Alvarlegt ástand á Gaza-ströndinni

3. okt. 2007

„Gaza-ströndin hefur verið nær algerlega lokuð í þrjá mánuði og ástandið er að verða mjög alvarlegt,“ sagði Angelo Gnaediger frá Alþjóða Rauða krossinum eftir nýlega heimsókn sína til Gaza. Erfitt er að halda sjúkrahúsum, vatnsveitum og skólpkerfi gangandi og fátækt hefur aukist gífurlega meðal almennings á svæðinu.

Vatn og skólp
Aðgerðir hersins og innbyrðis deilur Palestínumanna hafa valdið miklum skemmdum á orkuveitu, seinkunum á greiðslum og stöðvað flutninga á eldsneyti. Þetta ásamt öðrum erfiðleikum hefur komið í veg fyrir rekstur og viðgerðir á vatnsveitum og frárennsliskerfi á Gaza-ströndinni.

„Við létum fara fram neyðarviðgerðir á stíflu í Beit Lahia á síðasta ári eftir að hún hafði brostið og orðið fimm manns að bana. 250 hús eyðilögðust jafnframt í vatnsflauminum. Okkur tókst að leysa vandann til bráðabirgða en eftir það hefur ekki verið hægt að gera neitt fleira,” útskýrði Gnaediger. „Þegar fer að rigna, sem getur gerst bráðum, þá blasir við okkur enn verra ástand.” Við Khan Yunis stífluna er ástandið svipað.

Sjúkrahús
Í nýlegri athugun Alþjóða Rauða krossins á níu sjúkrahúsum á Gaza-ströndinni kom í ljós að tæki þeirra og búnaður eru í mjög slæmu ástandi. Aðstaða, tæki til sjúkdómsgreininga og annar búnaður er að stórum hluta í ólagi vegna skorts á viðhaldi og birgðir af mörgum mikilvægum lækningavörum búnar. Varahlutir eru ófáanlegir innanlands og innflutningshömlur gera sjúkrahúsum ómögulegt að nota þá birgja sem þeir hafa yfirleitt reitt sig á.

Þrátt fyrir ráðstafanir til að koma hjálpargögnum inn á Gaza-ströndina, þá hafa fulltrúar Alþjóða Rauða krossins lýst yfir áhyggjum sínum vegna ástandsins. Þeir varahlutir og aðrar birgðir sem hægt er að flytja inn á svæðið eru ekki nægilegar til að viðhalda þeim búnaði og aðstöðu sem eru nauðsynleg til að sjá megi 1,4 milljónum manna fyrir lífsnauðsynlegri læknisaðstoð.

Sjúkraflutningar
Þann 18. september hóf Ísraelsher hernaðaraðgerðir í Ein Bet EL-Maa flóttamannabúðunum í borginni Nablus. Fyrstu tvo daga þessara aðgerða hélt Alþjóða Rauði krossinn uppi sambandi við stjórnvöld í Ísrael til að tryggja brottflutning sjúkra og særðra. Þann 20. september fengu hjálparstofnanir tvær klukkustundir til að dreifa matvælum og vatni til íbúa búðanna. Bæjarstarfsmönnum tókst að gera við vatns- og rafmagnsveitur. Fjórir sjúkrabílar frá palestínska Rauða hálfmánanum voru notaðir til sjúkraflutninga og aðstoðuðu við dreifingu matvæla.

Alþjóða Rauði krossinn hefur einnig lýst yfir áhyggjum sínum vegna þess hve fáum sjúklingum hefur að undanförnu verið hleypt út af svæðinu til að leita læknishjálpar.

Áframhaldandi efnahagsleg hnignun
Vegna þess að Gaza-ströndin er nær algerlega lokuð, þá er innflutningur á vörum mjög takmarkaður og engar vörur er hægt að flytja út. Fjöldi fyrirtækja hefur þurft að stöðva starfsemi sína. Atvinnuleysi hefur vaxið mikið í kjölfarið og margar fjölskyldur búa við gríðarlega fátækt. Landbúnaður er í mikilli kreppu sökum þess að flestar afurðir eru ætlaðar til útflutnings.

Alþjóða Rauði krossinn hefur staðið fyrir fjölda mannúðarverkefna frá því í sumar, þar á meðal fjölda viðgerða á sjúkrahúsum, vatnsveitum, vatnshreinsistöðvum og öðrum mikilvægum mannvirkjum. Lyf og sjúkragögn hafa verið flutt þangað sem skorturinn er mestur og reynt hefur verið að auðvelda sjúkraflutninga. Einnig hefur Alþjóða Rauði krossinn farið í heimsóknir í fangelsi og átt viðræður við stjórnvöld til að tryggja að réttindi fanga séu virt.