Evrópuráðstefna um alþjóðlega fólksflutninga og rétt til heilbrigðisþjónustu

21. maí 2007

Fólksflutningar og óviðunandi aðgangur að heilbrigðisþjónustu eru stærstu vandamálin sem evrópskar þjóðir standa frammi fyrir, samkvæmt yfirlýsingu sem Alþjóða Rauða krossinn sendi frá sér í gær. Fulltrúar frá yfir 50 Rauða kross félögum sitja nú fjögurra daga ráðstefnu í Istanbúl í Tyrklandi til að ræða hvernig best megi mæta þörfum fólks sem dvelst ólöglega í Evrópu og þeirra sem eru útilokaðir frá heilbrgiðisþjónustu  vegna ýmissa reglna sem mismuna fólki vegna uppruna.

Ómar H. Kristmundsson formaður, Pálin Dögg Helgadóttir stjórnarmaður, Ingibjörg Halldórsdóttir fyrir hönd ungliðahreyfingarinnar, Kristján Sturluson framkvæmdastjóri og Helga G. Halldórsdóttir sviðsstjóri innanlandssviðs eru fulltrúar Rauða kross Íslands á fundinum.

„Það er mikilvægt að við gerum meira til að innflytjendur fái nauðsynlega aðstoð, óháð lagalegri stöðu þeirra, til að vernda réttindi þeirra og heilsu og finna fullnægjandi lausnir á vanda þeirra,” sagði Juan Manuel Suárez del Toro formaður Alþjóða Rauða krossins. „Milljónir manna sem yfirgefa heimaland sitt í leit að betra lífi hætta oft lífi sínu og verða fórnarlömb misnotkunar, vændis og mansals. Sem hreyfing sem á að gæta mannúðar og hlutleysis verðum við að vekja máls á þessum vandamálum fyrir þeirra hönd.”

Del Toro bætti því við að sjálfboðaliðar Rauða krossins og Rauða hálfmánans gegndu þegar lykilhlutverki í að útvega þeim þjónustu sem minna mega sín og í að hefta útbreiðslu alnæmis og berkla í Evrópu. Hann áréttaði einnig að slík hjálp verði að fást víðar til að bregðast við aukinni byrði sem lögð er á evrópsk heilbrigðiskerfi vegna sjúkdóma, öldrunar og félagslegra vandamála.

Um 300 manns taka þátt í sjöundu Evrópuráðstefnu Rauða krossins og Rauða hálfmánans, en fimm ár eru liðin síðan síðasta ráðstefna var haldin í Berlín. Fulltrúar landsfélaga Alþjóða Rauða krossins og samstarfsfélög þeirra sækja ráðstefnuna..

„Evrópa getur ekki lengur litið á málefni tengd heilbrigði og fólksflutningum sem vandamál innan eigin landamæra,” sagði Tekin Küçükal, formaður Rauða hálfmánans í Tyrklandi, sem heldur ráðstefnuna að þessu sinni. „Alþjóðavæðing og meiri samskipti milli landa hafa leitt af sér ný heilbrigðisvandamál. Það er því mikil þörf fyrir samhæfðar aðgerðir milli landa og að allir hópar innan samfélaga taki höndum saman og veiti meiri og skilvirkari mannúðaraðstoð. Við berum sameiginlega ábyrgð á því að mæta mannúðarþörfum nútímans með raunsæi, orku og dug.”

Í Istanbúl verða einnig lagðar nýjar áherslur á málsvarastarf þar sem landsfélög Rauða krossins og Rauða hálfmánans kanna hvernig þau geta best nýtt sér hið einstæða hlutverk sitt í vinnu með stjórnvöldum og innan eigin samfélags, í því skyni að hafa áhrif á valdhafa og almenningsálit til að berjast gegn kynþáttafordómum og útlendingahatri.