Alþjóða Rauði krossinn eflir hjálparstarfið í sunnanverðri Afríku

15. feb. 2007

Alþjóða Rauði krossinn mun auka stuðning við landsfélög Rauða krossins í sunnanverðri Afríku, meðal annars með auknum fjárframlögum, til að bregðast við gríðarlegum flóðum á svæðinu síðan í byrjun janúar. Flóðin hafa leitt af sér að kólerutilfellum hefur fjölgað töluvert á sumum svæðum. Þau lönd sem verst hafa orðið úti eru Angóla, Mósambík og Sambía.

Sambía: Gríðarlegar rigningar hafa einnig skollið á nokkur landsvæði í Sambíu. Í norðurhluta landsins hafa 200 hús og kamrar hrunið í héruðunum Solwezi og Mpulungu og hafa menn miklar áhyggjur af slæmu hreinlæti í kjölfarið. Rauði kross Sambíu veitir neyðaraðstoð, meðal annars með klórtöflum, og fylgist er vel með útbreiðslu kóleru. Tilkynningar hafa borist um slík tilfelli í Sambíu frá því í október og síðustu vikuna hefur tilfellum fjölgað í höfuðborginni, Lusaka. Alls hafa 414 tilfelli verið skráð og 143 hafa látist.

Flóðin raska samgöngum í mörgum borgum eins og þessari í Angóla.
Angóla: Í Cacuaco-héraðinu í Angólu hefur að minnsta kosti 71 maður týnt lífi og 184 fjölskyldur hafa misst allar eigu sínar. Vegir eru vatnsósa og brýr skemmdar. Miklar rigningar gerðu það að verkum að kólerufaraldurinn sem hófst í fyrra hefur versnað enn frekar. Síðan í byrjun þessa árs hefur verið tilkynnt um 3.868 ný tilfelli í 15 af 18 héruðum landsins, og hafa héruðin Luanda, Cabinda og Benguela orðið verst úti. Sjálfboðaliðar Rauða kross Angólu hafa dreift hjálpargögnum á borð við tjöld, klórtöflur og vatnsbrúsa til 180 þúsund manns auk þess sem fólk er minnt á að gæta hreinlætis.

Mósambík: Miklar rigningar hafa verið í landinu, sérstaklega í norður- og miðhluta þess. Búist er við að það rigni áfram og því er óttast að skemmdirnar verði enn meiri. Yfir 61.000 manns hafa misst heimili sín, 29 látist og uppskera hefur skolast burt. Því óttast menn að matarskortur gæti orðið í héraðinu Nampula á næstu mánuðum. Rauði kross Mósambík hefur veitt þeim sem hafa orðið fyrir búsifjum vegna flóðanna neyðaraðstoð og fylgist vel með framvindu mála.

Malaví: Miklar rigningar hafa verið í Malaví síðan í byrjun janúar. Yfir 20 þúsund heimili hafa orðið fyrir búsifjum í héraðinu Chikwawa, 475 hús hafa hrunið í héraðinu Nsanje og næstum 900 hektararar af ræktarlandi hafa skolast burt. Rauði krossinn hefur veitt fórnarlömbum neyðaraðstoð, meðal annars tjöld og ábreiður.

Simbabve: Tilkynnt var um að minnsta kosti níu kólerutilfelli 30. janúar í Mabvuku, sem er úthverfi höfuðborgarinnar Harare. Skortur á hreinu drykkjarvatni og lítil sorphirða auka hættuna á farsóttum. Einnig hefur verið tilkynnt um nokkur tilfelli í héraðinu Kariba. Rauði kross Simbabve fylgist vel með ástandinu ásamt heilbrigðisráðuneyti landsins.
Seint á síðasta ári skullu gríðarleg flóð á mörg landssvæði í austur- og miðhluta Afríku. Alþjóða Rauði krossinn hefur aukið stuðning sinn þar með fjárframlögum og er tilbúið að gera enn meira vegna þess að spáð er áfram miklum rigningum. Styðja á betur við landsfélögin til að þau geti aðstoðað fórnarlömbin.

Rauði kross Íslands styður hjálparstarfið
Í Mósambík og Malaví tekur Rauði kross Íslands þátt í að aðstoða fólk sem þjáist vegna alnæmis. Innlendir sjálfboðaliðar Rauða krossins veita því fólki heimahlynningu sem hefur veikst af alnæmi og börn sem hafa misst foreldara sína fá fæði, klæði aðstoð við skólagöngu. 

Náttúruhamfarir eins og flóðin í Mósambík og Malaví núna valda yfirleitt mestum búsifjum hjá þeim sem þegar standa höllum fæti í samfélaginu. Þeir sem dags daglega glíma við fátækt og sjúkdóma eru illa í stakk búnir til að takast á við frekari áföll, t.d. þegar jarðnæði þeirra skolast burt í flóðum. Rauði kross Íslands hefur ákveðið að styðja hjálparstarfið vegna flóðanna með fjárframlagi og einnig verður kannað hvort þörf sé á að senda íslenska sendifulltrúa á flóðasvæðin.