Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna fagnar nýjum lögum um flóttafólk í Argentínu

8. nóv. 2006

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) lýsti nýlega yfir ánægju sinni með nýsamþykkt lög í Argentínu sem lúta að vernd flóttafólks. UNHCR hrósaði sérstaklega stjórnvöldum fyrir að beita sér fyrir setningu laganna sem innihalda meðal annars sérstök ákvæði sem snúa að konum og börnum sem hafa neyðst til að flýja heimaland sitt.

Nýju lögin voru samþykkt í Argentínu þann 8. nóvember síðastliðinn og eru gott dæmi um hvernig þetta ríki í Suður-Ameríku hefur jafnt og þétt verið að þróa löggjöf sína í málefnum flóttamanna, segir í fréttatilkynningu frá UNHCR.

„Lögin gera flóttamönnum kleift að nýta betur réttindi sín. Þau tryggja meðal annars að meðferð hælisumsókna taki ekki of langan tíma, þau auðvelda aðgengi að skilríkjum, menntun, heilsugæslu og atvinnu”, sagði William Spindler talsmaður UNHCR í Genf.

Nýju lögin innihalda sérstök ákvæði fyrir konur og börn sem hafa neyðst til að flýja heimaland sitt sem og fyrir fórnarlömb ofbeldis. Nýju lögin eru árangur núverandi ríkisstjórnar, sem hefur sýnt mikinn áhuga á mannréttindum og málefnum flóttamanna, og sameiginlegs átaks flóttamanna, löggjafans, frjálsra félagssamtaka og svæðisskrifstofu Flóttamannastofnunar SÞ í Argentínu.

Argentína fullgilti Flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna fyrir rúmlega fjörutíu árum en í landinu eru nú yfir 3000 flóttamenn frá yfir 60 þjóðlöndum.

Á Íslandi er Rauði krossinn fulltrúi Flóttamannastofnunar SÞ.