Langtíma hjálparstarf nauðsynlegt vegna flóðanna í Afríku

1. okt. 2007

Rúmlega milljón manna hefur orðið fyrir gríðarlegum skakkaföllum vegna flóða í Afríku síðan í sumar og tjónið nær nú til 18 landa. 650.000 manns hafa misst heimili sín vegna flóðanna og vitað er til þess að þau hafi orðið 250 manns að bana. Vatnselgurinn hefur jafnframt valdið skelfilegum spjöllum á uppskeru og matargeymslum.

Vegna þeirra gríðarlegu erfiðleika sem fórnarlömb flóðanna í Afríku eiga við að etja hefur Alþjóða Rauði krossinn óskað eftir því að alþjóðasamfélagið leggi hreyfingunni lið í hjálparstarfinu. Búist er við því að ástandið á svæðinu fari versnandi næstu vikur og þörf er á aðstoð bæði til skemmri og lengri tíma. Alþjóða Rauði krossinn hefur gefið út nokkrar neyðarbeiðnir til að sinna þörfum fórnarlamba á svæðinu.

„Nú er þörf fyrir mjög umfangsmikið átak til hjálpar þeim hundruðum þúsunda sem nú eiga um sárt að binda. Með því að sameinast um öflugar og samstilltar aðgerðir mun okkur takast að hjálpa fórnarlömbunum að endurbyggja líf sitt og komast í gegnum þessa erfiðleika,“ segir Niels Scott fulltrúi Alþjóða Rauða krossins í Genf.

„Við þurfum að útvega mat, húsaskjól og aðgang að hreinu vatni fyrir það fólk sem hefur lent í verstu hremmingunum. Jafnframt er nauðsynlegt að líta fram á veginn og byggja upp neyðarvarnir sem tryggja öryggi fólksins til lengri tíma. Koma þarf upp birgðum neyðargagna, byggja brunna sem standast flóð, setja upp samskiptakerfi sem hægt er að nota í neyðartilvikum, auk þess sem fjölga þarf þeim sjálfboðaliðum Rauða krossins sem hlotið hafa þjálfun í neyðarvörnum.“

Nýlega gaf Rauði krossinn í Uganda út neyðarbeiðni þar sem beðið var um 8,43 milljónir svissneskra franka (445 milljónir króna) til að sjá 100.000 manns fyrir segldúkum, flugnanetum, teppum, vatnsílátum, sápu og eldhúsáhöldum, auk verkfæra til að byggja vatnsgeyma og smíða og gera við kamra. Í Uganda hefur hálf milljón manna orðið fyrir alvarlegum búsifjum af völdum flóða og aurskriðna í austurhluta Uganda og 290.000 manns hafa orðið að yfirgefa heimili sín. Hús, vegir, brýr, frárennsliskerfi, matarbirgðir og uppskera hafa eyðilagst og vatnsból mengast. Tilkynnt hefur verið um nokkur alvarleg malaríutilfelli og óttast er að kólera og fleiri sjúkdómar kunni að brjótast út. Sjálfboðaliðar Rauða krossins í Uganda hafa dreift miklu magni hjálpargagna til þeirra sem verst hafa orðið úti.

Heilsugæsluteymi frá finnska Rauða krossinum hefur starfað á svæðinu frá 30 september. Rúmlega 150 sjúklingar leituðu lækninga strax á fyrsta degi og fjöldi annarra bíða eftir þjónustu þannig að þörfin er mikil. Fimm sjálfboðaliðar frá Rauða krossinum í Uganda eru nú í þjálfum til að taka yfir vatnshreinsistöðina í Amuria sem framleiðir 24.000 lítra af vatni á dag. Alþjóða Rauði krossinn notar þyrlur til að dreifa hjálpargögnum og meta aðstæður.

Alþjóða Rauði krossinn hefur hækkað neyðarbeiðni sína fyrir Ghana í sem svarar rúmlega 13 milljónum íslenskra króna og þar er um leið óskað er eftir framlögum til aðstoðar Rauða krossinum í Togo. Þessari upphæð er ætlað að sjá 11.000 fórnarlömbum hamfaranna í Togo fyrir flugnanetum, teppum og öðrum nauðsynlegum hjálpargögnum. Talið er að 25 manns hafi látið lífið í flóðum í Togo, 100 hafi slasast, 100.000 orðið fyrir efnahagslegu tjóni og að rúmlega 3.000 fjölskyldur hafi misst heimili sín.

„Ástandið er sérlega slæmt á þurrum sléttunum í norðurhluta landsins. Á síðasta ári var talið að tveir þriðju íbúa á svæðinu hefðu ónógan mat og að þriðjungur barna undir fimm ára aldri byggju við næringarskort,“ segir Niels Scott. „Það er lífsnauðsynlegt að koma matvælum til þeirra sem líða mestan skort, auk útsæðis og verkfæra. Einungis með því móti má afstýra alvarlegum næringarskorti á svæðinu og tryggja nægilega uppskeru á næsta ári.“

Landsfélög Rauða krossins á svæðinu eiga náið samstarf við yfirvöld og hafa kallað út hundruð sjálfboðaliða og starfsmanna til að dreifa hjálpargögnum til fórnarlamba flóðanna og koma í veg fyrir útbreiðslu sjúkdóma.