Rauði krossinn aðstoðar þúsundir manna vegna skógareldanna í Suður-Kaliforníu

25. okt. 2007

Rauði krossinn sinnir hjálparstarfi fyrir þær þúsundir manna sem hafa þurft að flýja heimili sín vegna skógareldanna í Suður-Kaliforníu.

Aðfararnótt miðvikudags hafði Rauði krossinn opnað 23 fjöldahjálparstöðvar sem hýstu þá vel á sjötta þúsund manns. 75 bílar eru á ferðinni, sem sjá um matvæladreifingu til þolenda og 40 vörubílar hafa komið á staðinn, fullir af matvælum og öðrum nauðsynjum.

Flestar fjöldahjálparstöðvarnar eru starfræktar í opinberum skólabyggingum eða félagsmiðstöðvum. Í þeim er þolendum séð fyrir gistiaðstöðu, nýjustu upplýsingum um ástandið, heitum mat, auk sálræns stuðnings og aðhlynningar.

Fyrst um sinn leggur Rauði krossinn megináherslu á að starfrækja fjöldahjálparstöðvar, sjá þolendum fyrir mat og sálrænum stuðningi.

Í framhaldi munu sjálfboðaliðar Rauða krossins leggja meiri áherslu á að sinna sérstaklega þörfum þeirra sem hafa misst heimili sín í hamförunum.

1500 Rauða kross sjálfboðaliðar frá ýmsum deildum í Suður-Kaliforníu hafa verið að störfum sleitulaust síðan eldarnir kviknuðu á sunnudaginn og tvö þúsund hafa bæst við frá deildum víðs vegar um Bandaríkin. Auk þess hefur mexíkóski Rauði krossinn sent sjálfboðaliða til Bandaríkjanna til að aðstoða hina fjölmörgu spænskumælandi þolendur.