Aðstoð Rauða krossins í Ulaan Baatar í Mongolíu ómetanleg

4. apr. 2007

Í útjaðri Ulaan Baatar, höfuðborg Mongolíu, hefur á undanförnum árum risið hverfi sem að mestu samanstendur af hefðbundnum hirðingjatjöldum sem kallat ger. Í hverfinu er ekkert rafmagn, ekkert rennandi vatn, og hreinlæti er ábótavant. Ýmsar ástæður eru fyrir því að íbúar hverfisins hafa flust af landsbyggðinni til höfuðborgarinnar. Margir eru bændur sem hafa misst allan búfénað sinn í vetrarhörkum sem herjað hafa á þjóðina síðastliðin 8 ár en aðrir hafa leitað til borgarinnar í von um vinnu og betri lífsgæði.

Um hálf milljón manna býr í tjaldhverfinu og er aðbúnaður vægast sagt slæmur. Að sögn Þórs Daníelssonar, yfirmanns Alþjóða Rauða krossins í Mongolíu og sendifulltrúi Rauða kross Íslands, þurfa um 36.000 manns eða tæplega 10% íbúanna á einhverri aðstoð að halda. Rauði kross Mongolíu reynir af fremsta megni að aðstoða þá sem búa við mikla neyð og heldur úti öflugri heimsóknarþjónustu. Verkefnið er að mestu leyti stutt af landsfélögum breska og þýska Rauða krossins.

„Það eru einstæðar mæður, aldraðir og sjúkir sem þurfa mest á aðstoð að halda,” segir Þór. „Reynt er af fremsta megni að rjúfa einangrun fólksins og veita félagslega þjónustu.”

Þór, sem hefur dvalið í Mongolíu síðan í haust, segir þetta vera eitt aðalverkefni mongólska Rauða krossins og að auðvelt hafi reynst að fá fólk til starfa.

„Þetta er stærsta sjálfboðaliðaverkefni Rauða krossins hér. Um 3.000 manns fá heimsóknir reglulega frá um 400 sjálfboðaliðum,” segir Þór. „Það er ómetanleg aðstoð, en sannarlega þyrftu fleiri á henni að halda.”

Mongólski Rauði krossinn vinnur einnig að vatnsverkefni í tjaldhverfinu til að sjá sem flestum fyrir hreinu neysluvatni. Ungliðahreyfing Rauða krossins sér svo um að flytja vatn til skjólstæðinga sem ekki eru færir um að sækja það sjálfir. Hollenski Rauði krossinn styður verkefnið sem hluta af þúsaldarmarkmiðum hollenska ríkisins og er stefnan að 50 milljón manns hafi aðgang að hreinu vatni fyrir árið 2015. Búið er að byggja fimm vatnssjoppur og verða byggðar níu til viðbótar. Þrír vatnstrukkar flytja vatnið í vatnssjoppurnar sem hverfisbúar kaupa fyrir lítið verð. Áætlað er að þessu verkefni lúki á næstu þremur árum en þá munu borgaryfirvöld taka við verkefninu af Rauða krossinum.

Þór skrifaði grein um starf sitt í Mongólíu sem hægt er að lesa með því að smella hér. Einnig er að finna grein á vef Alþjóða Rauða krossins.

Þeim sem vilja styðja verkefni Rauða krossins í Mongolíu er bent á reikning Rauða kross Íslands 1151-26-12, kt. 530269-2649 eða söfnunarsímann 907 2020. Þá verða 1.200 krónur dregnar af næsta símreikningi.