Átak í að styrkja Leitarþjónustu Rauða krossins

1. nóv. 2006

Alþjóða Rauði krossinn hefur komið á fót heimsátaki til að styrkja Leitarþjónustu Rauða krossins á næstu árum. Þetta átak byggir á mannúðaráætluninni sem samþykkt var á 28. alþjóðlegu ráðstefnu Rauða krossins árið 2003.

Viðtal við Renée Zellwegger Monin, varaforseti Leitarþjónustu Alþjóða Rauða krossins:

Hver er sagan á bak við þetta verkefni?

Alþjóða Rauði krossinn hefur sinnt mannúðarstörfum áratugum saman með því að koma á sambandi að nýju við ættingja sem hafa orðið viðskila við hvor aðra. Síðustu ár hafa stríðsátök, bæði milli þjóða og innan þeirra, náttúruhamfarir og flutningar orðið til þess að fjölskyldur hafa tvístrast. Í kjölfar atburða eins og átakanna í Darfur í Súdan, flóðbylgjanna í Asíu, fellibylsins Katrínar og jarðskjálftans í Suður-Asíu hafa hundruð þúsunda manna misst samband við ástvini sína. Það er mikilvægt verkefni að koma slíku sambandi á aftur.

Rauði krossinn býr yfir yfirgripsmiklu neti með landsfélögunum og hefur auk þess mikla reynslu á þessi sviði. Því er félagið vel til þess fallið að sinna fólki sem engar fréttir hefur fengið af skyldmennum sínum. Alþjóða Rauði krossinn ákvað því samkvæmt mannúðaráætluninni frá 2003 að koma þessu verkefni af stað til að styrkja Leitarþjónustuna sem fyrir er og bæta hana um allan heim.

Hvert er markmið þessa verkefnis?

Rauði krossinn verður í gegnum Leitarþjónustunet sitt að halda áfram að skilgreina þarfir þess við ýmsar aðstæður, halda við og bæta við upplýsingum til að gera þjónustu sína betur í stakk búna að aðstoða fólk í samræmi við hlutverk Leitarþjónustunnar. Þar sem þetta mál varðar marga einstaklinga er mikilvægt að huga að því hvernig Leitarþjónustunetið virkar og hvernig hægt er að bæta þjónustu þess.

Hvernig verður þessum markmiðum náð?

Takmark verkefnisins er að þróa 10 ára áætlun í þessum málum. Í henni felst meðal annars þarfagreining, heimildir (tæknilegar, fjárhagslegar og upplýsingar sem fólk hefur), samskipti, aðgengi þjónustunnar og eignarhald hennar eftir landsfélögum og Rauða krossinum í heild. Þetta er í fyrsta sinn sem slík áætlun er gerð fyrir allt félagið og er mjög spennandi verkefni.

Myndaður var ráðgjafahópur til að aðstoða við áætlanagerðina. Í honum sitja fulltrúar 19 landsfélaga og Alþjóða Rauða krossins. Hópurinn hefur hist fjórum sinnum síðan verkefnið var sett á laggirnar. Honum er ætlað að aðstoða vinnuhópa sem einbeita sér að ákveðnum hlutum áætlunarinnar. Þá skipuleggur hópurinn fjórar svæðisráðstefnur sem munu eiga sér stað í lok þessa árs. Áætlunin verður rædd við leiðtoga landsfélaganna á þessum ráðstefnum. Eftir víðtækt ráðgjafaferli innan hreyfingarinnar verður áætlunin kynnt í fulltrúaráðinu árið 2007.

Leitarþjónusta Rauða kross Íslands

Rauði kross Íslands er hluti af leitarþjónustu Alþjóða Rauða krossins og hefur ár hvert sinnt nokkrum erindum og reynt að aðstoða fólk við að hafa upp á nánustu ættingjum og ástvinum. Félagið mun á næstunni kynna verkefnið betur í samfélaginu og gera þjónustuna aðgengilegri þeim sem þurfa á henni að halda.