Hjálparstarf komið á fullt í Indónesíu - enn mikið verk óunnið

9. jún. 2006

Virkni eldfjallsins Merapi er enn að aukast. Rauði krossinn hefur sett af stað viðbragðsáætlun sem farið verður eftir ef fjallið fer að gjósa en þá gætu um milljón manns til viðbótar misst heimili sín. Mynd: REUTERS.
Alþjóða Rauði krossinn sendi út beiðni í vikunni fyrir 38 milljónir svissneskra franka (ríflega 2.200 milljónir króna) vegna hjálparstarfsins í Indónesíu. Áður var send beiðni um 12,8 milljónir svissneskra franka og hefur gengið vel að safna því fé.

Fénu verður varið í að styðja Rauða kross Indónesíu við hjálparstarfið eftir hamfarirnar á Jövu þann 27. maí þegar jarðskjálfti að stærðinni 6,3 stig reið yfir landið og snerti um hálfa milljón manna. Beiðnin nær yfir læknishjálp, mat, hreinlætisaðstöðu og tímabundið húsaskjól fyrir um 325.000 fórnarlömb jarðskjálftans næstu 12 mánuði. Einnig verður lögð áhersla á endurhæfingu og aðhlynningu eins og sálrænna aðstoð og munu hjálparteymi nýta sér reynsluna frá hinu mikla hjálparstarfi í Aceh síðustu 18 mánuði.

Nú, tæpum tveimur vikum eftir jarðskjálfann hrikalega, þurfa mörg fórnarlömb enn á aðstoð að halda á borð við læknishjálp, tímabundnu húsaskjóli, mat og vatni. Skemmdir vegir, almennar samgöngutruflanir og slæmt veður eru þær hindranir sem þarf að yfirstíga til að útvega hjálp en forgangsverkefni Rauða krossins er að koma lyfjum og öðrum nauðsynjum á sjúkrahús, veita fólki tímabundið húsaskjól og ná til afskekktra svæða.

Rauði krossinn í Indónesíu hefur veitt tæplega 5.000 manns læknishjálp og dreift hjálpargögnum til yfir 10 þúsund fjölskyldna. Nýjustu upplýsingar gefa til kynna að a.m.k. sex þúsund manns hafi látist og yfir 50 þúsund slasast. Héraðið Bantul, sem er fyrir sunnan borgina Jógjakarta varð verst úti en um 60% þeirra sem létust bjuggu þar og þúsundir heimila og annarra bygginga eyðilögðust.

Skjálftasvæðið er í nágrenni við eldfjallið Merapi og hefur virkni þess verið að aukast frá því að jarðskjálftinn reið yfir. Alþjóða Rauði krossinn og Rauði kross Indónesíu hafa sett af stað viðbragðsáætlun sem farið verður eftir ef fjallið fer að gjósa, t.d. hvernig rýma á hús ef þörf er á. Starfsfólk og sjálfboðaliðar Rauða krossins eru í viðbragðsstöðu og mikið hefur verið komið fyrir af hjálpargögnum í vöruhúsum. Ef fjallið fer að gjósa gætu um milljón manns til viðbótar misst heimili sín.

Rauði krossinn vinnur með Sameinuðu þjóðunum og stjórnvöldum á staðnum til að samhæfa hjálparaðgerðir vegna jarðskjálftans og er starfið nú komið í gang. Alþjóða Rauði krossinn vinnur einnig að því að meta hjálparþörfina í héruðunum.

Hægt er að styðja neyðarbeiðni Alþjóða Rauða krossins með því að hringja í söfnunarsíma Rauða kross Íslands 907-2020 og dragast þá kr. 1000 af næsta símareikningi.

Sjá myndir af hjálparstarfinu: