Rauði kross Íslands krefst þess að starfsmenn Rauða hálfmánans í Írak verði leystir úr haldi

22. des. 2006

Sunnudaginn 17. desember var hátt á annan tug starfsmanna og sjálfboðaliða Rauða hálfmánans í Írak numinn á brott frá einni af skrifstofum félagsins í Bagdad. Nokkrum hefur þegar verið sleppt en margir eru enn í haldi.

Rauði kross Íslands sameinast alþjóðahreyfingu Rauða krossins og Rauða hálfmánans í að krefjast þess að þeir verði leystir skilyrðislaust úr haldi nú þegar.

Starfsmenn og sjálfboðaliðar Rauða hálfmánans í Írak aðstoða samlanda sína alls staðar í landinu með mannúð og hlutleysi að leiðarljósi. Þeir vinna mannúðarstarf sitt við hættuleg skilyrði og fórna miklu fyrir þetta starf.

Þeir eiga rétt á algjörri vernd samkvæmt alþjóðlegum mannúðarlögum og verðskulda virðingu og stuðning vegna vinnu sinnar í þágu þeirra Íraka sem nauðsynlega þurfa á aðstoð að halda.

Við ítrekum stuðning okkar og samhug með Rauða hálfmánanum í Írak á þessum erfiðu tímum.

Alþjóða Rauði krossinn og Rauði hálfmáninn skorar á þá sem eru með starfsmenn og sjálfboðaliða Rauða hálfmánans í Írak í haldi að virða líf þeirra og sjálfsvirðingu og láta þá lausa heila á húfi, nú þegar og án skilyrða.