Hólmfríður Garðarsdóttir sendifulltrúi tekur þátt í uppbyggingarstarfinu eftir hamfarirnar í Mósambík

30. apr. 2007

Hólmfríður Garðarsdóttir hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir heldur til starfa sem sendifulltrúi Rauða krossins í Mósambík 2. maí. Hólmfríður mun næstu sex mánuði hafa yfirumsjón með og starfa að samhæfingu verkefna á sviði lýðheilsu og heilsugæslu á vegum Alþjóðasambands Rauða krossins og Rauða hálfmánans (IFRC) vegna neyðarástands sem skapaðist í kjölfar flóða og fellibylja í landinu í febrúar síðastliðinn. Starfið er þáttur í uppbyggingarstarfi í framhaldi af neyðaraðstoð sem veitt var strax eftir hamfarirnar.

Hólmfríður mun starfa með landsfélagi Rauða krossins í Mósambík í náinni samvinnu við þarlend heilbrigðisyfirvöld að skipulagningu verkefna á sviði heilsugæslu, skyndihjálpar og neyðarviðbragða. Nína Helgadóttir verkefnisstjóri Rauða kross Íslands í sunnanverðri Afríku, sem er með aðsetur í Mósambík, hefur einnig tekið þátt í samhæfingu hjálparstarfsins. Rauði kross Íslands hefur lagt þrjár milljónir króna til viðbótar við þriggja milljóna króna framlag ríkisstjórnar Íslands til að styðja við starf mósambíska Rauða krossins vegna hamfaranna.

Hólmfríður er einn reynslumesti sendifulltrúi Rauða kross Íslands og mikill fengur að því að fá hana til starfa með Rauða krossinum í Mósambík. Hún starfaði á vegum Rauða krossins í Afganistan 1994 - 1995, í Bosníu-Hersegovínu 1995 - 1996, í Tansaníu árið 1997, í Norður-Kóreu 1999 -2000, í Súdan 2003, í Íran 2004 og í Indónesíu 2005. Hún hefur meistaragráðu í lýðheilsu í þróunarlöndum og starfar við Landspítala-Háskólasjúkrahús. Langt og farsælt samstarf hefur verið milli Rauða krossins og spítalans en hjúkrunarfræðingar hafa getað farið til hjálparstarfa á vegum Rauða krossins, oft með mjög skömmum fyrirvara. Reynsla hjúkrunarfræðinganna á vettvangi styrkir þá í störfum þeirra á spítalanum.