingastaðnum Karim sem var í sömu götu," sagði Muneer Ahmed eigandi tebúðarinnar og benti upp götuna. „þar var seldur dýrindis matur. Hann eyðilagðist algjörlega í jarðskjálftanum. Nú hef ég opnað þessa tebúð og fólk kemur hingað og ræðir saman."

Þetta kaffihús er opið frá fimm á morgnana til miðnættis alla daga. Hr. Ahmed, sem er frá þorpinu Sardak, sefur þar. Hann treystir á aðstoð ættingja sinna við að reka staðinn, að minnsta kosti í bili. Tebúðin er við fjölfarna götu. Veggirnir eru úr striga og pappa og styrktir með viðarplönkum. Í dökku herberginu eru bekkir sem fundust í skóla sem hafði hrunið.

Þetta litla kaffihús varð fljótlega fundarstaður fyrir samfélagið eftir skjálftann. Í byrjun var aðeins boðið upp á brauð og te. Þá var nokkuð vandamál að fá vatn því það fékkst ekki eftir hefðbundnum leiðum eftir skjálftann og því varð eigandinn að borga sendli háar fjárhæðir til að ná í vatn úr ánni. Þetta vandamál var svo leyst með aðstoð Alþjóða Rauða krossins sem setti í lok október upp heilsugæslu í Chinari og starfsmenn þess gengu framhjá kaffihúsinu á hverjum degi á leið í vinnuna.

Verkfræðingar Rauða krossins komu upp 60 metra vatnsleiðslu frá ánni að krönum í þorpinu sem íbúar gátu notað til að fylla fötur og tanka. Þá tengdu þeir að nýju leiðslurnar frá uppsprettu á hæðunum og komu upp dreifikerfi með vatnstönkum. Þá voru kranar settir upp við kaffihús Ahmeds.

Annað vandamál var skortur á eldhúsáhöldum, mjólk og eggjum. En það var líka leyst með aðstoð Rauða krossins. Þegar Ahmed hafði fengið nógu stóra potta gat hann útbúið heitar máltíðir, sem aftur varð til þess að viðskiptin jukust. Með þessu var hann ekki aðeins að uppfylla þörf viðskiptavinanna fyrir að fylla magann heldur einnig þörfina fyrir að sitja saman og sætta sig við missinn. Þetta var m.a. stór ástæða fyrir því að Rauði krossinn ákvað að styðja þetta framtak.

Samræður Majid Ali við gestina verður að teljast ágætis réttlæting á þessum stuðningi ef hennar var þá nokkurn tíma þörf.

„Við höfum gleymt öllum venjulegum hlutum," segir einn þeirra.

„Við komum hingað til að deila sorginni," segir annar, sem missti 29 nána ættingja í jarðskjálftanum auk þess sem dóttir hans var í 22 daga á spítala með báða handleggi brotna. 

?Mun fleiri hefðu dáið ef þið útlendingar hefðuð ekki komið hingað,? heyrðist úr hópnum. Allir vildu deila sinni reynslu og sársauka. Sögurnar voru dapurlegar og á þær var hlustað með þögulli hluttekningu.

Hr. Ahmed er með áætlanir um að opna aðra matstofu á næstu mánuðum. Og Majid Ali, neminn sem sér eftir því að þurfa að fresta námi muldraði. „Við höfum allt að borða en ekkert að lesa."