Sýnir að alþjóðasamfélagið er meðvitað

Þórð Snæ Júlíusson blaðamann á Blaðinu

1. ágú. 2007

Viðtal við Mohammed Al-Hadid, forseti Rauða hálfmánans í Jórdaníu í tilefni heimsóknar Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur utanríkisráðherra á Ashrafiehspítala samtakanna í Amman. Greinin, eftir Þórð Snæ Júlíusson, birtist í Blaðinu 26. júlí.

 
Mohammed Al-Hadid Ræðir við unga íraska konu ásamt Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur.
Konan brotnaði illa á báðum höndum og fótum og lemstraðist mikið í andliti þegar bifreið sem hún sat í, var sprengd í loft upp. Tólf aðrir voru í bifreiðinni og létust þeir allir. Mynd: Þórður Snær Júlíusson.

„Þetta eru allt íraskir flóttamenn sem við heimsóttum á spítalanum. Fjörutíu rúm þar eru lögð undir Íraka sem slösuðust í sprengingum eða eru fórnarlömb annarra hörmunga sem eru daglegt brauð í Írak,“ segir dr. Mohammed forseti Rauða hálfmánans í Jórdaníu, en Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra heimsótti Ashrafiehspítala samtakanna í Amman í fylgd hans á sunnudag.

Al-Hadid segir spítalann hafa tekið við yfir 400 íröskum flóttamönnum sem sjúklingum síðan stríðsrekstur hófst í Írak að nýju. „Þetta er aðallega fólk sem þarfnast lýtalækninga, hefur misst útlimi eða er brunafórnarlömb. Það er hérna hjá okkur í allt að fimm mánuði og sumir fara í sex eða sjö aðgerðir til að fá bót meina sinna. Þegar þau eru orðin heil þá geta þau vonandi farið aftur til heimalands síns.“

Hinum megin við götuna rekur Rauði hálfmáninn endurhæfingarstöð. AlHadid segir starfssemina sem þar fer fram fjölbreytta. „Við einbeitum okkur aðallega að ungum stúlkum og konum vegna þess að konur frá þessu svæði eru mjög fátækar og hafa ekki efni á að fara í háskóla. Stundum vilja fjölskyldur þeirra heldur ekki senda þær í skóla þar sem kynin blandast saman. Þess vegna er þessi miðstöð einvörðungu fyrir stúlkur sem koma hingað til að hljóta menntun. Ef þær hljóta hana þá geta þær allavega farið héðan með skírteini frá jórdanska Rauða hálfmánanum sem eru samtök viðurkennd af menntamálayfirvöldum. Þær geta þá hafið líf sitt að nýju og verið skapandi þátttakendur í samfélagi.

Hann segir heimsóknir erlendra ráðamanna á sjúkrahúsið og í endurhæfingarmiðstöðina skipta miklu máli. „Heimsókn íslenska utanríkisráðherrans sýnir að alþjóðasamfélagið er meðvitað um það sem er að gerast hérna. Hún er mikill stuðningur við þá margþættu starfsemi sem jórdanski Rauði hálfmáninn starfar að mjög víða og auðvitað stuðningur við þá 700 þúsund Íraka sem eru í Jórdaníu.“