Afganistan: Alþjóða Rauði krossinn hefur milligöngu um lausn tólf suður-kóreskra gísla

30. ágú. 2007

Alþjóða Rauði krossinn hafði í gær milligöngu um lausn tólf suður-kóreskra gísla úr haldi mannræningja í Afganistan. Þær tíu konur og tveir karlar sem um ræðir höfðu verið í haldi vopnaðra uppreisnarmanna í Ghazni héraði í meira en sex vikur. Vonast er til að sjö kóreskir gíslar sem enn eru í haldi mannræningjanna verði látnir lausir seinna í dag.

Starfsmenn Alþjóðaráðs Rauða krossins komu þeim í hendur suður-kóreskrar sendinefndar í bænum Ghazni. Rauði krossinn var ekki í aðstöðu til að láta fram fara ítarlega læknisskoðun en gíslarnir virtust vera við góða heilsu. Uppreisnarmenn sögðu starfsmönnum Alþjóða Rauða krossins að þeir sjö kóresku gíslar sem eftir væru yrðu leystir úr haldi fljótlega.

Alþjóða Rauði krossinn hafði milligöngu um lausn gíslanna í krafti hlutleysis samtakanna og óhlutdrægni, og var það að beiðni bæði gíslatökumanna og suður-kóresku sendinefndarinnar. Alþjóða Rauði krossinn hafði einnig milligöngu um beinar viðræður milli beggja aðila í höfuðstöðvum Ghazni deildar Afganska Rauða hálfmánans.

„Lausn þessara tólf gísla er fjölskyldum þeirra í Suður-Kóreu mikill léttir,” sagði Reto Stocker yfirmaður sendinefndar Alþjóðaráðs Rauða krossins í Kabúl. „Alþjóða Rauði krossinn er reiðubúinn til að hafa milligöngu um lausn þeirra sjö gísla sem enn eru í haldi uppreisnarmanna.”

Alþjóða Rauði krossinn hefur veitt fórnarlömbum átakanna í Afganistan vernd sína og aðstoð frá árinu 1987.