Bæta þarf stöðu kvenna og draga úr fátækt svo að árangur náist í baráttunni gegn alnæmi

30. ágú. 2007

Mukesh Kapila, sem stýrir alþjóðlegu átaki Alþjóðasambands Rauða krossins og Rauða hálfmánans gegn alnæmisvandanum, greindi nýlega frá nýjum leiðum til að takast á við útbreiðslu alnæmis. Á fréttamannafundi, sem Alþjóðasambandið hélt í New Kingston á Jamaika, sagði Kapila að árangurinn af baráttunni gegn alnæmi myndi af miklu leyti ráðast af því hvort hægt verði að bæta stöðu kvenna og draga úr fátækt.

Þessu alþjóðlega samvinnuverkefni var formlega hleypt af stokkunum á alnæmisdeginum árið 2006 og hefur að markmiði að samhæfa og styðja við starf allra landsfélaga Rauða krossins og Rauða hálfmánans í baráttunni gegn alnæmi. Verkefnið nær meðal annars til starfsemi Rauða krossins í Karíbahafinu en þar er mikið starf enn óunnið hvað varðar forvarnir gegn útbreiðslu sjúkdómsins og aðhlynningu þeirra sem hafa veikst.

Í máli Kapila kom fram að forvarnir hafi aðallega beinst að því að hvetja til aukinnar smokkanotkunar og að fólk stundi ábyrgt kynlíf. Nú verður hins vegar lögð áhersla á að tengja baráttuna gegn alnæmi við jafnrétti og aðrar umbætur í þjóðfélaginu.

Rauða kross hreyfingin beinir nú athyglinni að því að nauðsynlegt sé að jafna stöðu kynjanna í samfélaginu og draga úr því ofbeldi og misrétti sem konur þurfa að þola. Á fréttamannafundinum vakti Kapila einnig athygli á þeirri miklu misskiptingu auðæfa sem ríkir í löndum Karíbahafs. Milljónir manna búa enn við sárustu fátækt, en það ýtir verulega undir útbreiðslu veirunnar. Hann lagði áherslu á að þær efnahagslegu framfarir sem átt hafa sér stað á svæðinu skili sér einnig að einhverju leyti til þeirra sem minnst mega sín og eru í mestri smithættu.

Hann benti jafnframt á að átök og búferlaflutningar hefðu áhrif á útbreiðslu alnæmis. Ekki síst slæm lífsskilyrði flóttafólks gætu ýtt undir aukið smit.

Kapila minnti viðstadda að lokum á það að framfarir í læknavísindum og meðferð sjúkdómsins gætu ekki verið lausn á vandanum nema að litlu leyti. Þó að vissulega væri hægt að bjarga lífi flestra sem greinast með alnæmi með því að gefa þeim lyf þá lagði hann áherslu á það að forvarnir gegn smiti væru samt mikilvægasta vopn Rauða kross hreyfingarinnar í baráttunni gegn þessum vágesti.

Rauði kross Íslands hefur undanfarin sjö ár stutt starf í þágu alnæmissmitaðra í sunnanverðri Afríku. Félagið hefur bæði stutt alnæmisverkefni á vegum Rauða krossins í Malaví, Mósambík og Suður-Afríku og einnig veitt fé og sent sendifulltrúa til starfa við verkefni sem unnið er að í tíu ríkjum í sunnanverðri Afríku. Á árinu 2006 var framlag Rauða kross Íslands 31,6 millj. kr. til þessara verkefna og auk þess fékk félagið 5,5, millj. kr. frá utanríkisráðuneytinu til alnæmisverkefna í sunnanverðri Afríku.