Alþjóða Rauði krossinn biður um fjárframlög í baráttunni gegn alnæmi í suðurhluta Afríku

16. nóv. 2006

Alþjóða Rauði krossinn hefur beðið um jafnvirði ríflega 20 milljarða króna til að auka verulega baráttuna við útbreiðslu alnæmis í suðurhluta Afríku. Verkefnið er hluti af nýju heimsátaki Alþjóða Rauða krossins sem berst gegn þessum sjúkdómi. Markmið þess er að draga verulega úr líkum á smiti og áhrifum sjúkdómsins með því að auka heilsugæslu, meðferð og stuðning, draga úr mismunun og styrkja landsfélög Rauða krossins og önnur úrræði í heimabyggð.

Þetta verkefni er þegar komið af stað og hefur starf Rauða krossins þegar fjórfaldast. Ekki veitir af því að á svæðinu eru um 12,3 milljónir manna alnæmissmitaðir, þar af eru 860 þúsund börn yngri en 14 ára. Markmiðið er að ná til 50 milljóna manna til að draga úr útbreiðslu alnæmis og mismunun meðal íbúa. Þá á að útvega yfir 250 þúsund manns sem þegar eru smitaðir meiri þjónustu, sem og 460 þúsund börnum sem hafa misst foreldra úr sjúkdómnum.

Verkefnið byggir að miklu leyti á starfi sjálfboðaliða og eiga þeir einkum að sinna þeim hópi sem er í mestri hættu á að smitast af alnæmi. Sérstaklega hefur Rauði krossinn áhyggjur af því að smit meðal ungra kvenna er tvöfalt algengara en hjá körlum vegna þess hversu kynferðisofbeldi er algengt á svæðinu. Þá gerir lítil menntun og skortur á heilbrigðis- og almannaþjónustu það að verkum að þeir sem eru í mestri hættu hafa minni aðgang að nauðsynlegum stuðningi. Úr þessu þarf að bæta.

Munaðarlaus börn eru einnig í hættu og er talið að þau verði orðin tvöfalt fleiri árið 2010 en þeir eru nú. Nýlegt dæmi þar sem deilt var um að frægt fólk væri að ættleiða börn úr þessum heimshluta þykir sýna hversu viðkvæmt ástandið er á svæðinu. Því þarf að vinna að því að styðja betur við munaðarlaus börn og önnur sem eru veik fyrir. Meðal annars þarf að finna verkefni fyrir það fólk sem getur aflað tekna.

Rauða kross félög í tíu löndum munu njóta góðs af þessum fjármunum: Angóla, Botsvana, Lesótó, Malaví, Mósambík, Namibíu, Suður-Afríku, Svasílandi, Zambíu og Zimbabve.