Ömmur og unglingar gegn alnæmi

8. okt. 2011

„Við erum núna 11 ömmur í þorpinu okkar sem höfum tekið að okkur að hugsa um vegalaus börn," segir Doris. Hún býr í þorpinu Tchoda í Chiradzulu-héraði í suðurhluta Malaví þar sem Rauði kross Íslands hefur í hart nær áratug aðstoðað fólk sem þjáist vegna alnæmis.

Talið er að rúmlega einn af hverjum tíu íbúum í Malaví sé smitaður af alnæmisveirunni. Þess vegna bitnar sjúkdómurinn á nánast hverri einustu fjölskyldu í landinu.

Doris segir ömmurnar hafi fengið geitur frá Rauða krossinum svo að þær geti séð fyrir börnunum því allar eru ömmurnar bláfátækar. Á sunnudögum hittast þær síðan með allan barnahópinn í athvarfi sem Rauði krossinn hefur reist í þorpinu. Þá eru sagðar sögur um liðna tíma og börnunum kennt að haga sér vel og vera kurteis.

En alnæmi snertir alla svo að unglingarnir í þorpinu hafa einnig stofnað hóp til að vinna gegn útbreiðslu sjúkdómsins. Unglingarnir hittast til að fræðast um smitleiðir og ræða um mikilvægi þess að stunda skírlífi þangað til þau finna sér lífsförunaut. Litlu krakkarnir í þorpinu fá að vera með í hópnum vegna þess að allir þurfa að vita af vágestinum.

„Við stelpurnar styðjum hvorar aðrar og segjum nei við kynlífi,“ segir Joyce sem er leiðtogi hópsins. „Og ömmurnar styðja við bakið á okkur því þær þekkja afleiðingar alnæmis“.Ömmur og unglingar gegn alnæmi