Viðskipti og alþjóðleg mannúðarlög

7. des. 2006

Þótt stöðugt fleiri fyrirtæki stundi viðskipti á svæðum þar sem vopnuð átök standa yfir eða hafa staðið yfir er flestum fyrirtækjunum ekki kunnugt um skyldur sínar og réttindi samkvæmt alþjóðlegum mannúðarlögum. Alþjóðaráð Rauða krossins (ICRC) hefur gefið út bækling sem kallast Viðskipti og alþjóðleg mannúðarlög í þeim tilgangi að fræða fyrirtæki um réttindi sín og skyldur.

„Alþjóðaráð Rauða krossins vinnur að því að stuðla að aukinni virðingu fyrir og þekkingu á alþjóðlegum mannúðarlögum og almennt viðurkenndum mannréttindum og er þessi útgáfa sérstaklega gerð til þess að kynna þau grundvallargildi fyrir nýjum áheyrendum,“ segir Pierre Krähenbül, einn yfirmanna hjá Alþjóðaráði Rauða krossins í Genf. „Við höfum trú á því að bæklingurinn muni hjálpa fyrirtækjum að skilja betur réttindi sín og skyldur þegar þau starfa á átakasvæðum. Þetta er skref í áttina að draga úr neikvæðum áhrifum fyrirtækja og starfsemi þeirra á vopnuð átök.”

Mörg fyrirtæki hafa markað sér stefnu um að virða og jafnvel mæla fyrir um virðingu fyrir mannréttindum. En alþjóðleg mannúðarlög þjóna dálítið öðrum tilgangi. Alþjóðleg mannúðarlög veita starfsmönnum fyrirtækja vernd og að auki vernda þau fjárfestingar og eignir fyrirtækja. En á sama tíma hafa yfirmenn og starfsfólk fyrirtækja ýmsar skyldur sem geta jafnvel leitt til saksóknar sé brotið gegn þeim. Með því að auka vitund og skilning á alþjóðlegum mannúðarlögum vonar Rauði krossinn að fyrirtækin þrói markvissa stefnu sem byggir á virðingu fyrir lögunum og vinni jafnvel að útbreiðslu þeirra.

Bæklingurinn sem um ræðir er aðallega ætlaður stjórnendum og öryggisfulltrúum fyrirtækja og öðrum stjórnendum sem standa að rekstri fyrirtækja á átakasvæðum. Í bæklingnum er einnig að finna tilvísanir fyrir fyrirtæki sem starfa óbeint á átakasvæðum í gegnum viðskiptavini sína og byrgja.

Bæklinginn um Viðskipti og alþjóðleg mannúðarlög (26 bls.) er hægt að panta og skoða á netinu á vefslóðinni: www.icrc.org/eng/business-ihl

Frekari upplýsingar veitir:
Claudia McGoldrick, Alþjóðaráði Rauða krossins í Genf, sími: +41 22 730 2063 eða +41 79 217 3216