Rauði kross Íslands styrkir hjálparstarf í Níger

Karl Sæberg Júlísson

28. okt. 2005

Karl Sæberg Júlísson, afbrotafræðingur, var í Níger í sex vikur frá 14. ágúst 2005. Karl vann sem öryggisfulltrúi fyrir Alþjóðasamband Rauða krossins og Rauða hálfmánans í Níger og nágrannalöndunum Burkina Faso, Mauritaníu og Mali. Starf Karls fólst í því að koma á öryggiskerfi fyrir sendifulltrúa á vettvangi. 

Níger er eitt af fátækustu löndum heims

„Ástandið er slæmt hér í Níger og talið er að milljónir manna séu í hættu vegna matvælaskorts. Aðstoð Rauða krossins bjargar mörgum fjölskyldum frá því að verða hungurmorða,? segir Karl Sæberg Júlísson sendifulltrúi Rauða kross Íslands sem hefur verið sendur til Níger til að hafa umsjón með öryggismálum vegna hjálparstarfs Alþjóðasambandsins.

Rauði krossinn hóf matvæladreifingu í Níger í byrjun ágúst til tugþúsunda barna og fjölskyldna þeirra í héruðunum Tahoua, Maradi, Zinder og Agadez. Ljóst er hins vegar að þarfir íbúa á svæðinu eru mun meiri og Alþjóða-Rauði krossinn hyggst dreifa matvælum til um hálfrar milljónar manna á næstu mánuðum.

Margir búa við mikinn skort

„Ég hef nú ferðast til allra þeirra svæða sem við störfum á hér innanlands. Vegalengdir eru miklar og vegirnir í samræmi við efnahagsástandið. Miklar annir hafa verið í tengslum við dreifingu matvæla, en síðan taka við ýmis heilsuverkefni auk nokkurra sérverkefna," segir Karl.

„Í Níger starfa nú um 50 manns frá Alþjóðasambandi Rauða krossins en hjálparstarf Rauða krossins nær einnig til Malí, Burkína Fasó og Máritaníu, sem eru nágrannalönd Nígers," segir Karl en hann ferðaðist um þessi lönd til að aðstoða við að koma upp samskiptaneti og samræma öryggismál í tengslum við dreifingu hjálpargagna.

„Níger er eitt af fátækustu löndum heims en raunar er mikil fátækt í öllum löndum hér á þessu svæði. Síðastliðið haust varð uppskerubrestur og margir búa hér við mikinn skort. Það er mikilvægt að hægt sé að koma þeim til hjálpar með skjótum hætti," segir Karl að lokum.