Alþjóðlegt hjálparstarf Rauða krossins

Kristínu Ólafsdóttur verkefnisstjóra Rauða kross Íslands

24. apr. 2007

Grein skrifuð fyrir blað nýstúdenta í Verslunarskóla Íslands og birtist í apríl.

Einna mest heillandi við Rauða krossinn og jafnframt mesti styrkur hans er að sjálfboðaliðar sem starfa í nafni hans eru um 97 milljónir talsins í 185 löndum í heiminum í dag. Sjálfboðaliðarnir, sem hafa margvíslega reynslu og bakgrunn, starfa í sínu heimalandi að neyðarvörnum og neyðaraðstoð vegna áfalla og hamfara og að verkefnum tengdum heilbrigði og umönnun. Hluti af verkefnum þeirra sem starfa með Rauða krossinum er líka að kynna hugsjónirnar sem liggja að baki starfinu og þar er hugsjónin um mannúð efst á blaði. Það er svo alltaf keppikefli Rauða krossins í þeim löndum sem hann starfar að sinna verkefnum sínum að alúð.

Verkefni á sviði neyðarvarna og neyðaraðstoðar vegna áfalla og hamfara og verkefni tengd heilbrigði og umönnun geta verið af ólíkum toga. Rauði krossinn starfar við afar misjafnar aðstæður í hinum ýmsu löndum heimsins. Náttúrufar á Íslandi kallar til dæmis á að Rauði krossinn hérlendis sé mjög virkur í starfi að neyðarvörnum og neyðaraðstoð vegna hamfara. Á sviði heilbrigðis og umönnunar hefur Rauði krossinn á Íslandi lagt áherslu á að vera málsvari þeirra sem minnst mega sín í samfélaginu og aðstoða þá sem verst eru settir.

Í löndum þar sem náttúruhamfarir eru tíðar, fátækt og heilsuleysi því tengt er mikil eða stríðsátök geisa, eru verkefni Rauða krossins á sviði neyðarvarna og neyðaraðstoðar sem og á sviði heilbrigði og umönnunar í samræmi við aðstæður. Þannig reka mörg landsfélög í Afríku, sem er fátækasta heimsálfan, heilsugæslustöðvar, heimsóknarþjónustu til sjúkra og miðstöðvar fyrir börn sem líða skort vegna alnæmis. Þar fá börnin margvíslega aðstoð svo sem mat, fatnað og skólabækur auk aðhlynningar. Sjálfboðaliðar Rauða krossins eru oftast mjög virkir en skortur á fjármagni til að sinna brýnum verkefnum er aðal dragbítur fátækari landsfélaga.

Rauði krossinn starfar, eins og fyrr segir, í 185 löndum. Í sumum þessara landa heitir félagið reyndar Rauði hálfmáninn. Sú nafngift á sér sögulegar skýringar en aðalatriðið er að öll félögin starfa eftir sömu mannúðarhugsjónunum og sameiginlegri stefnu. Alþjóðasamband Rauða krossins og Rauða hálfmánans (International Federation of the Red Cross and Red Crescent Societies) gegnir samhæfingarhlutverki fyrir landsfélögin. Þegar verkefnin verða of viðamikil fyrir Rauða krossinn í ákveðnu landi biður hann önnur landsfélög um aðstoð fyrir milligöngu Alþjóðasambandsins. Hjálparbeiðnin getur verið um fjármagn til ákveðinna verkefna, um aðstoð við að hefja ný verkefni eða að byggja upp önnur.

Einna brýnust er þörfin fyrir aðstoð í kjölfar hamfara þegar Rauði krossinn í landinu hefur ekki bolmagn til að standa einn að hjálparstarfi. Þá er oft þörf fyrir utanaðkomandi sérfræðinga til að starfa með sjálfboðaliðum og starfsfólki heima fyrir við að sinna særðum og sjúkum, koma í veg fyrir útbreiðslu sjúkdóma, gera við vatnsveitukerfi og útvega drykkjarvatn, skipuleggja dreifingu hjálpargagna og skipuleggja hjálparstarfið í heild sinni.

Á átakasvæðum hefur Alþjóðaráð Rauða krossins (International Committee of the Red Cross) ákveðnu hlutverki og skyldum að gegna. Alþjóðaráðið og landsfélög Rauða krossins spretta af sömu rót. Hana er að finna í hugmynd Henry Dunant, svissnesks kaupsýslumanns um miðbik 19. aldar, um að stofna óháð hjálparsamtök til að hlúa að særðum á vígvellinum og að gera alþjóðlega samninga um reglur í stríði.

Sendifulltrúar Alþjóðaráðsins sem starfa á átakasvæðum starfa eftir Genfarsamningunum við að vernda og aðstoða þá sem ekki taka þátt í átökunum; almenna borgara, sjúka og særða hermenn og stríðsfanga. Sendifulltrúar starfa sem hlutlausir aðilar á vettvangi og sinna störfum sem innlent starfsfólk getur illa sinnt, svo sem heimsóknum til stríðsfanga og viðræðum við yfirvöld um að bæta aðstæður skjólstæðinga Rauða krossins.

Alþjóðaráð Rauða krossins er svissnesk sjálfseignarstofnun og langt fram eftir síðustu öld voru sendifulltrúar þess eingöngu svissneskir. Ástæða þess er hlutleysi Svisslendinga á alþjóðavettvangi. Alþjóðaráðið hefur þó smám saman ráðið starfsfólk af öðru þjóðerni en almennir sendifulltrúar verða enn sem komið er að tala og skrifa frönsku en franska og enska eru vinnumál Alþjóðaráðsins.

Rauði kross Íslands sinnir alþjóðlegu hjálparstarfi meðal annars með því að aðstoða systurfélög í Afríku við að byggja upp verkefni á sviði heilbrigði og umönnunar. Félagið hefur til að mynda stutt Rauða krossinn í Malaví og Mósambík við að byggja upp verkefni sem alnæmissmitaðir og börn sem þjást vegna alnæmis njóta góðs af. Aðstoðin felst fyrst og fremst í því að útvega fjármagn til verkefna en einnig kemur Rauði kross Íslands að með beinum hætti, til dæmis með því að hafa íslenskan starfsmann við verkefnisstjórn á staðnum.

Í verkefnum á sviði neyðaraðstoðar erlendis leitast Rauði kross Íslands við að svara eftir bestu getu beiðnum frá Alþjóðasambandinu og Alþjóðaráðinu um fjármagn og mannafla þar sem þörfin er mest hverju sinni.

Sendifulltrúar Rauða kross Íslands er starfsfólk sem sinnir hjálparstarfi erlendis. Þar er aðallega um að ræða sérfræðinga á heilbrigðissviði, svo sem lækna og hjúkrunarfræðinga, en verk- og tæknifræðingar starfa einnig að vatnsveituverkefnum, viðskipta- og rekstrarfræðingar að fjármálastjórn, sérfræðingar á sviði fjölmiðlafræði og almannatengsla að upplýsingaöflun og upplýsingaveitu og frönskumælandi fólk með háskólamenntun hefur gegnt störfum almennra sendifulltrúa á átakasvæðum. Sendifulltrúar Rauða kross Íslands hafa einnig gegnt stjórnunarstörfum hjá Alþjóða Rauða krossinum.

Sendifulltrúanámskeið eru haldin annað hvert ár fyrir þá sem hafa áhuga á að sinna hjálparstörfum erlendis. Umsækjendur þurfa að vera 25 ára eða eldri, hafa að minnsta kosti 3 ára starfsreynslu eftir nám sem hentar til starfa fyrir Rauða krossinn og tala og skrifa ensku reiprennandi. Nánari upplýsingar um námskeiðið og um alþjóðlegt hjálparstarf félagsins er að finna á vefsíðu Rauða krossins www.redcross.is.