Neyðaraðstoð Rauða krossins á Salómonseyjum

4. apr. 2007

Alþjóða Rauði krossinn hefur sent út neyðarbeiðni að upphæð 60 milljónir króna til stuðnings Rauða krossins á Salómonseyjum sem aðstoðar þá sem lifðu af hamfarirnar þegar flóðbylgja skall á eyjarnar. Flóðbylgjan kom í kjölfar jarðskjálfta í Kyrrahafi 2. apríl. Jarðskjálftinn var 8,2 að styrkleika á Richter-kvarða. Fjöldi eftirskjálfta hafa fylgt.

Féð verður notað til að tryggja fólkinu hreint vatn, læknishjálp og skjól sem fyrst. Einnig verður mætt þörf til lengri tíma verkefna svo sem sálrænum stuðningi, vatnsbrunnum, fræðslu um hreinlæti og notkun öruggara byggingarefnis.

„Staðan er mjög erfið. Eftirskjálftarnir héldu áfram í gær og á sumum stöðum á Gizo eyju vantar mat og vatn,” segir Martin Blackgrove starfsmaður Alþjóða Rauða krossins á svæðinu. „Við höfum einnig áhyggjur af afskekktum svæðum þar sem aðeins er hægt að komast á bátum,” segir Martin jafnframt.

Rauði krossinn á Salómonseyjum brást þegar við hamförunum og hóf dreifingu á brýnustu nauðsynjum til þeirra sem misst hafa heimili sín. Sjálfboðaliðar hafa notast við frumstæða báta til að fara á afskekkt svæði og meta frekari þörf fyrir aðstoð. Samkvæmt fyrstu upplýsingum eru fimm þúsund manns heimilislaus. Alþjóða Rauði krossinn hefur sent teymi sérfræðinga í neyðaraðstoð til aðstoðar.

„Við erum enn á fyrstu stigum neyðaraðstoðarinnar og leggjum því áherslu á að ná sem allra fyrst til þeirra sem þurfa mest á hjálp að halda,” segir Simon Missiri, yfirmaður svæðisskrifstofu Alþjóða Rauða krossins í Asíu og Kyrrahafi. „Okkar reynsla af náttúruhamförum er sú að uppbygging tekur langan tíma en nú leggjum við áherslu á að reyna að mæta frumþörfum fólksins.”     

Strax í kjölfar flóðbylgjunnar sendi Alþjóða Rauði krossinn 3,5 milljón króna úr neyðarsjóði sínum, sem Rauði kross Íslands leggur meðal annarra fé í, til Rauða krossins á Salómonseyjum til að kaupa og flytja hjálpargögn og gera frekara mat á þörf fyrir aðstoð. Á næstu dögum mun koma í ljós hvort þörf sé á enn frekari aðstoð.