Neyðaraðstoð Rauða krossins í fullum gangi í Perú

17. ágú. 2007

Alþjóða Rauði krossinn hefur sent frá sér neyðarbeiðni vegna aðstoðar við fórnarlömb jarðskjálftans sem skók suðurhluta Perú fyrir rúmum sólarhring. Neyðarbeiðnin hljóðar upp á 92 milljónir íslenskra króna. Óttast er að yfir 500 manns hafi farist í jarðskjálftanum sem mældist um 8,0 á Richter, þúsundir hafi slasast og tugþúsundir misst heimili sín.

Rauði krossinn mun aðstoða um 20.000 manns (4.000 fjölskyldur) með því að dreifa tjöldum, teppum, fatnaði, sængurfötum og segldúkum til þeirra sem verst urðu úti í hamförunum. Hjálpargögn fyrir um 2.000 fjölskyldur voru flutt til Perú þegar í gær úr neyðarvarnabirgðum Alþjóða Rauða krossins í Panama. Neyðarteymi Rauða krossins í Perú hefur þegar hafið hjálparstörf á skjálftasvæðunum ásamt sérfræðingum frá neyðarteymi Alþjóða Rauða krossins í Ameríku sem hefur aðsetur í Panama.

„Það skiptir mestu máli að koma fólki í skjól eins fljótt og auðið er. Vetur ríkir nú í Perú og því verður að verja fólk fyrir kuldanum. Þá er mikilvægt að fórnarlömb skjálftans hafi aðgang að hreinu vatni,” segir Peter Rees, sem stjórnar aðgerðum Alþjóða Rauða krossins í höfuðstöðvunum í Genf. „Einnig er mikilvægt að fólk fái sálrænan stuðning sem fyrst í kjölfar hamfara sem þessara.”

Vegir hafa víða farið í sundur og fjarskiptasamband við skjálftasvæðin liggur að mestu niðri. Sjálfboðaliðar Rauða krossins í Perú hafa unnið sleitulaust í rúman sólarhring við að hlúa að fórnarlömbunum, veita skyndihjálp og meta þörf á frekari aðstoð. Ástandið er verst í héraðinu Ica sem er rétt suður af höfuðborginni Lima.

Sérfræðingar Rauða krossins munu meta það á næstu dögum hvort þörf sé á frekara fjármagni til hjálparstarfa. Ekki hefur verið óskað eftir sendifulltrúum frá systurfélögum Rauða krossins í Perú sem stendur, en Alþjóða Rauði krossinn er með öflugt neyðarvarnarteymi í Panama sem bregst við hamförum um gjörvalla Suður-Ameríku. Einnig eru öll landsfélög Rauða krossins á svæðinu með sérþjálfaða hjálparstarfsmenn og sjálfboðaliða sem hafa víðtæka reynslu af störfum á hamfarasvæðum sem hægt er að kalla út með litlum fyrirvara.