Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna lýsir yfir ánægju með ályktun fulltrúaþings Bandaríkjanna um aukna aðstoð við flóttamenn í Kólumbíu

19. júl. 2007

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) lýsti á þriðjudag yfir ánægju með ályktun sem nýlega var samþykkt á fulltrúaþingi Bandaríkjanna sem mælir fyrir um aukna aðstoð við kólumbíska flóttamenn í Kólumbíu.

„Ályktunin – sem fékk mikinn stuðning – lýsir árið 2007 sem ár fólks sem hefur verið hrakið frá heimilum sínum í Kólumbíu og býður fram aðstoð til að hjálpa þeim að byggja upp líf sitt að nýju,“ segir Ron Redmond talsmaður UNHCR.

„Þetta er í fyrsta skipti sem fulltrúaþing Bandaríkjanna hefur viðurkennt að nauðungarflutningar fólks í Kólumbíu sé ein alvarlegasta mannúðarkrísan í amerísku heimsálfunum,“ sagði Ron Redmond ennfremur.

Að meðaltali flýja um 18.000 manns heimili sín í hverjum mánuði af völdum ofbeldis í landinu og rúmlega ein milljón hefur orðið að flýja heimili sín af þessum ástæðum undanfarin fimm ár samkvæmt UNHCR. Í ályktuninni, sem verður bráðum lögð fyrir öldungadeild Bandaríkjaþings til samþykktar, er skorað á stjórnvöld í Kólumbíu og alþjóðasamfélagið að ræða af alvöru ástandið í Kólumbíu og hvaða afleiðingar slíkur fólksflótti getur haft og þá er mælt með því að Bandaríkin auki bæði neyðaraðstoð og langtímaaðstoð fyrir þá sem þurfa að flýja heimili sín.

Félagasamtök hafa haldið því fram að fjöldi kólumbískra flóttamanna innan landamæra Kólumbíu sé allt að 3.8 milljónir.

Árið 2005 veittu íslensk stjórnvöld í fyrsta skipti kólumbískum flóttamönnum skjól á Íslandi í samráði og samvinnu við UNHCR, Rauða kross Íslands og Reykjavíkurborg. Um var að ræða 24 kólumbískar konur og börn. Í ár eru 30 kólumbískar flóttakonur og börn þeirra væntanleg til Íslands eftir að íslensk stjórnvöld ákváðu að veita þeim skjól hérlendis. Flóttafólkið er væntanlegt í haust og mun setjast að í Reykjavík og fá stuðning frá Reykjavíkurborg og Rauða krossinum.