Takast þarf á við afleiðingar loftslagsbreytinga

10. okt. 2007

Loftslagsbreytingar hafa valdið því að hamfarir í heiminum hafa á undanförnum misserum orðið bæði tíðari og alvarlegri en á undanförnum áratugum. Það hefur orðið til þess að Sameinuðu þjóðirnar og Alþjóða Rauði krossinn gefa nú út áskorun til stjórnvalda í þjóðríkjum heims um að leggja aukna áherslu á að draga úr hættunni sem stafar af náttúruhamförum.

Þessi áskorun var lögð fram í dag á fundi með öllum aðildarþjóðum Sameinuðu þjóðanna. Á fundinum lagði Alþjóða Rauði krossinn í félagi við Sameinuðu þjóðirnar (UN/ISDR, United Nations International Strategy for Disaster Reduction) fram hugmyndir sínar um að auka starf Rauða kross hreyfingarinnar á sviði fyrirbyggjandi aðgerða til að draga úr því tjóni sem náttúruhamfarir á borð við flóð og fellibylji valda íbúum á hættusvæðum. Fyrirhugaðar aðgerðir felast fyrst og fremst  í fyrirbyggjandi aðgerðum til að vernda mannslíf, draga úr tjóni af völdum hamfara og auka getu samfélagsins til að bregðast við þeim.

„Fyrirbyggjandi aðgerðir gagnvart náttúruhamförum eru mjög mikilvægur hluti af viðbrögðum alþjóðasamfélagsins gagnvart loftslagsbreytingum,“ sagði John Holmes, yfirmaður UN/ISDR. Loftslagsbreytingar valda nú þegar auknum flóðum, þurrkum, hitabylgjum og fellibyljum. Það er álit okkar að meira þurfi að gera til að koma í veg fyrir þann skaða sem slíkar hamfarir valda.“

Ríflega 250 milljónir manna verða á ári hverju fyrir tjóni af völdum náttúruhamfara sem er þriðjungi meira en fyrir tíu árum. Í löndum þar sem þróunarstig er lágt hefur fjöldi atburða af þessu tagi tvöfaldast á sama tíma.

Alþjóða Rauði krossinn stóð fyrir hjálparstarfi af völdum 482 náttúruhamfara árið 2006. Árið 2004 þurfti hreyfingin hins vegar aðeins að bregðast við 278 viðburðum af því tagi. Þessi aukning skýrist fyrst og fremst af aukinni tíðni flóða og öðrum veðurfarslegum fyrirbrigðum. Árið 2004 veitti Alþjóða Rauði krossinn neyðaraðstoð vegna 54 flóða, en tveimur árum síðar var sú tala komin í 121. Á þessu ári hefur Alþjóða Rauði krossinn þegar brugðist við rúmlega 100 flóðum. Sameinuðu þjóðirnar hafa fyrir sitt leyti þegar gefið út 13 neyðarbeiðnir frá áramótum, og hafa með því slegið fyrra met sitt sem var 10 neyðarbeiðnir á einu ári. Af þessum 13 neyðarbeiðnum voru 12 vegna hamfara af völdum loftslagsbreytinga.

„Þrátt fyrir sérstakar aðgerðir ýmissa landa, þá benda athuganir til þess að ekki meira en fjögur prósent af þeirri mannúðaraðstoð sem veitt er árlega í heiminum renni til aðgerða til að draga úr hættunni af völdum hamfara,“ sagði Markku Nissala, framkvæmdastjóri Alþjóða Rauða krossins. „Þetta hlutfall þarf meira en að tvöfaldast ef alþjóðasamfélagið hyggst ná verulegum árangri í því að tryggja framtíð þeirra sem minnst mega sín.“

Alþjóða Rauði krossinn hefur átt náið samstarf við landsfélög í öllum heimshlutum (The Global Alliance for Disaster Risk Reduction) um gerð áætlana til að draga úr þessari hættu. Fyrirhugaðar aðgerðir felast fyrst og fremst í því að virkja þá möguleika sem samfélög á hættusvæðum hafa til að hrinda forvarnaraðgerðum sjálf í framkvæmd. Áætlanir gera ráð fyrir umsvifamiklum verkefnum á næstu 12 mánuðum. Alþjóða Rauði krossinn er jafnframt í samstarfi við hinar ýmsu stofnanir Sameinuðu þjóðanna, Alþjóðabankann, hjálparstofnanir, stofnanir á sviði veðurfræði og stjórnvöld ýmissa landa um aðgerðir til að draga úr hættunni á náttúruhamförum í framtíðinni.