Rætt um aðstæður kvenna í Írak

18. des. 2006

Alþjóði Rauða krossinn stóð fyrir hringborðsumræðum í Amman, höfuðborg Jórdaníu, 11.-13. desember. Þar hittust 16 fulltrúar óopinberra samtaka í Írak til að ræða áhrif stríðsátaka á konur í Írak.

„Það eru mörg vandamál sem konur búa við þegar stríðátök geisa. Þær verða viðskila við ástvini sína, verða fyrir kynferðislegu ofbeldi og aðgangur að heilsugæslu verður erfiðaðri. Erfitt reynist að halda tengslum milli fjölskyldumeðlima,” segir Florence Tercier Holst-Roness, sem sér um verkefnið „Konur og stríð” á vegum Alþjóða Rauða krossins. „Aðstæður þessara kvenna myndu batna ef alþjóðleg mannúðarlög væru virt að fullu.”

Andrúmsloftið var tilfinningaþrungið þegar fulltrúarnir lýstu reynslu sinni og lýstu skoðunum sínum á því ástandi sem nú er við lýði. Einn þátttakandi frá Bagdad lagði áherslu á það hversu mikilvægar konur í Írak hefði verið í gegnum tíðina. „Þessi samfelldu stríðsátök, ofbeldi og félagsleg höft sem viðgengist hafa árum saman hafa grafið undan möguleika þeirra á að sýna styrkleika sinn.”

Vinnuhópar skilgreindu sérþarfir kvenna við þessar aðstæður og gerðu tillögur um aðgerðir til að mæta þessum þörfum. Á sama tíma lögðu þeir áherslu á að óbreyttir borgarar líða fyrir þessi sífelldu stríðsátök í Írak.

Alþjóða Rauði krossinn leitast við að koma á tengslum við mismunandi þjóðfélagshópa í Írak, þar á meðal stjórnvöld, fræðimenn, trúarleiðtoga og fulltrúa almennra borgara til að halda áfram starfi sínu fyrir fórnarlömb átaka í þessu stríðshrjáða landi. Þessar hringborðsumræður eru liður í því.