Tsjad: sameiginleg fréttatilkynning frá Alþjóða Rauða krossinum, Flóttamannastofnun og Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNHCR og UNICEF) vegna barnanna 103 frá Abéché

1. nóv. 2007

Abéché, 1. nóvember 2007 – Alþjóða Rauði krossinn (ICRC), Flóttamannastofnun og Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNHCR og UNICEF) hafa sameiginlega annast börnin 103 sem tekin voru úr umsjá starfsmanna frönsku samtakanna Örk Zoéar á flugvellinum í Abéché þann 25. október síðastliðinn.  Starfsmenn frönsku samtakanna voru handteknir í kjölfarið.

Börnin eru nú vistuð í munaðarleysingjahæli í borginni Abéché.  Alþjóða Rauði krossinn, Flóttamannastofnun og UNICEF hafa farið þess á leit við yfirvöld í Tsjad að þau sjái börnunum fyrir húsnæði, fæði, og brýnustu nauðsynjum auk heilbrigðisþjónustu með stuðningi Rauða krossins í Tsjad.

Starfsmenn Alþjóða Rauða krossins, Flóttamannastofnunar og UNICEF hafa undanfarna daga rætt við börnin til að komast að persónulegum högum þeirra og hvaðan þau eru upprunninn.  Talað hefur verið við öll börnin – 21 telpu og 83 drengi – sem eru á aldrinum 1-10 ára.  Erfitt hefur reynst í tilfellum yngstu barnanna að fá áreiðanlegar upplýsingar, en talið er fullvíst að minnsta kosti 85 þeirra séu frá þorpum sem liggja við landamæri Tsjad og Súdan nærri borgunum Adré og Tine.

Í viðtölunum við hjálparstarfsmenn um fjölskylduhagi minntust 91 þeirra á að þau væru í umsjá fullorðins einstaklings sem að öllum líkindum er foreldri þeirra.  Reynt verður að komast að högum hinna 12 svo hægt verði að leita fjölskyldna þeirra.

Starfsfólk hjálparsamtakanna þriggja, innlend hjálparsamtök og fulltrúar yfirvalda frá Tsjad vinna nú hörðum höndum að því að komast að uppruna hvers og eins barns svo hægt sé að koma þeim sem fyrst aftur í umsjá fjölskyldna þeirra. 

Þetta er mikilvægur stuðningur við yfirvöld í Tsjad.   Viðkvæmt ástand ríkir á svæðinu þaðan sem börnin voru tekin, og þörf á því að sjálfstæð, óháð samtök eins og Alþjóða Rauði krossinn aðstoði við að koma þeim aftur til síns heima.  Þangað til munu Rauði krossinn og stofnanir Sameinuðu þjóðanna sjá til þess að börnin fái alla nauðsynlega umönnun.

Frekari upplýsingar veitir Sólveig Ólafsdóttir í síma 893 9912 eða 570 4014.