Ógnarástandið í Írak versnar stöðugt

25. maí 2007

Béatrice Mégevand-Roggo yfirmaður aðgerða Alþjóðaráðs Rauða krossins í Miðausturlöndum segir uggvænlegt hversu ástandið í Írak versni með degi hverjum.  Alþjóða Rauða krossinn hefur sent út neyðarbeiðni um aukið fjármagn til að mæta þörfum írösku þjóðarinnar.

Neyðarbeiðnin hljóðar upp á 35 milljónir svissneskra franka (1,8 milljarða íslenskra króna) til að auka starf Alþjóða Rauða krossins í Írak. Heildarfjármagn til Íraks verður nú rétt rúmlega 91 milljón svissneskra franka (4,6 milljarðar íslenskra króna). Í nýlegri skýrslu Alþjóða Rauða krossins er ógnarástandinu lýst.

„Ofbeldið í landinu bitnar mest á óbreyttum borgurum og ástandið fer ekki batnandi,” sagði Mégevand-Roggo þegar hún mælti opinberlega fyrir beiðninni í höfuðstöðvum Alþjóða Rauða krossins. Hún sagði að hvergi annarsstaðar í heiminum myndi fólk sætta sig við það mannfall á saklausum borgurum sem nú væri daglegt brauð í Írak.

Aukið fjármagn gerir Alþjóða Rauða krossinum kleift að auka við starfsemi sína í Írak. Ný skrifstofa er þegar tekin til starfa í Najaf og verið er að koma á fót tveimur til viðbótar í héruðunum Anbar og Ninawa. Sendifulltrúum verður fjölgað í 69 og íraskir starfsmenn verða 456.

Rauði krossinn mun fjölga verkefnum sínum til að ná til æ fleira fólks sem hefur neyðst til að flýja heimabyggð sín og er á vergangi, en talið er að þannig sé ástatt fyrir um 850 þúsund manns. Einnig verður lögð áhersla á að aðstoða þær fjölskyldur sem skotið hafa skjólshúsi yfir flóttamenn, og veita öldruðum, fötluðum og konum sem sjá fyrir fjölskyldum sínum aukna aðstoð. Auka á dreifingu matvæla og annarra nauðsynja til um 660 þúsund manns sem er rúmlega tvöfalt fleiri skjólstæðingar en lagt var upp með í byrjun árs.

Mégevand-Roggo lagði áherslu á að Rauði hálfmáninn í Írak gegndi lykilhlutverki í að mæta mannúðarþörfum fólksins í landinu. „Rauði hálfmáninn í Írak er mikilvægur samstarfsaðili. Án hans gætum við einfaldlega ekki veitt þá neyðaraðstoð sem þarf í landinu,” sagði hún. 

Rauði hálfmáninn er með 135 skrifstofur í Írak, 1.500 starfsmenn og 9.000 sjálfboðaliða.

Auk dreifingu hjálpargagna mun Rauði krossinn birgja sjúkrahús upp af sjúkragögnum og tækjum og bæta aðstöðu til skurðaðgerða, sérstaklega á þeim svæðum þar sem átökin eru mest. Fimm hreyfanlegar heilsugæslustöðvar verða einnig settar upp til að veita þeim læknishjálp sem ekki geta leitað hennar sjálfir. Þá verða sérfræðingar þjálfaðir í söfnun gagna við krufningar á líkum.

Einnig verður reynt að bæta aðgengi að vatni og hreinlætisaðstöðu, meðal annars með því að dreifa hreinu vatni með tankbílum, til að koma í veg fyrir útbreiðslu sjúkdóma.

Rauði krossinn hyggst einnig auka við fangaheimsóknir sínar og koma á betri tengslum milli fanga sem eru í haldi bandamanna í Bagdad og fjölskyldna þeirra. Sendifulltrúar Rauða krossins munu halda áfram að heimsækja þá sem eru í haldi fjölþjóðahersins í Írak og héraðsstjórn Kúrda í norðurhluta landsins. Verið er að semja við yfirvöld í Írak um aðgang að öllum stöðum þar sem fangar eru í haldi. Alþjóða Rauði krossinn mun einnig í samvinnu við Rauða hálfmánann í Írak reyna áfram að koma skilaboðum milli fanga og fjölskyldna þeirra.