Fellibyljir ógna fórnarlömbum flóða í Mósambík - Rauði kross Íslands veitir 3 milljónir króna í neyðarhjálp

22. feb. 2007

Rauði kross Íslands veitti í dag 3 milljónir íslenskra króna til neyðarbeiðni Alþjóða Rauða krossins vegna gífurlegra flóða í Mósambík. Neyðarbeiðnin hljóðar upp á 7,5 milljónir svissneskra franka (ríflega 400 milljónir króna) til að styðja við starf mósambíska Rauða krossins vegna hamfaranna.

Gríðarlegar rigningar undanfarnar vikur hafa orðið til þess að ár hafa flætt yfir bakka sína – þar á meðal Zambezi fljótið. Fellibylurinn Favio gekk á land í morgun í ferðamannahéraðinu Inhambane, en virðist ekki hafa ollið miklum usla enda Rauði krossinn með mikinn viðbúnað á þessum slóðum. Fellibyljir hafa oft valdið gífurlegu tjóni og mannskaða í Mósambík og er óttast að fleiri muni koma í kjölfar Favio.  Mikið vatnsveður fylgja fellibyljunum og er því hætta á enn meiri flóðum.

Að minnsta kosti 29 hafa týnt lífi í flóðunum, um 120 þúsund manns hafa verið flutt frá heimilum sínum og stjórnvöld telja að allt að 300 þúsund manns hafi þegar orðið fyrir búsifjum á einhvern hátt vegna flóðanna.

Þau héruð sem verst hafa orðið úti eru Zambezia, Sofala, Manica og Tete þar sem flóðin hafa eyðilagt þúsundir húsa, yfir 100 skóla, fjórar heilsugæslustöðvar, marga vegi, brýr og 15 þúsund hektara af ræktarlandi. Hætta er á að í kjölfar flóðanna muni kóleru- og malaríusýkingar aukast. Það er því nauðsynlegt að alþjóðasamfélagið bregðist skjótt við til að hörmungar flóðanna á árunum 2000 og 2001 endurtaki sig ekki, en þá fórust 700 manns.

Rauði kross Íslands hefur unnið með Rauða krossinum í Mósambík síðan árið 2000 að alnæmisverkefnum og aðstoð við götubörn og einnig að uppbyggingu á heilsugæslu í samstarfi við Þróunarsamvinnustofnun Íslands. Starfsmaður Rauða kross Íslands í höfuðborginni Maputo hefur yfirumsjón með verkefnunum og vinnur með Rauða krossinum í Mósambík að neyðarvörnum og neyðarviðbrögðum nú.

Alþjóða Rauði krossinn hefur virkjað sendifulltrúa sína í suðurhluta Afríku, auk hópa sem meta ástandið og skipuleggja starfið og hefur dreifing á hjálpargögnum þegar hafist. Rauði krossinn áætlar að veita um 100 þúsund manns í héruðunum fjórum tímabundið húsaskjól. Dreift verður 5.000 tjöldum, 15.000 ábreiðum, 40.000 teppum, 20.000 pökkum af eldhúsáhöldum og hreinlætisvörum, og 40.000 flugnanetum.

Einnig þarf að tryggja fórnarlömbum flóðanna öruggt drykkjarvatn og byggja upp hreinlætisaðstöðu til að koma í veg fyrir sjúkdóma sem breiðast út með menguðu vatni. Rauði kross Mósambík sér um heilbrigðisfræðslu til að koma í veg fyrir kólerusmit.

Um leið og vatnsborðið fór að hækka kallaði Rauði krossinn í Mósambík út 400 sjálfboðaliða til að veita skyndihjálp og dreifa hjálpargögnum til fórnarlamba flóðanna, upplýsa fólk um hvernig staðið yrði að brottflutningi þess og aðstoða það við að komast á örugg svæði. Þá var farið af stað með landssöfnun til að styðja við hjálparstarfið. Rauði krossinn í Mósambík hefur mikla reynslu í að búa fólk undir flóð og bregðast við þeim. Félagið vinnur náið með fleiri aðilum, meðal annars Sameinuðu þjóðunum.