Sierra Leone/Líbería: 15 fjölskyldur sameinaðar

3. jan. 2006

Gorgboyee flýði heimili sitt þegar ráðist var á bæinn Ganta í Norður Líberíu árið 2002 og hefur dvalið í flóttamannabúðum í Guinea. Nú er hann kominn heim með aðstoð Alþjóða Rauða krossins og hittir tvær yngri systur sínar.
Þann 21. desember sl. náði Alþjóða Rauði krossinn að finna fjölskyldur 15 ungmenna nokkrum árum eftir að þau neyddust til að flýja heimaland sitt, Líberíu, vegna stríðsátaka. Ungmennin eru á aldrinum 9-19 ára og hafa búið hjá fósturfjölskyldum í nokkrum flóttamannabúðum í Sierra Leone.

Þegar búið var að hafa uppi á fjölskyldunum eftir mikla vinnu voru þau flutt akandi frá búðunum til Freetown og síðan þaðan með einni af flugvélum Rauða krossins til Monroviu og Voinjama í Líberíu. Þar biðu ættingjarnir eftir þeim. Í fyrsta sinn í mörg ár gátu þessar fjölskyldur eytt jólunum saman.

Síðan átökunum í Sierra Leone lauk árið 2002 hefur Alþjóða Rauði krossinn fundið fjölskyldur eða nána ættingja yfir 2.300 ungmenna frá Sierra Leone, Líberíu, Gíneu og Fílabeinsströndinni.