Tvö ár liðin frá jarðskjálftanum í Pakistan

8. okt. 2007

Liðin eru tvö ár frá jarðskjálftunum í Pakistan þann 8. október 2005. Þeir urðu rúmlega 73.000 manns að bana og eyðilögðu heimili 3,5 milljóna manna. Endurbygging á þeim svæðum sem urðu verst úti er nú langt á veg komin og mjög hefur dregið úr þörfinni fyrir neyðaraðstoð. Þess er vænst að í vetur geti pakistanski Rauði hálfmáninn og Alþjóða Rauði krossinn beitt kröftum sínum til endurbyggingar í stað neyðaraðstoðar til þeirra samfélaga sem verst urðu úti í skjálftunum.

Um þetta leyti á síðasta ári var Rauði krossinn að undirbúa viðamikið hjálparstarf til aðstoðar tugum þúsunda manna sem stóu frammi fyrir öðrum vetri sínum í illa upphituðum bráðabirgðaskýlum. Aðgerðirnar heppnuðust vel og rúmlega 18.000 fjölskyldur á afskekktum stöðum fengu þau hjálpargögn sem þarf til að geta tekist á við veturinn í fjöllunum. Ríflega 1,1 milljón manna hafa nú fengið neyðaraðstoð frá pakistanska Rauða hálfmánanum og Alþjóða Rauða krossinum.

Lífsbaráttan er enn hörð í þessum strjálbýlu fjallahéruðum en þeir sem minnst mega sín úr hópi fórnarlamba jarðskjálftans hafa bætt kjör sín verulega. Flestir þeirra hafa snúið aftur í þorp sín og eru langt komnir með að endurreisa húsakost og aðra aðstöðu. Nú þegar neyðaraðstoð er að mestu lokið hefur Rauði krossinn sett á fót verkefni til að endurbyggja hús, atvinnutæki, heilsugæslu, vatnsveitur og skólp, og auka getu þeirra til að bregðast við hamförum. Til að sjá til þess að verkið sé unnið af kostgæfni verður uppbyggingarstarf Alþjóða Rauða krossins í kjölfar jarðskjálftans framlengt til ársins 2009.

Palestínski Rauði hálfmáninn, Alþjóða Rauði krossinn og aðrir aðilar að hreyfingunni vinna nú að 42 verkefnum sem lúta að endurbyggingu almannaþjónustu. Fyrir lok ársins 2007 verður byrjað á byggingu 25 skóla og sjúkrastofnana. Stefnt er að því að ljúka öllum verkefnum seint á árinu 2008 eða á fyrrihluta ársins 2009.

Khalid Kibryia, framkvæmdastjóri palestínska Rauða hálfmánans segir að endurbygging skóla, heilbrigðisstofnana og annarrar samfélagsþjónustu sé í samræmi við áherslur landsfélagsins. „Við höfum farið um hamfarasvæðin og rætt við íbúana til að sjá til þess að endurreisn tiltekinna bygginga eða stofnana sé í samræmi við óskir íbúa á svæðinu.“ Endurbyggingarstarfið nær mjög víða. Nærri 90.000 manns hafa fengið betri aðgang að vatni eftir að gert hefur verið við vatnsveitur eða þær endurbyggðar. Með þeim verkefnum sem nú eru ráðgerð á vegum palestínska Rauða hálfmánans og Alþjóða Rauða krossins munu alls 160.000 manns njóta aukins aðgangs að vatni um mitt árið 2009.

Heilsugæsluteymi ferðast enn um landið og þjóna allt að 2000 manns í viku hverri. Það eru aðallega íbúar afskekktra þorpa sem fá heilsugæslu með þessum hætti og til stendur að veita þessa þjónustu áfram uns almenn heilsugæsla hefur verið endurreist á svæðinu. Rúmlega 9.000 fjölskyldur hafa fengið brýnustu lífsnauðsynjar og þúsundir eiga enn eftir að fá aðstoð á næstu tveimur árum meðan á verkefninu stendur. Azmat Ulla yfirmaður sendinefndar Alþjóða Rauða krossisns í Pakistan segir að með aðgerðunum batni möguleikar þessara samfélaga á að standa á eigin fótum og um leið verði pakistanski Rauði hálfmáninn færari um að hjálpa þeim sem minnst mega sín.

„Verkefnin eru  mjög margvísleg, meðal annars fræðsla um hreinlæti fyrir almenning og þjálfun fyrir neyðarsveitir palestínska Rauða krossins. Það er mikilvægt að endurbygging á hamfarasvæðum í Pakistan nái til allra þátta samfélagsins og það er ekki fyrr en öllum markmiðum okkar hefur verið náð sem við getum sagt að endurbyggingu sé lokið.“ sagði Ulla.

Átta sendifulltrúar Rauða kross Íslands fóru til starfa í Norður-Pakistan á síðustu mánuðum ársins 2005 og í byrjun árs 2006. Rauði kross Íslands studdi neyðarstarfið vegna jarðskjálftanna alls um 60 milljónir króna.