Sjálfboðaliðar aðstoða þá sem eiga um sárt að binda vegna sprenginga í Mapútó

14. maí 2007

Í Malhazine-hverfinu í Mapútó ríkir örvænting og sorg. Þann 22. mars barst fjöldi sprengna á úthverfi Maputo frá vopnabúri mósambíska hersins með þeim afleiðingum að yfir 100 féllu og 500 slösuðust. Gonçalves Mond¬lane var við vinnu þegar sprengingarnar byrjuðu.

„Eldflaug lenti á húsinu mínu og sprakk þannig að allt sem ég átti fuðraði upp. Veggirnir sem eru eftir standa varla uppi, fjölskylda mín er ekki örugg hér. Það sem ég held á núna, þetta teppi, moskítónet og eldhúsáhöldin sem Rauði krossinn útvegaði er það eina sem ég á í þessum heimi,” segir Gonçalves með tárin í augunum. „Ég er dapur yfir því að sofa undir berum himni þegar ég hef lagt hart að mér til að geta lifað með sóma.”

Í Magoanine-hverfinu skammt frá er ekki talað um annað en dauða 13 manna. Estevão Tomás, eigandi hússins, útskýrir hvað gerðist: „Það voru 16 manns í húsinu mínu. Nágrannar leituðu skjóls hér og treystu á að þessi bygging veitti þeim skjól. Í stað þess lenti eldflaug á húsinu og gjöreyðilagði það.”

Tilfinningalegt áfall
Í öðru hverfi sá Camilio Miglete húsið sem hann byggði fyrir 30 árum hrynja á sekúndubroti. Elsta dóttir hans varar fólk við að reyna að tala við hann þar sem tilfinningarnar gætu borið hann ofurliði. „Hann missti allt sem hann átti í heiminum. Við höfum áhyggjur af heilsu hans; hann er þegar orðinn gamall og þetta áfall gæti riðið honum að fullu,” segir hún. Á meðan börn hans reyna að styrkja föður sinn hefur Rauði krossinn reist tjald á lóð Miglietes til að veita honum tímabundið skjól.

Mannúð í raun
Þegar myndir frá sprengingunni birtust á sjónvarpsskjám landsmanna var Rauði kross Mósambík kominn á staðinn og vann með opinberum starfsmönnum og einkaaðilum að því að útvega neyðaraðstoð fyrir fórnarlömb sprenginganna. „Ég frétti af því sem gerðist frá þeim sem leið áttu framhjá,” sagði Epifana Mausse, einn af 30 sjálfboðaliðum Rauða krossins sem vann allan sólarhringinn við erfiðar aðstæður við að hjálpa þeim sem lifðu af. Sjálfboðaliðarnir dreifðu áhöldum til heimilishalds og reistu tjöld. Þannig fékk margt fólk sem misst hafði heimili sín tímabundið skjól. Síðan hörmungarnar dundu yfir hafa margir íbúar Mapútó heimsótt Rauða krossinn og boðið þjónustu sína, hvattir áfram af þrautseigju og dugnaði sjálfboðaliðanna.

Rauði kross Íslands hefur verið í samstarfi við Rauða krossinn í Mósambík um árabil. Deildir félagsins á Norðurlandi eru í samvinnu við deildina í Mapútó og hafa þær m.a. stutt margvíslega þjálfun fyrir sjálfboðaliða.