Rauði krossinn með öflugt hjálparstarf vegna flóðanna í Sómalíu

13. des. 2006

Gríðarleg flóð í Sómalíu hafa nú áhrif á líf hundruð þúsunda manna. Suðurhluti landsins hefur orðið verst úti og fjöldi þeirra sem þurfa á aðstoð að halda eykst sífellt í héruðunum Hiran, Shabelle, Juba og Gedo.

Nýleg þurrkatíð hefur þó gert það að verkum að vegirnir eru betri á sumum svæðum en þeir voru áður þannig að auðveldara er að dreifa hjálpargögnum á þessa staði. Veðurspár gera hins vegar ráð fyrir frekari flóðum fram í janúar.

Flóðin, sem orsakast af óvenju mikilli rigningu í október og nóvember, hafa valdið gríðarlegum skemmdum á ræktarlandi, eyðilagt mat og einangrað heilu þorpin. Á mörgum svæðum hefur fólk flúið upp á flóðgarða þar sem vatn er allt í kring og krókódílar eru á sveimi. Þetta fólk hefur ekkert húsaskjól, vatn eða mat. Frést hefur af fólki sem hefur þurft að klifra upp í tré til að flýja villt dýr.

Flóðin, sem einnig hafa valdið búsifjum í Keníu og Eþíópíu, komu í kjölfar mikilla þurrka fyrr á þessu ári og misstu margir lífsviðurværi sitt vegna þeirra auk þess sem skortur var á mat. Á mörgum svæðum var jarðvegurinn svo þurr að hann gat ekki tekið í sig regnvatnið. Þó að uppskeran í júlí hafi verið ágæt er hún að mestu ónýt vegna flóðanna. Auk þess geta þessi flóð valdið útbreiðslu sjúkdóma á borð við malaríu, kóleru og niðurgang, sem allir berast með vatni.

Að sögn veðurfræðinga hafa rigningarnar síðan í október verið ríflega þrefalt meiri en í meðalári. Árnar Shabelle og Juba sem eru rétt við landamæri Eþíópíu hafa flætt yfir bakka sína og hefur allt að 15 kílómetra svæði sitt hvorum megin við árnar farið undir vatn. Heilu þorpin við árnar hafa farið á kaf og tugir þúsunda í Hiran-héraði einu hafa misst heimili sín.

Erfitt er að komast til þessa fólks þar sem margir vegir og brýr eru ófær eða hafa skolast burt. Oft er eini möguleikinn að veita hjálp úr lofti eða með bát. Alþjóðaráð Rauða krossins hefur flutt átta vélbáta með flugi til þeirra svæða sem verst urðu úti og fengið fjóra aðra úr nágrenninu. Í Shabelle-héraði er enn hægt að veita aðstoð á bílum. Tvær fragtflugvélar frá Alþjóðaráðinu fljúga daglega milli Nairobi og flóðasvæðanna í Sómalíu.

Alþjóðaráð Rauða krossins er eitt af fáum samtökum sem getur náð til fólks á þeim svæðum sem hafa einangrast mest vegna flóðanna. Ráðið aðstoðar fólkið í náinni samvinnu við Rauða hálfmánann í Sómalíu og  fleiri landsfélög.

Síðan um miðjan nóvember hafa tæplega 260 þúsund manns fengið ábreiður í Hiran, Shabelle, Juba og Gedo. Þá fá 45 þúsund manns 100 þúsund lítra af drykkjarvatni á dag með hjálp Alþjóðaráðsins.