Svartur miðvikudagur í Mapútó

Jose Tomas upplýsingafulltrúa mósambíska Rauða krossins

13. apr. 2007

Byggingar gereyðilögðust vegna þrýstingsins frá sprengingunum.
 
Sjálfboðaliðar mósambíska Rauða krossins voru strax mættir á staðinn og hófu hjálparstörf.
Mikið mannfall var og margir illa slasaðir.
Miðvikudagurinn 22. mars 2007 verður ógleymanlegur íbúum Mósambík. Það var seinni part þess dags sem íbúar höfuðborgarinnar og nágrennis urðu að flýja vegna gríðarlegrar sprengingar í vopnabúri mósambíska hersins. Fólk var á leið heim úr vinnu og börn að koma úr skólanum.

Sjálfboðaliðar Rauða krossins fljótir á staðinn
Þegar sprengingarnar byrjuðu áttuðu fáir sig á hversu mikilli eyðileggingu þær myndu valda. Þeir sem heyrðu drunurnar í fjarska veltu jafnvel upp þeim möguleika að þetta væri þrumuveður eða fyrirboði mikillar rigningar þar sem heitt hafði verið í veðri þennan dag.

Alcinda Matola var illa farin á líkama og sál. En þegar allt fór að hristast vegna áhrifa sprenginganna flýtti fólk sér að húsum sínum til að reyna að ná betri stjórn á ástandinu. Þá hafði fólk ekki hugmynd um að margir nágrannar þeirra voru að deyja vegna sprenginganna og aðrir voru lemstraðir.

Fyrstu myndirnar sem birtust í sjónvarpinu af svæðinu vöktu undrun hjá mörgum. Rauði kross Mósambík var mættur á staðinn. Sjálfboðaliðarnir voru mættir í fullum skrúða tilbúnir til starfa.

Það kemur kannski ekki á óvart að Rauði krossinn skyldi vera á staðnum. Margir vildu hins vegar vita hvernig þessum hópi sjálfboðaliða tókst að koma á staðinn svo fljótt. Var það vegna góðs skipulags eða hversu tilbúnir sjálfboðaliðarnir voru til vinnu? Ég spurði einn sjálfboðaliðann þessara spurninga.

„Ég frétti þetta fyrst frá vegfarendum og fékk svo staðfestingu í fjölmiðlum,” segir Epifánia Maússe. Hún var í fyrsta hópi sjálfboðaliða Rauða krossins sem aðstoðaði fórnarlömb sprenginganna. Hún segir atburðinn hafa sett mark sitt á sig þar sem þetta var í fyrsta skiptið sem hún meðhöndlaði illa sært fólk og var í nánd við mörg lík. „Ég hef aldrei áður séð útlim skilinn frá líkamanum sjálfum en ég varð að höndla það meðan verið var að flytja líkin á brott. Ég varð meira að segja að safna saman líkamspörtum, innyflum og öðrum líffærum. Ég mun ekki gleyma þessu svo auðveldlega. Fyrsta daginn gat ég ekki borðað eða sofið. Þegar ég reyndi að sofna kom þessi hrikalega mynd upp í hugann. En ég held að með tímanum verði þetta allt í lagi.

„Fólkið sem dó þrátt fyrir að við værum að gera okkar allra besta til að hjálpa því mun verða í huga mér um ókomna tíð. Það er gríðarlega sárt.”

„Eftir að búið var að flytja líkin á brott aðstoðuðum við læknaliðið í sjúkrahúsinu á Maputo fram í dagrenningu.”

Sjálfboðaliðarnir hafa síðan unnið með stjórnvöldum í að koma upp tjöldum og dreifa hjálpargögnum til þeirra sem verst urðu úti í sprengingunum. Margir hafa komið á aðalskrifstofu Rauða krossins í Mósambík og beðið um að fá að skrá sig í félagið. Það sem hvetur þetta fólk til þess er framganga sjálfboðaliðanna, sérstaklega við neyðaraðstoðina til fórnarlamba sprenginganna.

Framtíðarverkefni
Þegar við tölum um skemmdir vegna sprenginganna er fyrst að nefna manntjónið, meiðsli og ónýtar byggingar. En það er margt annað sem ekki má gleymast. Mörg börn eru orðin munaðarlaus, gamalt fólk er eitt og yfirgefið, margir misstu maka sína, fólk er skráð týnt og þeir sem urðu fyrir meiðslum verða aldrei samir. Í stuttu máli er nauðsynlegt að þjálfa teymi til að greina og taka á aukaverkunum vegna sprenginganna. Í dag lítur það kannski ekki út fyrir að skipta máli en þegar til lengri tíma er litið getur ástandið versnað það mikið að erfitt gæti verið að ráða við það.

Við komumst einnig að því þegar við vorum á vettvangi að sálfræðileg áhrif sprenginganna eru mikil. Þegar við fylgdumst með Rauða krossinum meta hvaða aðstoð fólk þarf sáum við meðal annars konu í mjög slæmu tilfinningalegu ástandi. Hún gat varla sagt eitt einasta orð skýrt og kvartaði undan bakverkjum. Að hennar sögn byrjaði þetta allt með þeirri ofsahræðslu sem hún upplifði þegar sprengja lagði hús hennar í rúst.

Hún heitir Alcinda Matola og hún segir að þrátt fyrir lyfjatöku hafi heilsa hennar ekkert skánað. „Ég hef reynt að taka lyfin en verkurinn fer ekki. Ég hef verið svona síðan sprengjan sprakk og þar sem ég sef ekki vel hefur ástandið versnað.”

Hún á ættingja sem hún getur búið hjá tímabundið en hún segist vilja vera nær því sem hún á vegna þess að hún óttast að það gæti horfið. Hvað framtíðina varðar segir Alcinda að ekki sé hægt að sjá neitt fyrir. „Nú get ég ekkert sagt við þig því að ég er enn niðurbrotin. Ég ætla að tala við manninn minn. En við þurfum tíma. Við erum miður okkar yfir því að líf okkar hefur færst aftur á bak.”

Nína Helgadóttir verkefnisstjóri Rauða kross Íslands í sunnanverðri Afríku er með aðsetur í Mósambík. Hún fór með sálræna teymi mósambíska Rauða krossins á vettvang til að aðstoða fórnarlömb sprenginganna.