Flóðin í Indónesíu

8. feb. 2007

Miklar rigningar það sem af er febrúar hafa orsakað gríðarleg flóð í Jakarta, höfuðborg Indónesíu. Flóð eru algeng í Indónesíu á regntímanum en flóðin nú eru þau mestu í Jakarta í fimm ár. Slæmt holræsakerfi og erfið aðstaða til að hafa stjórn á flóðunum hafa gert ástandið verra. Veðurspár gera ráð fyrir áframhaldandi rigningum næstu vikuna, einkum þar sem mikið eru um hæðir, og því er búist við enn frekari flóðum. Mestar eru áhyggjurnar af fólki sem misst hefur heimili sín, vatnsmengun og útbreiðslu sjúkdóma á borð við niðurgang, blóðkreppusótt og dengue hitasótt.

Fólk hefur verið flutt á brott og stjórnvöld, samtök og aðrir hafa komið upp tímabundnu húsaskjóli, aðallega í moskum, skólum og opinberum stöðum.

Neyðarmiðstöð Jakarta hefur verið starfrækt allan sólarhringinn og er þar hægt að fá nýjar upplýsingar um stöðuna á flóðasvæðinu. Borgaryfirvöld í Jakarta hafa útvegað 284 gúmmíbáta, 242 vettvangseldhús, 158 tjöld, 713 bíla, fjórar þyrlur og 264 vatnsdælur sem komið verður fyrir á 52 stöðum. Einnig er boðið upp á mat og heilbrigðisþjónustu. Þúsundir starfsmanna frá hernum, lögreglunni og öðrum sem þjóna samfélaginu hafa verið fengnir í leitar- og björgunarstörf.

Rauði kross Indónesíu hefur komið upp samhæfingarstöð og sent sjö viðbragðsteymi með 470 sjálfboðaliðum á flóðasvæðið. Þessi teymi hafa í samvinnu við aðra hópa sem þar eru fengið 12 gúmmíbáta til leitar- og björgunarstarfa. Hóparnir meta skaðann og koma upp tímabundnu húsaskjóli og eldhúsum á stöðunum. Þá hefur einnig verið sett upp samhæfingarstöð fyrir svæðin sjálf.

Rauði kross Indónesíu samhæfir aðgerðir sínar með sérstöku ráði sem sér um stjórnun og samhæfingu aðgerða á hörmungarsvæðinu. Tveir flutningabílar, tíu fjölskyldutjöld, 25 rúllur af plastlökum, 100 kíló af hrísgrjónum, 3.000 matarpakkar, tvö vettvangstjöld, 20 björgunarvesti, 5.000 vatnshreinsunartöflur og tíu kassar af núðlum voru sendir út frá vöruhúsi miðstöðvarinnar í Jakarta. Einnig stendur til að dreifa drykkjarvatni í tveimur vatnstönkum og 15 blöðrum með aðstoð þjálfaðra vatns- og hreinlætisstarfsmanna.

Alþjóða Rauði krossinn aðstoðar Rauða kross Indónesíu með því að koma á samvinnu við alþjóðleg samtök og hefur flutt 2.500 hreinlætispakka frá vöruhúsinu í Yogyakarta til Jakarta. Önnur landsfélög hafa boðið stuðning en Rauði krossinn hefur hingað til ekki beðið um frekari alþjóðlegan stuðning. Rauði kross Íslands fylgist með stöðu máli og er tilbúinn að bregðast við ef ástandið versnar.