Neyð í skugga þagnar: hvers vegna sumar hamfarir fara framhjá stjórnvöldum og almenningi

14. des. 2006

Þann 14. desember verður árleg skýrsla Alþjóða Rauða krossins um hamfarir í heiminum kynnt á alheimsvísu. Þetta er í fjórtánda sinn sem skýrslan kemur út, og er henni ætlað að líta með gagnrýnum augum á hvernig tekist hefur til að veita neyðaraðstoð í kjölfar hamfara.

Sérstakt þema er tekið fyrir ár hvert, og í þetta sinn er tekin fyrir neyð víða í heiminum sem fyrir einhverjar sakir nýtur lítillar eða engrar athygli ráðamanna né fjölmiðla eða jafnvel hjálparsamtaka í sumum tilfellum.

Í skýrslunni er fjallað um samspil umfjöllunar fjölmiðla og fjármögnunar neyðaraðstoðar og það mikla ójafnvægi sem þar gætir. Fórnarlömb flóðbylgjunnar á Indlandshafi hlutu að meðaltali um 85 þúsund kr. á hvern einstakling í formi aðstoðar, en fórnarlömb hungursneyðar í Malaví aðeins stuðning að jafnvirði um 1.800 krónur. Hljótt var um þurrkana sem ollu neyðinni í Malaví, en allur heimurinn fékk fréttir af hamfaraflóðunum í suður og suðaustur Asíu.

Rauði kross Íslands bendir sérstaklega á tvo kafla í skýrslunni þar sem fjallað er um neyðarviðbrögð sem sendifulltrúar félagsins komu að. Annars vegar er kaflinn um hungursneyð í Malaví - í annað sinn á fjórum árum - og hvernig hefðbundin matvælaaðstoð gerir lítið meira en að stöðva hungurdauða tímabundið. Vestræn stjórnvöld og hjálparsamtök eru hvött til þess að veita langtímaaðstoð til 10-15 ára og komast fyrir rót vandans sem liggur í ónógri landbúnaðarframleiðni vegna skorts á útsæði, áburði, áveitu og þekkingu.

Annarsvegar er það kafli um kynbundna aðstoð og hvernig konur verða oft útundan í neyðarviðbrögðum þar sem eingöngu karlar eru í forsvari þegar aðstæður eru metnar. Tekið er dæmi um jarðskjálftann í Pakistan fyrir ári þegar í ljós kom að konur voru nánast afskiptar varðandi almenna heilbrigðisþjónustu á skjálftasvæðunum vegna hefða. Einnig er fjallað um hvernig konur vinni oft betur úr áföllum eftir hamfarir, til að mynda eftir flóðbylgjuna í Indlandshafi, þar sem þær eiga oft auðveldara með að veita hvorri annarri sálrænan stuðning og hafa fleiri tækifæri til að afla tekna á meðan neyðarástand ríkir.