Rauði krossinn skuldbindur sig til að styrkja innflytjendur í Evrópu

26. maí 2007

Landsfélög Rauða krossins og Rauða hálfmánans  í Evrópu  hafa undirritað skuldbundingar um að styðja innflytjendur í álfunni í því skyni að stuðla að því að þeir njóti jafnréttis á við aðra og jafnra tækifæra í samfélaginu. Þetta var gert á Evrópuráðstefnu Rauða krossins og Rauða hálfmánans um alþjóðlega fólksflutninga, en henni lauk í Istanbúl í gær.

Í skuldbindingunum felst meðal annars yfirlýsing um að félög Rauða krossins og Rauða hálfmánans muni vinna gegn kynþáttafordómum, útlendingahatri, mismunun og skorti á umburðarlyndi og leggja áherslu á skilning og virðingu í garð innflytjenda. Styrkja beri innflytjendur og hvetja á stjórnvöld, atvinnulíf og almenning til að berjast gegn einangrun, mismunun og útilokun fólks vegna uppruna þess.

Gagnkvæm aðlögun er grundvallaratriði í starfi Rauða krossins í málefnum innflytjenda og hyggjast landsfélögin einbeita sér sérstaklega að því viðfangsefni. Það er því mjög mikilvægt að byggja upp gagnkvæmt traust og skilning milli Rauða krossins og innflytjenda.

“Istanbul skuldbindingarnar og endurskoðuð stefna Rauða kross Íslands sem samþykkt var á aðalfundi félagsins þann 19. maí síðastliðinn eru í fullu samræmi hvort við annað” segir Ómar H. Kristmundsson, formaður Rauða kross Íslands en hann var í forsvari fyrir íslensku sendinefndina á Evrópuráðstefnunni. “Við munum því vinna innan  sama ramma og önnur landsfélög Rauða krossins og Rauða hálfmánans í Evrópu.”

Í endurskoðaðri stefnu Rauða kross Íslands felst áhersla á starf með innflytjendum og gegn félagslegri einangrun. Þetta er í samræmi við tvö meginviðfangsefni Evrópuráðstefnunnar, annars vegar heilbrigði í víðasta skilningi þess orðs og aðgengi að heilbrigðisþjónustu, og hins vegar fólksflutninga.

“Í Istanbul voru samankomnir fulltrúar frá 50 landsfélögum Rauða krossins og Rauða hálfmánans í Evrópu og þar var einhugur um að heilbrigðismál og fólksflutningar milli landa væru brýnustu viðfangsefni Rauða kross félaganna í Evrópu um þessar mundir” segir Kristján Sturluson framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands.

Rauði krossinn leggur áherslu á að innflytjendur auðgi þau lönd sem þeir flytja til, allt í senn félagslega, menningarlega og efnahagslega. Um leið fylgja fólksflutningum ýmsar áskoranir sem þau lönd sem taka á móti innflytjendum þurfa að takast á við.

Landsfélög Rauða krossins og Rauða hálfmánans lýstu því yfir að þau muni vinna að því að styrkja þau samfélög sem þau starfa í og efla sjálfboðið starf sem er grunnur að starfi hvers landsfélags. Nauðsynlegt er að sjálfboðaliðahópurinn endurspegli það samfélag sem hann er hluti af. Þeir sem standa á einhvern hátt höllum fæti þurfa sjálfir að vera þátttakendur í uppbyggingu og framkvæmd verkefna.

Í Istanbúl skuldbindingunum er jafnframt lögð áhersla á að settir verði sameiginlegir mælikvarðar á árangur og framkvæmd skuldbindinganna þannig að hægt sé að  meta árangur þeirra.