Staða viðbótarbókana við Genfarsamningana frá 1949 um fórnarlömb stríðsátaka

15. nóv. 2006

Yfirlýsing frá Alþjóða Rauða krossinum á 61. Allsherjaþingi Sameinuðu þjóðanna, New York, 18. október 2006.

Herra forseti.

Á þeim tveimur árum sem liðin eru frá því ályktun 59/39 var samþykkt hefur mikilvæg þróun átt sér stað á sviði alþjóðlegra mannúðarlaga. Alþjóða Rauði krossinn telur stóran áfanga hafa náðst með viðurkenningu allra ríkja heims á Genfarsamningunum fjórum frá 1949. Sú staðreynd að öll ríki heims hafa skuldbundið sig til að fylgja eftir ákvæðum Genfarsamninganna eru sterk rök gegn þeim sem halda því fram að alþjóðleg mannúðarlög séu ekki lengur fullnægjandi til þess að meðhöndla ástand sem skapast í vopnuðum átökum sem eiga sér stað í dag. Viðurkenningin gefur þvert á móti til kynna að alþjóðasamfélagið allt vill að þessir samningar séu virtir í hvívetna.

Annar mikilvægur áfangi náðist í desember 2005 þegar þriðja viðbótarbókunin við Genfarsamningana var samþykkt. Viðbótarbókunin hefur þegar verið staðfest af sex ríkjum og alls hafa 76 ríki samþykkt hana með undirritun sinni. Viðbótarbókun þessi felur í sér að „rauði kristallinn” er viðurkenndur sem „merki” sem nýtur sömu alþjóðlegu stöðu og verndar og rauði krossinn og rauði hálfmáninn. Nýja merkið er verndartákn fyrir lækna- og hjúkrunarlið sem starfar í stríðsátökum og starfsmenn og sjálfboðaliða Rauða krossins og veitir aukna vernd í átökum þar sem núverandi merki Rauða krossins og Rauða hálfmánans geta ekki veitt fullnægjandi vernd vegna þess að merki þeirra eru talin fela í sér stjórnmálalega, trúarlega eða aðra merkingu. Þriðja viðbótarbókunin tekur formlega gildi 14. janúar 2007.

Alþjóða Rauði krossinn lýsir einnig ánægju með þá staðreynd að 166 ríki hafa samþykkt viðbótarbókun eitt og 162 ríki viðbótarbókun tvö við Genfarsamningana fjóra frá 1949. Þá vill Rauði krossinn einnig vekja athygli á að vaxandi fjöldi ríkja hefur gengist undir skuldbindingar Rómarsáttmálans um Alþjóðlega sakamáladómstólinn. Dómstóllinn gegnir mikilvægu hlutverki í baráttunni gegn refsileysi í heiminum og í því að fá ríki til að beita refsingum fyrir alvarleg brot gegn alþjóðlegum mannúðarlögum og alþjóðlegum glæpum sem þeim tengjast.

Alþjóða Rauði krossinn lýsir yfir ánægju með þá þróun að fjöldi ríkja hefur innleitt alþjóðleg mannúðarlög í eigið réttarkerfi. Sem dæmi um jákvæða þróun í útbreiðslu alþjóðlegra mannúðarlaga og enn frekari áhuga ríkisstjórna á að vinna að framgangi alþjóðlegra mannúðarlaga má benda á að 76 ríki hafa komið á fót nefndum heima fyrir sem fjalla um mannúðarlög, svokallaðar mannúðarlaganefndir. Rauði krossinn veitir ráðgjöf til ríkisstjórna um mannúðarlög og verður haldið áfram að byggja upp samvinnu við ríkisstjórnir og mannúðarlaganefndir í viðkomandi löndum sem vinna að ýmsum málum er varða alþjóðleg mannúðarlög og innleiðingu þeirra í réttarkerfi ríkja. Á meðal mikilvægra málefna ríkja er að berjast á móti alvarlegum brotum á mannúðarlögum sem og að vernda merki hreyfingarinnar og að vinna að viðurkenningu á Ottawa sáttmálanum um bann við notkun jarðsprengna. Næsta vor verður haldinn alþjóðlegur fundur mannúðarnefnda og verður sérstök áhersla lögð á að taka upp ákvæði sem koma í veg fyrir að fólk „týnist” í stríðsátökum og aðstoða fjölskyldur þeirra sem saknað er.

Rauði krossinn vekur einnig athygli á því að á síðasta ári var lokið við rannsókn Rauða krossins á alþjóðlegum réttarvenjum á sviði mannúðarlaga og var hún gefin út sama ár. Rannsóknin og útgáfa hennar var afrakstur næstum áratugar vinnu Rauða krossins og rannsókna hans á þessu sviði. Þessi rannsókn er einstök að því leyti að þetta er fyrsta heildstæða rannsóknin sem metur gildi alþjóðlegra réttarvenja sem gilda í alþjóðlegum mannúðarrétti. Rannsóknin inniheldur meðal annars lista yfir ákvæði sem eru talin réttarvenjur og umsögn um hvert ákvæði og um eðli þess ásamt því að stutt samantekt fylgir einnig hverju ákvæði er lýtur að hvernig því hefur verið fylgt eftir í átökum. Ef tiltekið ákvæði mannúðarlaga telst vera alþjóðaleg réttarvenja þýðir það að öll ríki eru bundin af ákvæðinu, óháð því hvort viðkomandi ríki hefur skuldbundið sig að fylgja því eða ekki.

Rannsóknin leiddi í ljós að mörg ákvæði sem oft hafa aðeins verið talin eiga við um milliríkjaátök  geta einnig verið gildandi í innanlandsátökum. Rannsóknin ætti því að verða til þess að auka vernd fórnarlamba innanlandsátaka. Rannsóknin er gagnleg mörgum aðilum, meðal annars ríkja, herjum, fræðimönnum, alþjóðlegum ríkjasamtökum og frjálsum félagasamtökum sem og dómstólum. Rauði krossinn vonast til þess að útgáfa á afrakstri rannsókna sinna verði til þess að auka umræðu um stöðu og gildi alþjóðlegra mannúðarlaga sem njóta stöðu réttarvenju.

Árið 2007 verður 30. ráðstefna Alþjóðahreyfingar Rauða krossins og Rauða hálfmánans haldin. Ráðstefnan er einstakt tækifæri fyrir ríki heims og Rauða krossinn til að fara yfir þau mannúðarmál sem þykja brýnust í samtímanum og hvað sé hægt að gera til að takast á við aðkallandi mál. Til að búa menn undir þetta minnir Rauði krossinn ríki á sameiginlegar skyldur sínar og loforð sem þau gengust undir á 28. ráðstefnunni sem haldin var árið 2003. Það verður forgangsverkefni Alþjóða Rauða krossins á næsta ári að hvetja og styðja stjórnvöld til að halda þessar skuldbindingar, framfylgja þeim, lögfesta og vinna að útbreiðslu þekkingar á alþjóðlegum mannúðarlögum.

Á tímum þar sem vopnuð átök halda áfram að kosta fjölda mannslífa og hafa áhrif á lífsgæði fólks er sannarlega mikilvægt að ítreka gildi Genfarsamninganna frá 1949 og viðbótarbókanna þeirra frá 1977 og 2005 um að vernda sjálfsvirðingu manna og gæta mannúðar á tímum stríðsátaka. Alþjóðleg mannúðarlög eru enn áhrifaríkustu lögin sem stjórna því hvað má og hvað má ekki í ófriði. Alþjóðleg mannúðarlög hafa verið þróuð sérstaklega til að fullnægja öryggisþörfum ríkja en jafnframt að virða grundvallargildi mannúðar.

Virðing fyrir alþjóðlegum mannúðarlögum hvílir fyrst og fremst á ríkjum sem hafa samþykkt að hlíta þeim. Það hvílir líka ábyrgð á vopnuðum hópum sem ekki eru á mála ríkisvaldsins (e. non-state actors) að virða ákvæði alþjóðlegra mannúðarlaga. Oft skortir hins vegar pólitískan vilja til að ganga hreint fram til verka í þeim tilgangi að vernda fórnarlömb stríðsátaka og grípa til viðeigandi aðgerða til að koma í veg fyrir alvarleg brot á mannúðarlögum sem og rannsaka brotin og beita refsingum þeim er stóðu fyrir og framkvæmdu brotin. Að viðurkenna lagabókstafinn er aðeins fyrsta skrefið. En stjórnvöld verða líka að bregðast við með því að ganga skrefi lengra og lögfesta alþjóðleg mannúðarlög í sínu heimalandi. Alþjóða Rauði krossinn er ávallt reiðubúinn að styðja ríki með ráðgjöf og annarri viðeigandi aðstoð þegar þau lýsa yfir vilja til framfara á sviði alþjóðlegra mannúðarlaga.

Þakka þér fyrir, herra forseti.