Alþjóða Rauði krossinn aðstoðar 500,000 Íraka í Sýrlandi og Jórdaníu

18. apr. 2007

Alþjóða Rauði krossinn mun veita um 500,000 Írökum sem flúið hafa til Sýrlands og Jórdaníu nauðsynlega heilbrigðisþjónustu og nauðþurftir næstu 12 mánuði. Rauði krossinn hefur sent út neyðarbeiðni fyrir um 18,2 milljónir svissneskra franka (tæplega einn milljarð króna) til að aðstoða 100 þúsundum íraskar fjölskyldur (60 þúsund í Sýrlandi og 40 þúsund í Jórdaníu).

Fjármunirnir munu hjálpa Rauða hálfmánanum í Sýrlandi og Jórdaníu að veita flóttamönnunum margvíslega aðstoð fyrir utan heilbrigðisþjónustu svo sem mat, búsáhöld, dýnur, rúmföt og hreinlætisvörur, og einnig skólavörur fyrir börnin.

Samkvæmt upplýsingum Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna er talið að 1,2 milljónir Íraka hafi flúið til Sýrlands vegna ofbeldis, glæpa, átaka milli þjóðarbrota og fátæktar sem ríkir í Írak og um 750 þúsund hafa flúið til Jórdaníu. Auk þess eru tvær milljónir á flótta innan Íraks.

„Alþjóða Rauði krossinn hefur undanfarið kannað aðstæður þeirra sem flúið hafa til Sýrlands og Jórdaníu,” segir Evgeni Parfenov hjá Alþjóða Rauða krossinum í Genf. „Samkvæmt niðurstöðum Rauða krossins er algjört forgangsatriði fyrir íraskar fjölskyldur að fá fullnægjandi aðgang að heilbrigðisþjónustu auk sálræns stuðnings fyrir fólk sem orðið hefur fyrir miklu áfalli vegna þess hryllings sem það hefur orðið vitni að í Írak.”

Allt að 22 heilsugæslustöðvar á vegum Rauða hálfmánans, 12 á Sýrlandi og 10 í Jórdaníu fá stuðning næsta árið. Þá fá tvær sálfræðimiðstöðvar, ein í Damaskus og ein í Amman, fjárstuðning á sama tíma til að draga úr áhrifum áfalla vegna stríðsins í Írak. Um 600 sjálfboðaliðar verða þjálfaðir í að veita þeim sálrænan stuðning sem hafa flúið heimili sín og þeim sem hafa skotið yfir þá skjólshúsi.

Elín Jónasdóttir sálfræðingur var fulltrúi Rauða kross Íslands í alþjóðlegu teymi sem hélt námskeið um sálrænan stuðning fyrir starfsfólk og sjálfboðaliða Rauða hálfmánans í Sýrlandi nú í febrúar. Þeir sem sátu námskeiðið vinna nú að þjálfun annarra sjálfboðaliða í að veita flóttamönnum sálrænan stuðning.     

 „Stjórnvöld og almenningur á Sýrlandi og í Jórdaníu hafa verið örlát í aðstoð sinni við heimilislausa Íraka en nú geta opinberar stofnanir eins og sjúkrahús, heilsugæslustöðvar og skólar ekki gert meira, og það skiptir miklu máli að þær fái stuðning,” segir Ahmed Gizo yfirmaður Miðausturlandadeildar Alþjóða Rauða krossins. „Flestir Írakar sem flýja land sitt hafa fá eða engin úrræði og eru mjög berskjaldaðir. Sumir freistast til að fara aftur til Íraks til að sækja lífeyri sinn frá hinu opinbera og mataraðstoð sem veitt er í heimabæ þeirra, og hætta oft lífi sínu vegna þessa.”