Röð fellibylja á Filippseyjum

11. des. 2006

Filippseyjar hafa orðið illa úti vegna fjölda fellibylja sem gengið hafa yfir eyjarnar síðustu tvo mánuði. Hafa þeir valdið gríðarlegum skemmdum á stóru svæði og 20 héruð hafa orðið fyrir þeim. Í fellibylnum Durian var vindhraðinn 190 km á klukkustund, og allt að 225 km í hviðum.

Hús hafa hreinlega skolast burt vegna aurskriða sem komu í kjölfar stórrigninga og árnar hafa hörfað undan aurskriðunum. Mikið af ræktarlandi hefur eyðilagst og vatnsveitur eru mikið skemmdar í öllum borgum og þorpum sem hafa orðið fyrir fellibyljum. Ekki er enn vitað hversu mengað drykkjarvatnið er. Margir sjómenn hafa misst lífsviðurværi sitt þar sem bátar þeirra hafi skemmst eða net þeirra glatast. Margar fjölskyldur eru því í mikilli óvissu um aðgengi að mat fram að næstu uppskerutíð.

Gríðarlegar skemmdir urðu af völdum fellibyljanna Xangsane, Cimaron og Chebi. Héruðin sem verst hafa orðið úti eru Apbay, Sorsong og Quezon. Þar er eyðileggingin mun meiri en í öðrum héruðum þar sem stjórnendur hafa brugðist við hamförunum á einhvern hátt.

Rauði kross Filippseyja hefur virkjað sjálfboðaliða sína og hafið hjálparaðgerðir í samræmi við hlutverk sitt í neyðarvörnum. Alþjóða Rauði krossinn hefur sent hjálparlið og matsteymi til að styðja við Rauða kross Filippseyja. Landssöfnun er hafin hjá landsfélögum Rauða krossins um allan heim svo hægt verði að aðstoða 200 þúsund manns næstu níu mánuði við mataröflun, húsaskjól og læknisaðstoð. Það er hugsanlegt að Rauði krossinn þurfa að auka við þessar aðgerðir þegar tjónið verður að fullu ljóst.

Rauði kross Íslands hefur brugðist við með því að senda Sólveigu Þorvaldsdóttur, sendifulltrúa, til Filippseyja og tekið er á móti framlögum í síma 907 2020. Einnig er hægt að greiða inn á reikning 12 í banka 1135, kennitala 530269-2649 eða að greiða með greiðslukorti með því að smella hér.