Alþjóða Rauði krossinn skorar á stríðandi aðila að fara að mannúðarlögum í Líbanon

23. maí 2007

Alþjóða Rauði krossinn lýsir áhyggjum af ofbeldisverkum í Líbanon. Félagið skorar á alla sem taka þátt í bardögunum að fara að alþjóðlegum mannúðarlögum og gæta þess sérstaklega að óbreyttir borgarar sem ekki taka beinan þátt í þessum átökum verði verndaðir gegn árásum.

Læknalið og starfsmenn mannúðarsamtaka verða að fá að vinna sína vinnu og fá óhindraðan aðgang að þeim sem særast. Hlífa skal læknaliði, ökutækjum þeirra og aðstöðu við afleiðingum ofbeldisins.

Síðan bardagar brutust út sunnudaginn 20. maí hefur Alþjóða Rauði krossinn, Rauði kross Líbanon og Rauði hálfmáninn í Palestínu sameinað krafta sína til að veita mannúðaraðstoð til fólks innan og utan flóttamannabúðanna í Nahr el-Bared, nærri Trípólí í norðurhluta Líbanon.

Rauði hálfmáninn í Palestínu hefur flutt á brott 27 manns frá búðunum til Rauða kross Líbanon, sem aftur flytur það á Safad sjúkrahúsið í búðunum í Bedawwi. Aðstaða fólksins í búðunum í Nahr el-Bared verður sífellt verri og hefur Rauði kross Palestínu dreift þangað mjólk, brauði og sjúkrabúnaði.

Rauði kross Líbanon hefur veitt 60 særðum og veikum læknishjálp og flutt á brott jarðneskar leifar 32 manna í Trípólí og nágrenni. Auk þess hefur Rauði krossinn aðstoðað óbreytta borgara sem særst hafa í tveimur síðustu sprengjuárásunum í höfuðborg Líbanon, Beirút.