Harðákveðin að fara aftur -Vísnabók heimsins fyrir börn í Malaví

Birnu Þórðardóttur

14. des. 2006

Viðtal sem birtist í Rauða borðanum- tímariti Alnæmissamtakanna í desember 2006

Í ágústmánuði síðastliðnum héldu þau Ellen Kristjánsdóttir og Eyþór Gunnarsson til Malaví ásamt fleira fólki. Tilefnið var útgáfa á diskinum Vísnabók heimsins þar sem átján börn með uppruna í jafn mörgum löndum syngja hvert sitt lagið og hvert með sinni tungu! Allt var þetta til stuðnings starfi Rauða kross Íslands meðal barna í Malaví. Gefum Ellen orðið um tildrög alls þessa.

Aðdragandinn var sá að Kristján bróðir minn gaf Rauða krossi Íslands lagið When I think of angels, breytti örlítið textanum frá hinum upphaflega, og ég söng það þannig inn á disk. Rauði krossinn ákvað að þetta yrði nýtt í sambandi við alþjóðlegt starf samtakanna. Lagið var spilað við myndband sem við fengum að sjá. Það var mjög áhrifamikið.

Allir gáfu vinnu sína
Í framhaldi þessa ákvað ég að búa til barnaplötu, tileinkaða öllum börnum heimsins, öll börn fæðast jú eins, eða þannig! Hér býr fólk frá ótrúlega mörgum þjóðlöndum, þannig að ég gat búið til disk með börnum frá 18 löndum. Öll börnin syngja á móðurmáli sínu, hvert og eitt á sinn hátt. Diskurinn heitir Vísnabók heimsins og kom út í fyrra. Andri Snær skrifaði innganginn, frábærlega vel eins og hans var von og vísa. Allir sem komu að gerð disksins gáfu vinnu sína.

Rauði kross Íslands gaf diskinn út, en allur ágóði rennur óskiptur til aðstoðar við munaðarlaus börn í Malaví, í tengslum við starf Rauða krossins þar. Þetta varð til þess að Rauði krossinn bauð mér að koma út og sjá það sem verið er að gera, í hvað peningarnir fara. Rauði krossinn borgaði náttúrlega ekki fyrir mig, ég sá sjálf um þá hlið málsins. En þetta vatt upp á sig, eins og oft vill verða, og fleiri bættust í hópinn, bæði einstaklingar sem komu nálægt útgáfu disksins, eins og Eyþór eiginmaður minn, en einnig bættust kvikmyndagerðarmenn í hópinn. Okkur tókst síðan að afla styrkja til þess að komast. Ýmislegt varð þó til að fresta förinni, til dæmis urðu miklir þurrkar í Malaví, en loks var lagt upp í ágúst síðastliðnum.

Starf Rauða kross Íslands í Malaví snýr að börnum sem eiga um sárt að binda vegna alnæmis, hafa misst annað foreldri eða bæði úr alnæmi. Á þessum slóðum í sunnanverðri Afríku er hæsta dánarhlutfall af völdum alnæmis og er meðallífaldur einungis um 38 ár.

Sjálfshjálparhópar  með kennsluleikrit

Börnin eru svo óvarin...
Ég vissi náttúrlega ekkert út í hvað ég var að fara eða við hverju mátti búast og það var margt sem kom á óvart. Rauði krossinn vinnur úti í þorpunum, ekki síst með konum. Á þessum slóðum er gífurlegt feimnismál að vera hiv-jákvæður eða með alnæmi og það eru svo margir með þetta lokað inni.

Við kynntumst sjálfshjálparhópum, aðallega kvenna sem eru farnar að tala opinskátt um hiv-veiruna og alnæmi. Þær eru síðan farnar að hjálpa öðrum sem eru veikir, hafa til dæmis sett upp leikrit, lítil stykki sem ganga öll út á það að vera jákvæður! Leikritin fjalla mest um hvernig þú átt að hegða þér, um öryggi í kynlífi, nauðsyn þess að nota smokka og svo framvegis. Þar má heyra setningar eins og: Ha, ertu hiv-jákvæður? Vertu þá endilega jákvæður! Komdu með það út, þú færð hjálp, þú getur fengið  lyf og aðstoð.

Sjálfshjálparhóparnir eru nánast eingöngu kvennahópar, karlarnir eru lokaðri, út af stolti eða einhverju þá er gífurlegt feimnismál hjá þeim að vera hiv-jákvæður.

Skömmin þar …
Nýi forsetinn sem nú er í Malaví talar opinskátt um hiv og alnæmi og umræðan virðist vera að opnast mikið. Samt er langt í land. Við erum að ljúka við gerð heimildarmyndar sem unnin var í ferðinni. Í myndinni sést til dæmis þegar kvikmyndatökumaðurinn fór í heimsókn til manns sem var mjög langt leiddur af alnæmi. Móðir hans var hjá honum til að annast hann.

Fólk reynir náttúrlega að plata vegna þess að hiv og alnæmi er svo mikið feimnismál og það er slæmt. Margir segjast hafa misst fólkið sitt úr berklum, það er mikið notað. Starfsfólk Rauða krossins benti okkur á bletti sem koma í ljós á börnum og gefa til kynna að þau séu veik af alnæmi.

Þegar börn missa foreldri eða foreldra úr alnæmi taka gjarnan aðrar fjölskyldur börnin að sér, en það er ekkert endilega verið að fara með börnin í tékk. Þó er það ekki algilt. Við hittum til dæmis kennara, karlmann, sem hafði farið í tékk og konan hans einnig, þau voru bæði hiv-jákvæð, en börnin voru það ekki, þau höfðu einnig verið athuguð. Þessi kennari vinnur mjög mikið að hiv-málum, uppfræðir og hvetur til opinnar umræðu og að koma með vandamálið upp á yfirborðið.

… og hér
Þetta er svo mikið feimnismál, en það er það svo sem líka hér og furðuleg fáfræði í gangi. Mér brá til dæmis alveg rosalega þegar ég var að tala við fólk, áður en ég fór til Malaví. Margir sem ég ræddi við héldu, og halda, að maður smitist af hiv við það eitt að fara til Afríku! Þetta kom mér mjög mikið á óvart. Það er eins og fólk haldi að ekkert komi fyrir það hér á landi, það gerist bara eitthvað fari það til Afríku!

Það er líka hreint út sagt ótrúlegt hve margir eru að stunda óvarið og óábyrgt kynlíf. Mér finnst líka undarlegt hve lítið er talað um hiv og alnæmi hér, það kemur annað slagið eins og bóla - en dettur svo niður.

Smokkur = smit
Ég held að það sé gott aðgengi að smokkum í Malaví. Við heyrðum sögur um þessa trú að hægt sé að læknast af alnæmi með því að vera með óspjölluðum meyjum. Því miður mun eitthvað vera til í því að þessari bábilju sé trúað. Og það er sorglega mikið af ungum stúlkum sem hafa verið beittar ofbeldi og verið nauðgað.

Maður verður mjög raunamæddur að sjá börnin, þau eru svo óvarin. Á meðan hiv og alnæmi eru svona mikið feimnismál þá er ekki farið með börnin í tékk . Í þorpunum eru litlar heilsugæslustöðvar og það er hægt að fara þangað í próf til þess að athuga hvort um hiv-smit sé að ræða. Prófið tekur bara klukkutíma. En vegna afneitunar notfærir fólk sér það ekki. Það eru lyf fyrir hendi í Malaví. En til að geta tekið inn lyf þurfa einstaklingar að hafa nóg að borða, vegna þess að næring er nauðsynlegt samfara lyfjatöku.

Fræðsla og aftur fræðsla
Göngum til góðs - fyrir börnin!
En það er fyrst og fremst fáfræði sem viðheldur ástandinu. Þess vegna skiptir uppfræðsla svo miklu máli og þar skipta sjálfshjálparhópar kvennanna gífurlega miklu máli. Þetta eru svo jákvæðar og sterkar konur og þær eru stanslaust að segja: Óvarið kynlíf er hættulegt! En það er vissulega vakning í gangi og það var ótrúlegt að fylgjast með skólbörnunum úti í þorpunum horfa á leikriti, þar sem fullorðið fólk var að leika og sýna hvað má og hvað má ekki gera og hvernig á að passa sig til að smitast ekki.

Mikilvægi Rauða krossins
Rauði krossinn styrkir sjálfshjálparhópana og sjálfboðaliða sem einnig fara á vettvang og hlúa að þeim sem eru veikir. Rauði krossinn er einnig að gera margt fleira, til dæmis er verið að grafa  brunna til að fá hreint vatn. Það er nóg vatn í Malaví, það vantar bara tól og tæki til að grafa nógu djúpa brunna. Einn brunnur kostar 150.000 krónur, jafnmikið og einn flatskjár! Einnig er verið að byggja dagheimili og margt fleira.

Það er mikil vakning í gangi og ég hef trú á því að þessir sjálfshjálparhópar eigi eftir að gera ótrúlega mikið, ekki síst í og með því að viðurkenna vandamálið. Þora að koma fram og viðurkenna að maður sé veikur. Hiv-smit og alnæmi er dálítið eins og geðsjúkdómar, það er eins og skömm fylgi því að vera með ákveðna veiki.

Fleiri landsfélög Rauða krossins en það íslenska leggja sitt af mörkum í Malaví. Þar eru starfsmenn frá landsfélögum spænska, danska og hollenska Rauða krossins og fulltrúar allra þessara landsfélaga vinna náið með Rauða krossinum í Malaví. Þau starfa ekki sjálfstætt í landinu, fremur en í öðrum löndum. Skrifstofa Rauða kross Íslands er í gömlum gámi, þar voru sex eða sjö starfsmenn að koma sér fyrir þegar við vorum úti. Ein nettenging sem þau skiptust á um að nota!

Síðastliðið haust stóð Rauði kross Íslands fyrir söfnuninni Göngum til góðs og þá safnaðist heilmikið fé sem verið er að nýta til góðs í Malaví. Ég er harðákveðin í því að fara aftur að ári og sjá hvað hefur gerst og fylgja þessu verkefni Rauða krossins eftir!