Ástand mannúðarmála í Írak versnar stöðugt

12. apr. 2007

Alþjóða Rauði krossinn hefur sent frá sér skýrslu þar sem bent er á að ástand  mannúðarmála í Írak fari versnandi. Brýnt sé að grípa til aðgerða til verndar óbreyttum borgurum gegn síauknu ofbeldi.

Í skýrslunni eru fordæmd dagleg ofbeldisverk á borð við skotárásir, sprengingar, mannrán, morð og hernaðaraðgerðir þar sem óbreyttir borgarar eru sérstakt skotmark. Bent er á að þessi verk séu skýr brot á alþjóðlegum mannúðarlögum og öðrum sambærilegum lögum. Ástandið hefur áhrif á alla íbúa landsins en í skýrslunni er bent sérstaklega á þá sem veikir eru fyrir - til að mynda þá hundruð þúsunda Íraka sem neyðst hafa til að flýja heimili sín og fjölskyldurnar sem hafa skotið skjólshúsi yfir þá.

Alvarlegt ástand er innan heilbrigðiskerfisins vegna skorts á starfsfólki og birgðum. Heilbrigðisstarfsmenn og sjúklingar veigra sér við að fara á sjúkrahús og heilsugæslustöðvar því að þær eru oft skotmark. Vatns,- holræsa- og rafmagnskerfi landsins er í slæmu ástandi og óöryggi hefur hamlað vinnu við viðgerðir.

„Íraska þjóðin líður nú óbærilegar þjáningar sem eru óásættanlegar. Líf þeirra og lífsbjörg er í stöðugri hættu,” segir Pierre Krähenbühl, aðgerðarstjóri Rauða krossins. „Alþjóða Rauði krossinn skorar á alla þá sem geta beitt áhrifum sínum að grípa strax til aðgerða til að tryggja að lífi fólks sé þyrmt og það verndað. Það er skylda samkvæmt alþjóðlegum mannúðarlögum.”

Vegna stöðu sinnar sem hlutlaus og sjálfstæð samtök hafa Alþjóða Rauði krossinn og Rauði hálfmáninn í Írak getað flutt inn í landið mat og aðrar nauðsynjar til að þeir tugir þúsunda sem veikir eru fyrir nái að haldið lífi. Alþjóða Rauði krossinn veitir nú yfir 60 þúsund manns neyðaraðstoð og sér Rauði hálfmáninn í Írak um að dreifa hjálpargögnum. Síðastliðið ár hefur Rauði krossinn útvegað lyf og áhöld til lækninga sem duga til að veita 3.000 manns læknishjálp. Sendifulltrúar Rauða krossins heimsækja þúsundir fanga til að fylgjast með stöðu þeirra og hvernig farið er með þá og einnig til að aðstoða þá og fjölskyldur þeirra við að halda sambandi sín á milli með heimsóknum og skilaboðum.